Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, tilkynnti rétt fyrir helgi um nýjar reglur um val á einstaklingum til stjórnarsetu í stærri ríkisfyrirtækjum. Reglunum er ætlað að tryggja að tilnefndir stjórnarmenn veljist á grundvelli hæfni, menntunar eða reynslu.
Hrafnarnir fagna þessari breytingu og undrast í raun að þessar reglur séu fyrst núna að taka gildi.
Reglurnar eiga eins og fyrr segir við stærri ríkisfyrirtæki en athygli vakti að Ríkisútvarpið fellur ekki þarna undir vegna sérreglna um að Alþingi tilnefni í stjórn stofnunarinnar. Þeir stjórnarmenn RÚV sem telja stjórnarfundi fyrst og fremst vettvang til að ræða sjónvarpsdagskrá ríkismiðilsins geta því andað léttar.
Það sama verður því miður ekki sagt um Baldvin Örn Ólason, stjórnarmann í Íslandspósti og meðlim í La Familia Sæland. Þó hafa margir velt fyrir sér hvort hann sé hreinlega til, frekar en Flokkur fólksins sem skráð stjórnmálaafl.
Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 19. febrúar sl.