Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Mjólkursamsölunnar og stjórnarmaður í Miðflokknum, skrifar langa grein í Viðskiptablaðið 7. júlí sl. til að svara „endahnút“ undirritaðs sem birtist 30. júní, um þá viðskiptahindrun sem felst í misræmi í tollflokkun á milli Íslands og Evrópusambandsins.
Hagfræðingurinn fer þar með langt mál og alls konar raus um atriði, sem koma því ekkert við sem ég skrifaði um í áðurnefndri grein, en sakar mig hins vegar um „blekkingaleik“. Erna svarar þannig alls konar meiningum Ólafs Stephensen sem eru hvergi til nema í hennar eigin hugskoti. Ég hélt því t.d. aldrei fram að Ísland ætti að leggja sömu tolla og ESB á allar vörur, enda væri það galið þar sem Ísland stendur utan tollabandalags sambandsins.
Erna fer mikinn um að málflutningur þurfi að byggjast á staðreyndum. Hér eru þrjár, sem verða ekki hraktar enda staðfestar í opinberum skjölum.
Í fyrsta lagi greinir íslenzk tollayfirvöld og tollayfirvöld í ESB á um tollflokkun á tilteknum vörum.
Í öðru lagi hefur tollstjórinn hjá embætti Ríkisskattstjóra lýst því yfir að „tollskrá Evrópusambandsins og skýringabækur hafa í raun ekkert gildi hvað tollflokkun þessarar vöru varðar eða tollflokkun á Íslandi yfirleitt.“
Í þriðja lagi eru staðfest dæmi um að innflutningsfyrirtæki fái háa bakreikninga frá Skattinum fyrir að hafa flutt inn vörur á „röngu“ tollskrárnúmeri, þrátt fyrir að hafa verið í góðri trú þar sem tollayfirvöld í ESB töldu flokkunina rétta – og einnig sumir af embættismönnum Ríkisskattstjóra.
Þessar þrjár staðreyndir lýsa vandamáli í viðskiptum Íslands og Evrópusambandsins, sem Félag atvinnurekenda og Íslensk-evrópska verslunarráðið, sem FA rekur, hafa skorað á stjórnvöld að leysa úr með því að samræma tollflokkun milli Íslands og ESB. Þetta er nú allur blekkingaleikurinn.
Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 14. júlí 2022.