Í Viðskiptablaðinu þann 30.10 s.l. birtist grein þar sem fjallað er um meint tap undirritaðs og annarra af fjárfestingu í Sýn hf. Í Viðskiptablaðinu þann 9.10 birtist opnufrétt um sama efni, þar sem tapið er sagt vera 950 milljónir. Í síðari greininni er lagt upp með að tapið sé í raun tvöfalt vegna vinstri slagsíðu hjá miðlum Sýnar hf.
Varðandi tap upp á 950 milljónir er það að segja að umrædd fjárfesting var alltaf hugsuð til lengri tíma, það var yfirlýst og er óbreytt. Á langferðum tjáir lítt að missa kjark eða svefn þótt ekki fari allt eins og á verður kosið. Bókhaldslega erum við í mínus. En mín skoðun er óbreytt, Sýn hf. er með frábærar eignir og ég mun fá mína fjárfestingu til baka með góðri ávöxtun, þótt það taki mögulega lengri tíma.
Hvað varðar hina meintu vinstri slagsíðu á miðlum Sýnar er það að segja að eigendum Sýnar hf. er óheimilt að hafa afskipti af ritstjórn. Þeir sem koma að fréttaflutningi á vegum Sýnar hf. starfa undir ritstjórnarstefnu, ábyrgð stjórnenda og eigin fagmennsku – eins og tíðkast hjá alvöru fjölmiðlum. Sama gildir samkvæmt lögum um hlutafélög, þar sem mælt er fyrir stjórnskipulag hlutafélaga. Sjálfur myndi ég aldrei skipta mér af fréttaflutningi eða einstökum ráðningum á fjölmiðlum Sýnar. Það er mjög hæft fólk við stjórnvölin hjá Sýn hf. og ég efast ekki um að það leysi þetta vandamál, ef það er raunverulega til staðar, eins og önnur í starfsemi þessa ágæta fyrirtækis.
Höfundur er fjárfestir og hluthafi í Sýn.
Athugasemd ritstjórnar: Síðari greinin sem vísað er til í þessum pistli var skoðanapistillinn Óðinn.