Það er vinsælt meðal sumra frambjóðenda í forsetakosningunum að tala um að „taka samtalið“ sem ég myndi giska á að þýddi að tala um eitthvað á hreinskilinn hátt. Það hefur aldrei verið vandamál hjá okkur í sjávarútvegi og löngu kominn tími til að gera það um laxeldi í sjó.
Við höfum viljað halla okkur að vísindunum og hlusta á fólk sem hefur menntun í fiskeldi og jafnvel reynslu, þó að andstæðingar þess segi að alls ekki megi hlusta á fólk sem unnið hefur við greinina. Í þeirra huga er betra að útskýra þetta með teiknimyndum.
Það væri svo sem í lagi ef ekki væri hallað réttu máli.
Tökum bara nokkur dæmi úr nýjustu teiknimyndasögu andstæðinga sjókvíaeldis.
Norðmenn eiga ekki allt íslenska sjókvíaeldið. Hið rétta er að hlutfall norsku fyrirtækjanna er nær 45%. Þau voru tilbúin til að taka áhættuna og fjárfesta í greininni í frumbernsku. Afganginn eiga íslensk fyrirtæki, lífeyrissjóðir, fjárfestingarsjóðir og einstaklingar.
Laxinn hefur meira pláss í „búri sínu“ heldur en nokkuð annað dýr á Íslandi sem ræktað er til manneldis.
Það er ekkert sem styður það að „þau fáu störf sem hafa skapast gagnast helst erlendu farandverkafólki.“ Hið rétta er að þessi iðnaður hefur skapað mörg hundruð störf fólks sem hafa fasta búsetu á Íslandi. En jú, sum af þeim eru útlendingar og fyrir það erum við þakklát. Við þurfum einfaldlega á fleira vinnandi fólki að halda.
Það er greiddur skattur á Íslandi af öllum tekjum í sjókvíaeldi og því fer fjarri að reglur séu strangari í Noregi en hér, raunar má segja þvert á móti.
Á síðunni fiskeldi.sfs.is má finna allar helstu upplýsingar um fiskeldi í sjó og þar er líka hægt að senda inn spurningar. Við erum alveg til í að taka samtalið.