Það eru hátt í 50 ár síðan laxeldi hófst á Íslandi. Það gekk misjafnlega í byrjun en nú loks hefur eldið náð að koma undir sig fótunum. Sjókvíaeldi hefur breytt miklu fyrir dreifðari byggðir, skapað mikilvæg störf og drjúgar útflutningstekjur. Mikil vinna liggur að baki þessum árangri og mikilvægt að áfram sé vandað til verka.
Það er ekki til sú atvinnugrein þar sem aldrei eru gerð mistök og óhöpp geta átt sér stað. Það getur gerst, og það hefur gerst, að lax sleppi úr sjókvíum. Þegar það gerist er sá möguleiki fyrir hendi að laxinn syndi upp ár. Að vísu er það jafnan þannig að laxinn heldur sig nálægt kvínni, þar sem fæði er að finna, en vissulega hefur það gerst að lax hefur leitað upp í ár.
Í yfirgnæfandi tilvika eru það ár sem hafa ekki verið skilgreindar sem laxveiðiár, enda reglan sú að sjókvíaeldi er ekki í nálægð við stærri laxveiðiár sem fóstra stofn íslenska villta laxins. Það er einkum af þeim sökum sem laxeldi í sjó er aðeins stundað á tveimur svæðum við Ísland: Vestfjörðum og Austfjörðum.
Rekjanleiki laxins
Það sem meðal annars gerir íslenskt fiskeldi meðal annars einstakt er rekjanleiki laxins. Ef íslenskur eldislax kemst í laxveiðiár er ekki aðeins hægt að sjá frá hvaða fyrirtæki hann kemur, heldur einnig úr hvaða kví.
Það er því mikilvægt að rýna í öllum tilvikum í niðurstöður erfðagreiningar sem segja okkur hvort meintir eldislaxar sem fundist hafa í ám séu úr íslensku eldi og ef svo, hvaðan þeir eru. Reynsla undanfarinna ára hefur enda sýnt að stærstur hluti meintra eldslaxa sem tilkynntir hafa verið til Hafrannsóknastofnunar reynast að lokum vera af villtum stofni.
En jafnvel þó að allir þeir laxar sem hafa verið til umræðu undafarna daga reynist vera úr íslensku eldi, og fleiri til, þýðir það ekki að framtíð íslenskra laxastofna sé teflt í hættu. Alls ekki.
Minni æxlunarhæfni
Rannsóknir hafa sýnt að eldisfiskur hefur margfalt minni æxlunarhæfni heldur en villtur fiskur. Því þarf hlutfall hans í ám að vera umtalsvert um mjög langt skeið til að hætta á því að stofngerð villta laxins skaðist.
Slík hættumerki kæmu fyrst fram ef fjöldi eldislaxa í laxveiðiám færi yfir það hlutfall sem Hafrannsóknastofnun setur í svokölluðu áhættumati erfðablöndunar og það ástand stæði yfir um langt skeið, jafnvel áratugi.
Gott er að hafa í huga að hin íslensku hættumörk þegar kemur að ágengni eldisfiska í ár, þ.e. 4% hlutfall, eru mun strangari en hjá öðrum þjóðum og þannig fyllstu varúðar gætt.
Ragnar Jóhannesson, rannsóknastjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, útskýrði þetta ágætlega í grein í Bændablaðinu í mars:
„Áhættumatið reiknar út áætlaðan fjölda göngufiska úr sjókvíaeldi upp í veiðiár samkvæmt gefnum forsendum. Matið reiknar út ágengni (e. intrusion) í einstökum ám út frá þekktum upplýsingum um stofnstærð í hverri á. Rauntölur frá Noregi hafa sýnt að eldisfiskur hefur margfalt minni æxlunarhæfni heldur en villtur fiskur og því má reikna með því að erfðablöndunin verði einnig margfalt minni en ágengnin. Að mati færustu vísindamanna á þessu sviði þarf ágengni að vera að minnsta kosti 4% á hverju ári áratugum saman til þess að erfðablöndun nái að skerða hæfni stofns árinnar. Í áhættumati frá 2020 var áætluð ágengni um og innan við 1% í 89 af þeim 92 veiðiám sem eru í matinu og þar af var engin ágengni áætluð í 43 ám.
Við þróun spálíkans var leitað fyrirmynda hjá nágrannaþjóðum og matið var unnið í samstarfi við fremstu vísindamenn heims á þessu sviði. Við gerð áhættumatsins voru varfærnissjónarmið höfð að leiðarljósi þar sem náttúran var látin njóta vafans. Ráðist var í umfangsmikla vöktun og mótvægisaðgerðir gegn erfðablöndun. Ákveðið var að framkvæma endurmat á þriggja ára fresti og byggja þá á rauntölum úr vöktun. Íslenska áhættumatið hefur verið notað sem fyrirmynd að áhættumati fyrir laxeldi í Kanada.“
Til viðbótar við áhættumatið er einnig viðhöfð nokkuð umfangsmikil vöktun með svokölluðum árvökum, sýnatökum og hefðbundinni veiði í ám.
Í þeim 92 veiðiám sem vísað var til í áðurnefndri grein Ragnars Jóhannessonar hafa samanlagt fundist 10 eldislaxar á sex ára tímabili, þar af tveir úr erlendu eldi.
Hvergi yfir viðmiðunarmörkum
Á tveggja ára tímabili voru jafnframt tekin 3.000 handahófskennd hreistursýni af löxum í 19 veiðiám. Ekkert þeirra reyndist vera af eldislaxi að lokinni erfðagreiningu.
Staðreyndin er því sú að þrátt fyrir viðamikið eftirlit og sýnatökur hefur hlutfall eldislaxa í skilgreindum laxveiðiám hvergi mælst nærri þeim 4% viðmiðunarmörkum sem Hafrannsóknastofnun telur ásættanleg með tilliti til varfærnissjónarmiða. Í þeim 8 laxveiðiám þar sem staðfestir eldislaxar hafa fundist hefur hlutfallið að meðaltali verið 0,09%.
Það hefur almennt reynst okkur vel að treysta ráðgjöf vísinda frekar en upphrópunum. Það má vonandi nýta þá reynslu þegar kemur að sjókvíaeldi.
Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.