Eins og fram kom í fjölmiðlum í morgun prýðir verksmiðja á vegum Carbfix, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, forsíðu nýjustu útgáfu tímaritsins National Geographic. Tilefnið er úttekt tímaritsins á hversu raunhæft það er að binda koldíoxíð í verulegum mæli í berglögum rétt eins og Carbfix gerir ásamt öðrum frumkvöðlum á þessu sviði.

Í umfjölluninni er fjallað um Carbfix og aðrar lausnir sem komið hafa fram á undanförnum árum sem er ætlað að vinna gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig er fjallað um vísindamenn í Arizona sem eru að þróa gervitré sem er ætlað að binda CO2 margfalt á við þessu gömlu góðu sem enn finnast í náttúrunni. Greinarhöfundur ræðir við haffræðing í Ástralíu sem telur þörungaræktun vera lykilinn að kolefnahlutlausri framtíð.

RGreinarhöfundur telur að einhver þessa lausna komi til með skila árangri eftir áratugi en bendir á að margir telji þær skaðlegar þar sem þær beina sjónum frá þeim vanda sem við er að etja í dag. Sá vandi verði ekki leystur nema með róttækum aðgerðum til að draga úr losun loftlagslofttegunda. Í þessu samhengi nefnir greinarhöfundur freistnivandann sem getur skapast þegar fólk fær trú á að lausn á loftlagsvandanum sé handan við hornið: þá hverfur hvatinn til þess að draga nú þegar úr losun.

Umhverfissamtök vara við föngun og förgun

Í þessu samhengi er nefnt að fimm hundruð umhverfissamtök í Norður-Ameríku hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda í Bandaríkjunum og Kanada þar sem þau eru hvatt til að snúa baki við „hinni óhreinu og hættulegu goðsögn um að hægt sé að fanga og farga koldíoxíð (e. „abandon the dirty, dangerous myth of CCS” líkt og Carbfix vinnur að.

En ekki eru allir jafn neikvæðir og áhuginn á lausnum á borð við þær sem Carbfix og önnur sambærileg fyrirtæki koma með að borðinu er mikill. Því til sönnunar er nefnt að svissneska fyrirtækið Climeworks, sem er í samstarfi við Carbfix, hafi gengið frá 650 milljóna dala fjármögnun fyrr á þessu ári til frekari fjárfestingar. Þá er nefnt að stórfyrirtæki á borð við Microsoft, JP Morgan Chase og Stripe séu í viðskiptum við Climeworks.

Viðskiptatækifærin í upprunavottorðunum

Þau viðskipti fela í sér kaup á upprunavottorðum sem gera að verkum að þau geta haldið fram að starfsemi þeirra sé kolefnishlutlaus. Þar liggja viðskiptatækifærin samkvæmt umfjölluninni. Það að fanga og farga CO2 er enn sem komið er dýr og óskilvirk lausn í baráttunni gegn losun. Lausn sem þyrfti nánast stjarnfræðilega fjárfestingu í þróun og uppbyggingu til að hún skili árangri í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda.

En samt sem áður er þetta lausn sem markaðurinn er reiðubúinn að greiða tilsett verð fyrir. Í því samhengi að engar líkur séu á að flugfélög sem ætla að verða kolefnishlutlaus á næstu áratugum geri það með færri flugvélahreyflum – það verður gert með að kaupa upprunaábyrgðir frá fyrirtækjum eins og Climeworks og Carbfix eins og það er sérstaklega nefnt í fréttinni.

Niðurstaða greinarhöfundar er að tæknin til að fanga og geyma koldíoxíð sé skammt á veg komin þrátt fyrir öll fyrirheitin og ber hann þetta saman við tilraunir til þess að beisla kaldan samruna til að leysa orkuþörf mannsins í eitt skipti fyrir öll.