Sennilega verður loftlagsvandinn ekki leystur með því að fylla Hvalfjörðinn af kanadísku trjákurli eða binda koldíoxíð í berglögin við Vellina í Hafnarfirði.

Viðskiptablaðið fjallaði um viðamikla umfjöllun bandaríska tímaritsins National Geographic um tilraunir nýsköpunarfyrirtækja á borð við Carbfix, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, til að farga koldíoxíði í þágu baráttunnar gegn loftlagsbreytingum síðastliðinn vetur.

Þar komu fram efasemdir um að slíkar lausnir gætu skilað árangri sem einhverju máli skiptir – að minnsta kosti séu allar líkur á því að áratugir líði þangað til að slíkar tæknilausnir geti farið að skipta einhverju máli. Enda snýst starfsemi þessara fyrirtækja ekkert endilega um það – hún snýst um hagnaðarvonina sem felst í sölu á upprunaábyrgðum.

Eins og fram kemur í áðurnefndri umfjöllun National Geographic þá er svissneska fyrirtækið Climeworks eitt það umsvifamesta í heiminum á því sviði. Stórfyrirtæki á borð við Microsoft, JP Morgan Chase og Stripe eru í viðskiptum við Climeworks. Í umfjöllun Viðskiptablaðsins um málið segir:

„Þau viðskipti fela í sér kaup á upprunavottorðum sem gera það að verkum að þau geta haldið því fram að starfsemi þeirra sé kolefnishlutlaus. Þar liggja viðskiptatækifærin samkvæmt umfjölluninni. Það að fanga og farga CO2 er enn sem komið er dýr og óskilvirk lausn í baráttunni gegn losun. Lausn sem þyrfti nánast stjarnfræðilega fjárfestingu í þróun og uppbyggingu til að hún skili árangri í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

En samt sem áður er þetta lausn sem markaðurinn er reiðubúinn að greiða tilsett verð fyrir. Í því samhengi að engar líkur séu á að flugfélög sem ætla að verða kolefnishlutlaus á næstu áratugum geri það með færri flugvélahreyflum – það verður gert með að kaupa upprunaábyrgðir frá fyrirtækjum eins og Climeworks og Carbfix eins og það er sérstaklega nefnt í fréttinni.“

Þessi flötur bendir til þess að loftlagsmálin séu flókin og margslungin. Stjórnmálamenn og áhrifamenn í viðskiptum og fjármálum verða að vera meðvitaðir um hvort þeir séu að grípa til aðgerða sem skipta engu máli varðandi loftlagsmál í hinu stóra samhengi og grafi beinlínis undan efnahagslegri afkomu á sama tíma.

Því miður bendir margt til þess. Eins og Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, skrifar í grein sem birtist í blaði dagsins þá virðist það skipta íslenska ráðamenn litlu máli að losun gróðurhúsalofttegunda sem hlutfall af verðmætasköpun er hvergi minni en hér á landi.

Íslendingar eru fyrir löngu komnir fram úr öðrum í þessum efnum. Það voru mikil mistök á sínum tíma af hálfu íslenskra stjórnvalda að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar um að draga hlutfallslega jafn mikið úr losun og ríki sem framleiða orku í jarðefnaeldsneyti og framleiða vöru og þjónustu með mun meiri mengandi hætti en hér á landi. Í pistli sínum á baksíðu blaðsins segir Anna Hrefna:

„Ef fram fer sem horfir munu íslensk fyrirtæki þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir umtalsverða fjármuni vegna skuldbindinga sem ljóst mátti vera frá öndverðu að væru óraunhæfar vegna forskots okkar í nýtingu grænnar orku. Sá kostnaður mun hamla getu fyrirtækjanna til að fjárfesta frekar í umhverfisvænum lausnum.

Það sætir furðu að ekki hafi verið tekið tillit til sérstöðu Íslands þegar markmiðin voru sett. Metnaðurinn mun koma okkur í koll í þetta skiptið. Skynsamlegast væri að breyta um kúrs, hampa sérstöðu Íslands og skilgreina okkar eigin raunhæfu langtímamarkmið í umhverfismálum. Að öðrum kosti er kostnaðarsamt stórslys í uppsiglingu.“

Hægt er að taka undir hvert orð og bráð nauðsyn að stjórnmálamenn ræði málið á þessum forsendum í stað þess að boða sífellt harðari og kostnaðarsamari aðgerðir í loftlagsmálum. Það er að minnsta kosti brýnna en að ræða „þverlæga flokka aðgerð“ í loftlagsmálum svo vitnað sé í boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í síðustu viku.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 19. júní 2024.