Erindi Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni er að lofa fleiri og hærri sköttum og auknu eftirliti með skattgreiðendum. Kristrún Frostadóttir, leiðtogi flokksins, tók sér stöðu fyrir utan Bónus á Egilsstöðum í síðustu viku og boðaði hækkun fjármagnstekjuskatts og sérstakan „tómthússkatt“ (e. vacant home tax) á autt íbúðarhúsnæði. Dagur B. Eggertsson, stuðningsfulltrúi flokksins, var hvergi sjáanlegur þegar Kristrún boðaði þessi miklu tíðindi.
Týr vissi ekki að autt íbúðarhúsnæði væri sérstakt vandamál hér á landi og að eigendur íbúða sjái sér einhvern hag í því að láta þær standa auðar. Þegar Sigríður Andersen, kraftlyftingakona og oddviti Miðflokksins, heyrði af þessu gaf hún sér að Alma Möller og Víðir Reynisson, frambjóðendur Samfylkingarinnar, fengju það hlutverk að guða á glugga og gæta þess að íbúðir stæðu ekki tómar.
En tómthússkatturinn hlýtur að skjóta þingmönnum og ráðherrum skelk í bringu. Hvernig mun hann leggjast á húsið sem faðir Ásmundar Einar Daðasonar barnamálaráðherra reisti á jörð sem þeir feðgar áttu ekkert í. Sagt var frá þessu máli í hlaðvarpinu Lömbin þagna ekki svo því sé haldið til haga.
Þá veltir Týr fyrir sér hvernig tómthússkatturinn muni leggjast á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins. Sem kunnugt er þá flutti hann lögheimili sitt á eyðibýli í Jökulsárhlíð þegar hann bauð sig fyrst fram í Norðvesturkjördæmi. Í raun og veru telur Týr að það séu fyrst og fremst landsbyggðarþingmenn sem munu koma til með að greiða tómthússkatt – það eru fyrst og fremst þeir sem eru skráðir með lögheimili á stöðum sem þeir búa ekki á og þiggja fyrir það greiðslur frá ríkinu.
Það þarf ekki að undra að Sigríður Andersen sýni tómthússkattinum áhuga. Hún gekk nýverið til liðs við Miðflokkinn sem hefur það stefnumál að vernda íslenskan landbúnað og meina Íslendingum að neyta erlendra landbúnaðarafurða, sem standa íslenskum framar bæði hvað varðar gæði og bragð, á viðráðanlegum kjörum.
Það eina jákvæða við tillögur Samfylkingarinnar er að þær draga á ný fram í sviðsljósið hið forna hugtak tómthús. Miðflokkurinn hlýtur að bregðast við þessu útspili með því að leggja fram þurrabúðarskatt – það er að segja skatt á alla þá sem búa við sjó og hafa ekki hvorki tekjur af búfénaði né lausafénaði.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. nóvember 2024.