Á rúmri öld hefur íslenskt samfélag gjörbreyst. Fyrir rúmum hundrað árum síðan var meðalævi Íslendinga 75% af því sem hún er í dag og við vorum á meðal fátækustu þjóða heims. Í dag njótum við lífskjara á við það sem best gerist, lifum þriðjungi lengur og við eigum eitt fremsta lífeyriskerfi heims, kerfi sem var samið um í kjarasamningum fyrir hálfri öld og hefur sannað gildi sitt.
Breytingar eru hluti af lífinu en það er okkur eðlislægt að vera á móti breytingum og því eru þær oft erfiðar. Núlifandi kynslóðir eru að upplifa tíma breytinga í veldisvexti, eiga raunverulega möguleika á því að lifa tíma gnægðar orku, matar og tenginga á heimsvísu en standa á sama tíma frammi fyrir áskorunum þegar kemur að loftslagsmálum, sjálfvirknivæðingu og geopólitískri stöðu.
Efnahagslegur stöðugleiki er grundvöllur þess að við verjum lífskjör og fjárfestum í nauðsynlegri umbreytingu og framþróun. Það kann að hljóma kunnuglega en fyrir aldarþriðjungi síðan vorum við föst í vítahring verðbólgu. Þá þurfti þjóðarsátt til að ná fram nauðsynlegum breytingum, fólk og fyrirtæki stóðu saman og sköpuðu efnahagsleg skilyrði sem lögðu grunn að núverandi lífskjörum.
Hæstu meðallaunin
Íslendingar eru í öfundsverðri stöðu, við höfum miklu að tapa en við náum ekki árangri nema við stöndum saman, samtaka losnum við úr vítahring verðbólgu. Það er ekkert til sem heitir séríslensk hagfræði, við þurfum að viðurkenna að alþjóðleg viðmið gilda hérlendis þegar kemur að hagstjórninni. Hafa hugrekkið til þess að segja „hingað og ekki lengra, þetta gengur ekki svona“.
Laun á Íslandi eru með þeim hæstu í heiminum, hvort sem horft er til meðallauna eða lágmarkslauna, kaupmáttarleiðrétt. Meðallaun á Íslandi voru í raun þau allra hæstu innan OECD í fyrra. Verðmætasköpun á mann er hins vegar ekki alveg sú mesta og þegar litið er til vergrar landsframleiðslu á mann er Ísland í níunda sæti innan OECD, sem er frábær árangur hjá jafn litlu hagkerfi og Ísland er. Hlutur launafólks í þeim verðmætum sem við sköpum á landinu er óvíða meiri, laun og launatengd gjöld voru um 60% af vergum þáttatekjum árið 2022.
Það er ekkert til sem heitir séríslensk hagfræði, við þurfum að viðurkenna að alþjóðleg viðmið gilda hérlendis þegar kemur að hagstjórninni.
Að aðföngum undanskildum þá er launakostnaður að jafnaði langstærsti einstaki kostnaðarliður fyrirtækja. Launabreytingar hafa því mikil áhrif á kostnað fyrirtækja og mikil áhrif á hagstjórnina. Launahækkanir byggja annars vegar á kjarasamningum þar sem samið er um þau lágmarkslaun sem gilda í landinu og hins vegar á launaviðtölum stjórnenda við þá starfsmenn sem fá greidd markaðslaun.
Undanfarin tuttugu ár hafa launahækkanir á Íslandi verið 7% árlega að jafnaði á meðan þær hafa verið 2-4% í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Verðbólga hefur mælst um 5% á Íslandi yfir sama tímabil en 1-2% í samanburðarlöndunum og stýrivextir á Íslandi hafa verið tæp 7% á meðan þeir hafa verið 1-2% á hinum Norðurlöndunum.
Ný nálgun nauðsynleg
Hagtölurnar sýna okkur svart á hvítu að árlegar launahækkanir um 7% eru innistæðulausar, framleiðni á vinnustund hefur aukist að meðaltali um 1,3% árlega undanfarinn áratug og 1,5% síðastliðin fimm ár, auk þess sem verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5%. Við vitum sem er að launahækkanir án innistæðu enda sem verðbólgufóður. Við fáum séríslensku vinnubrögðin og agaleysið í bakið og það kostar sitt. Hvert einasta prósentustig vaxta kostar íslensk fyrirtæki (án fjármálafyrirtækja og eignarhaldsfélaga) 30 milljarða árlega í fjármagnskostnað. Hvert einasta prósentustig sem vextir lækka um skilar 33 þúsund krónum í vasa heimilis með 40 milljón króna húsnæðislán, lækkunin jafngildir 57 þúsund króna launahækkun.
Það er kominn tími til þess að úrelda gamlar séríslenskar reikningsaðferðir. Við þurfum að tileinka okkur nýja nálgun til þess að verja núverandi lífskjör og skapa skilyrði fyrir fjárfestingu í nauðsynlegri umbreytingu og framþróun. Þegar aðilum vinnumarkaðarins lánast að semja um launahækkanir innan svigrúms þá má enginn hlaupa undan merkjum. Tími umhugsunarlausra sjálfvirkra launaog verðbreytinga er liðinn, það er einfaldlega of mikið í húfi til þess að breyta ekki um hegðun. Kynslóðunum á undan okkur tókst erfiðara verkefni við verri skilyrði, við skuldum þeim og kynslóðunum sem koma á eftir okkur að vera hugrökk og skynsöm en ekki huglaus og skammsýn. Það er verk að vinna og það er okkar allra.
Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.