Trump 2.0 tollarnir hafa sett heimshagkerfið í töluvert uppnám. Á meðan ýmis lönd keppast við að svara í sömu mynt eða semja um lausnir, eiga fjölþjóðleg fyrirtæki í vaxandi erfiðleikum með að takast á við þær áskoranir sem þessir tollar skapa fyrir reksturinn þeirra.

Eitt það svið sem verður fyrir verulegum áhrifum er milliverðlagning (transfer pricing). Athuga verður sérstaklega samhengi tolla og milliverðlagningar.

Minni framlegð

Yfirleitt er það innflytjandi sem greiðir tollana, sem jafnan eru færðir sem hluti af kostnaði seldra vara (COGS). Hærri tollakostnað má hugsanlega velta áfram til viðskiptavina með hækkun á verði, en það er ekki alltaf raunhæfur kostur. Þá vaknar spurningin: hvaða eining innan fyrirtækjasamstæðunnar ber þann aukna kostnað?

Á skýringarmyndinni sem fylgir greininni má sjá hvernig auknir tollar geta fært bandarískan dreifingaraðila frá 5% hagnaði yfir í tap.

Hætta að vera sambærileg

Fyrirtæki reiða sig á samanburðargreiningar byggðar á sögulegum gögnum til að sýna fram á að milliverðlagning þeirra sé í samræmi við armslengdarsjónarmið. Aftur á móti, á árinu 2025 gæti fyrirtækið þitt orðið fyrir áhrifum nýrra tolla, á meðan samanburðargögnin endurspegla ekki þessar breytingar.

Þegar líður á, er líklegt að sambærileg fyrirtæki hafi endurskipulagt aðfangakeðjur sínar til að bregðast við hækkuðum tollum og eru ekki lengur samanburðarhæf. Sum þeirra kunna að velta auknum tollakostnaði yfir á viðskiptavini, á meðan önnur gera það ekki.

Milliverðlagning vs. tollverðmæti

Milliverðlagning, sem fjallar um þau verð sem ákvarðast í viðskiptum milli tengdra aðila innan samstæðu, eru oft jafnframt notuð sem tollverðmæti við útreikning tolla. Þetta skapar beina tengingu milli verðlags og tolla, þar sem milliverðið hefur ekki aðeins áhrif á skattalega tekjuskiptingu, heldur ræður einnig kostnaðargrunninum sem tollar eru reiknaðir af.

Tollayfirvöld telja að leiðréttingar á milliverði eftir innflutning séu hluti af tollverðmæti vörunnar. Allar slíkar leiðréttingar eftir innflutning þarf að meta með hliðsjón af skýrslugjöf, þar sem þær gætu leitt til viðbótartollgreiðslna eða endurgreiðslu tolla, allt eftir því í hvora áttina leiðréttingin fer.

Hér eru nokkrar aðferðir sem fjölþjóðleg fyrirtæki geta íhugað vegna Trump-tollanna:

  • Endurskoða samninga við bæði tengda aðila og þriðja aðila til að meta hvort unnt sé að endursemja um skiptingu tollakostnaðar milli aðila.
  • Fara yfir framkvæmd tolla til að skoða hvort hægt sé að nýta aðrar aðferðir við verðmat til að lækka tollskyldan kostnað og útiloka kostnaðarliði sem ekki eru tollskyldir. Einnig skal tryggja að tollverðlagning samræmist stefnu fyrirtækisins um milliverðlagningu, því misræmi þar á milli getur kallað á áreiðanleikakannanir og valdið kostnaðarsömum viðurlögum.
  • Meta aðfangakeðjur til að skoða hvort unnt sé að gera breytingar sem draga úr kostnaðarhækkunum og truflunum í rekstri. Hins vegar má búast við að slíkar aðgerðir beri takmarkaðan árangur við núverandi aðstæður þar sem tollar eru almennt lagðir á vöruflokka.
  • Skoða möguleika á endurflokkun vöru, þ.e. að færa vöruna í tollflokk með lægri eða engum tollum, ef slíkt er raunhæft.

Það er mikilvægt að hafa í huga að umhverfi tolla er síbreytilegt. Skynsamlegt er að kanna mismunandi aðferðir til að draga úr tollabyrði, en allar breytingar á aðfangakeðju eða verðlagsstefnu innan samstæðu ætti að meta með langtímaafleiðingar í huga frekar en sem skammtímalausn við auknum tollakostnaði.

Fyrirtæki verða að gera sér grein fyrir því að veruleg hætta er á deilum um milliverðlagningu milli skattyfirvalda beggja vegna viðskiptanna, þegar gripið er til slíkra aðgerða. Til að lágmarka áhættu er æskilegt að fyrirtæki styrki verklag sitt við gerð skjala um milliverðlagningu og haldi traustum gögnum til að styðja við og réttlæta verðákvarðanir, ef til skoðunar kemur af hálfu skatt- eða tollayfirvalda.

Veena Parrikar er hagfræðingur hjá KPMG Law og Gréta Stefánsdóttir, lögfræðingur hjá KPMG Law.