Sú staðreynd að Samtök atvinnulífsins hafa samið við stóran hluta samtaka launþega að undanförnu skiptir miklu máli.Ekki verður litið fram hjá henni þegar ákvörðun þeirra sem stýra för í Eflingu um að slíta viðræðum við SA og boða til verkfalls er skoðuð. Jafnframt verður að hafa í huga að félagsmenn í Starfsgreinasambandinu og VR samþykktu samningana með yfirgnæfandi meirihluta.

Engin sannfærandi rök hafa komið fram sem útskýra af hverju forystufólk Eflingar geti ekki samþykkt sambærilega kjarabætur fyrir hönd sinna umbjóðenda og þeir sem leiddu samninganefndir Starfsgreinasambandsins og VR gerðu fyrr í vetur.

Sennilega stóð það aldrei til. Þessum skrípaleik sem hefur snúist um að hátt í hundrað manna samninganefnd arki fram og til baka í Borgartúninu í svartstökkum með kröfuspjöld var aldrei ætlað að leiða til neins annars en verkfallsátaka. Þetta voru trúðslæti sem koma engum til gagns.

Átök á vinnumarkaði í boði Eflingar geta haft djúpstæð áhrif á flesta landsmenn með einum eða öðrum hætti. Í ljósi þeirrar staðreyndar verður að krefja Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann félagsins um skýrari svör af hverju Efling kýs farveg átaka í stað samninga ólíkt öðrum verkalýðsfélögum. Nú þegar er búið að hrekja allt tal um að staða þeirra sem eiga aðild að Eflingu sé svo sérstök að ekki sé hægt að bjóða þeim sambærilega kjör og annað verkafólk hefur samþykkt með samningum.

Staðföst trú Sólveigar Önnu að átök muni leiða til farsælli niðurstöðu fyrir hennar félagsmenn en þeirra sem eiga aðild að Starfsgreinarsambandinu og VR er byggð á sandi. Það að slíta viðræðunum hefur nú þegar kostað félagsmenn Eflingar þrjá milljarða þar sem þeim stendur ekki lengur til boða þær afturvirku hækkanir sem SGS og VR sömdu um. Engar líkur eru á því að verkfallsátök og átakabrölt sem mun standa yfir í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði muni leiða til hagstæðari niðurstöðu fyrir Eflingarfólk.

Fram hefur komið að þeir sem eru ósammála Sólveigu Önnu innan Eflingar hafi enga rödd innan verkalýðsfélagsins. Fram hefur komið að Ólöf Helga Adolfsdóttir, rit­ari Efl­ing­ar, sem á sæti í samn­inga­nefnd­inni, er ósam­mála þeirri ákvörðun for­manns fé­lags­ins að slíta viðræðum um nýj­an kjara­samn­ing við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins og hefja und­ir­bún­ing verk­falls­boðunar.

Þrátt fyr­ir að eiga sæti í samn­inga­nefnd­inni, sam­kvæmt lög­um Efl­ing­ar, sem rit­ari stjórn­ar, hef­ur Ólöf ekki fengið að sitja á fund­um eða taka þátt í vinnu nefnd­ar­inn­ar. Hún seg­ir að þeir sem séu ósam­mála Sól­veigu Önnu Jóns­dótt­ur, for­manni Efl­ing­ar, hafi enga rödd inn­an fé­lags­ins. Morgunblaðið hefur eftir Ólöfu:

Ég tel mik­il­vægt á þess­um tíma­punkti að fara að vinna að næsta samn­ingi sem verður lang­tíma­samn­ing­ur, þar sem stærri mál verða tek­in fyr­ir. Nú erum við bara að tala um launaliðinn. Þó maður vilji alltaf meiri launa­hækk­an­ir, þá skil ég það þannig að við kom­umst ekki lengra með það. Ég veit að fyr­ir mig per­sónu­lega þá mun­ar al­veg um 42 þúsund króna launa­hækk­un sem er meðallauna­hækk­un sem fé­lags­menn Efl­ing­ar væru að sjá. Og þá erum við að tala um taxta­hækk­un. Ofan á það kem­ur vakta­álag og yf­ir­vinna og allt það.“

Sólveig Anna hefur jafnan lagt ríka áherslu á lýðræðið og þá staðreynd að hún sé lýðræðislega kjörin til forustu. Það er satt og rétt. En það á einnig við um Ólöfu Helgu sem er lýðræðislega kjörin ritari Eflingar og þar með í hópi æðstu embættismanna félagsins. Furðulegt er að almennir félagsmenn mótmæli ekki þessari framkomu gegn ritaranum.

Meira um lýðræðið – það lýsir sérkennilegum skilningi á lýðræði að í samninganefnd sé fólk sem er ekki einu sinni í þeim starfsgreinum sem fara ætla í verkfall og reynt var að semja fyrir. Þarna er átt við þá starfsmenn Eflingar sem starfa hjá hinu opinbera. Hvert er lýðræðislegt umboða þessara aðila til að véla um hagsmuni annarra?

Staðan sem upp er komin er alvarleg og ekki er víst að úr henni verði leyst án þess að afleiðingarnar verði afdrifaríkar fyrir íslenskt efnahagslíf. Boltinn er nú hjá félagsmönnum Eflingar. Þeir verða að átta sig á þeir eiga félagið en ekki formaðurinn. Það er hin lýðræðislega skipan. Og það verða þeir sem skera úr um samstöðu hinna vinnandi stétta á Íslandi.