Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku birtist pistill um breytingar á skattmati bifreiðahlunninda eftir Sigríði Á. Andersen lögmann. Eldra fyrirkomulagið var mjög ósanngjarnt og vanmat hlunnindin sem fylgdi því að vera á eldsneytisbíl miðað við rafbíl sem jók rekstrarkostnað bílaflota fyrirtækja. Það var ósanngjarnt gagnvart þeim launþegum og vinnuveitendum sem höfðu skipt eða vildu skipta yfir í hagkvæmari rafbíla en beinn rekstrarkostnaður rafbíla getur verið um 50-60% lægri auk ótvíræðs ávinnings fyrir íslenskt samfélag.
Í Viðskiptablaðinu í síðustu viku birtist pistill um breytingar á skattmati bifreiðahlunninda eftir Sigríði Á. Andersen lögmann. Eldra fyrirkomulagið var mjög ósanngjarnt og vanmat hlunnindin sem fylgdi því að vera á eldsneytisbíl miðað við rafbíl sem jók rekstrarkostnað bílaflota fyrirtækja. Það var ósanngjarnt gagnvart þeim launþegum og vinnuveitendum sem höfðu skipt eða vildu skipta yfir í hagkvæmari rafbíla en beinn rekstrarkostnaður rafbíla getur verið um 50-60% lægri auk ótvíræðs ávinnings fyrir íslenskt samfélag.
Ofmat hlunninda vegna rafbíla leiðrétt
Sigríður bendir réttilega á í pistli sínum að „meginreglan er að hlunnindi skuli metin til tekna á markaðsvirði, þ.e. því verði sem það hefði kostað viðtakanda hlunninda að kaupa, leigja eða greiða fyrir afnot sem féllu til hans“.
Sigríður gefur hins vegar ranglega í skyn í pistli sínum að hlunnindamat eldsneytisbíla hafi hækkað við breytinguna en svo er ekki því það er óbreytt í 28%. Breytingin fólst í því að hlunnindamat rafbíla lækkaði í 20% því það var ofmetið. Þar sem hefðbundnir eldsneytisbílar eru mun dýrari í rekstri en nútímalegir rafbílar þá er augljóst að sá launþegi sem hefur heimild til að nýta eldsneytisbíl fyrirtækis í eigin þágu nýtur meiri hlunninda því ella hefði launþeginn þurft að standa undir hærri rekstrarkostnaði.
Hlunnindi lækka enn frekar ef launþegi velur að greiða rekstrarkostnað
Ef launþegi velur að greiða fyrir rekstrarkostnað þ.e. eldsneyti, þrif og smurningu á bensínbílinn er fyrirkomulagið óbreytt og greiðir launþeginn þá 22% hlunnindi. Ef launþeginn hefur aðgang að rafbíl og velur á sambærilegan hátt að greiða fyrir rekstrarkostnað sem í tilfelli rafbíls er raforka og þrif því engin þörf er á smurningu þá lækkar hlunnindamatið eins og áður og greiðir launþeginn þá 17% hlunnindi.
Kaupverð rafbíla í mörgum tilfellum lægra en eldsneytisbíla
Sigríður skrifar ranglega að afskriftir skipti máli í mati á hlunnindahlutfallinu. Það er ekki rétt enda eru þær afleiða af kaupverði bílsins og því dýrari sem bíllinn er því meira er greitt fyrir hlunnindin og öfugt eftir því sem bíllinn er ódýrari. Það er einnig rangt að afskriftir séu hærri á rafbílum en bensínbílum enda margir rafbílar jafnvel orðnir ódýrari en eldsneytisbílar.
Rekstrarkostnaður rafbíla um 50-60% lægri en eldsneytisbíla
Sigríður nefnir einnig ranglega í lok pistils síns að rekstrarkostnaður rafbíla sé hærri en eldsneytisbíla sem er frekar undarlegt því alkunna er að því er öfugt farið og er varlega áætlað að beinn rekstrarkostnaður rafbíls getur verið 50-60% lægri en sambærilegs eldsneytisbíls. Orkukostnaður rafbíla er auðvitað margfalt lægri en eldsneytisbíla auk þess sem viðhald og viðgerðir rafbíla eru mun ódýrari sökum færri íhluta sem kallar á færri verkstæðisheimsóknir. Í rafbílum er t.d. engin hefðbundin vél sem þarf reglulega á smurningu að halda, tímareim né pústkerfi eða flókinn mengunarbúnaður svo dæmi séu tekin. Kostnaður við hjólbarða og ökutækjatryggingar er sambærilegur.
Gjaldeyrir sparast með minni kaupum á jarðefnaeldsneyti og íblöndunarefnum
Breytt hlunnindamat rafbíla er því sanngjarnt og leiðréttir óréttlæti sem fólst í ofmati á hlunnindum vegna afnota launþega á rafbíl í eigu vinnuveitanda. Það opnar um leið fyrir atvinnurekendur að velja ódýrari rafbílakostinn og lækka rekstrarkostnað bílaflota fyrirtækisins. Um leið hagnast samfélagið því rafbílar sem aka á íslenskri orku draga úr gjaldeyrisútstreymi vegna kaupa á dýru jarðefnaeldsneyti. Það dregur einnig úr þörf á því að verja verðmætum gjaldeyri í kaup á dýrum íblöndunarefnum fyrir eldsneyti til að draga úr loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda því rafbílar sem aka á íslenskri orku menga ekki og losa ekkert.
Egill Jóhannsson er forstjóri Brimborgar.