Það er skammt stórra högga á milli í Bandaríkjunum þessa dagana. Frá banatilræði við Trump, yfir í flokksþing Repúblikanaflokksins, ákvörðun Bandaríkjaforseta um að hætta við framboð og þegar þetta er skrifað, yfirvofandi útnefningu Kamölu Harris sem forsetaefni demókrata.
Fyrir vikið verður kosningabaráttan meira spennandi en stefndi í eftir kappræður Biden og Trump þegar öllum varð ljóst að Biden var ekki í ástandi til að vera forseti fram í janúar 2029.
Þrátt fyrir að Kamala Harris er líklega ekki sterkasti frambjóðandinn sem demókratar hefðu getað teflt fram er hún þó ögn vinsælli en Biden og nýtur þess að vera 22 árum yngri en Joe. Það sem gerði líklega útslagið fyrir Biden var tvennt, fjárhagslegir bakhjarlar demókrata voru byrjaðir að yfirgefa forsetann og ekki síður sáu þingmenn og aðrir frambjóðendur demókrata fram á skelfilega útreið í kosningunum í nóvember með Joe Biden efstan á kjörseðlinum.
Stjórnmálaflokkar sem standa frammi fyrir útreið og öruggu tapi verða að breyta til, gera eitthvað óvænt til að reyna að koma í veg fyrir ósigurinn.
Útför Repúblikanaflokks Reagan
Það var samt flokksþing repúblikana sem bar með sér mestu umbreytinguna í bandarískum stjórnmálum. Þar staðfestust alger umskipti Repúblikanaflokksins, úr því að hafa í hávegum Ronald Reagan og hans stefnumál yfir í að vera algerlega undir stjórn Trump. Val hans á JD Vance sem skilgreinir sig sem þjóðernis-íhaldsmann, undirstrikaði stefnubreytinguna.
Með valinu útnefndi Trump, Vance sem arftaka sinn. Þótt Vance sé nýbyrjaður í stjórnmálum hefur hann vakið athygli fyrir að vera á skjön við það sem hingað til hefur verið stefna Repúblikanaflokksins.
Síðan Ronald Reagan varð forseti Bandaríkjanna fyrir 44 árum hefur stefna hans og skoðanir verið leiðarljós repúblikana, amk. þangað til núna. Í dag fengi Ronald Reagan fá tækifæri í Repúblikanaflokki Trump. Það er ekki úr vegi að bera stuttlega saman helstu mál sem aðgreinir hugmyndir krónsprins MAGA-hreyfingarinnar og vinsælasta forseta úr röðum repúblikana frá Abraham Lincoln.

Einfeldningsleg stefna Trump
Hagfræðingar og greinendur eru almennt sammála um að tollastefna Trump 2017-2021 hafi skaðað Bandaríkin. Störfum fjölgaði ekki og tekjur hins opinbera minnkuðu. Þótt tekjur stál- og álfyrirtækja hafi aukist um 2,8 milljarðar dollara vegna verndartolla þá minnkuðu tekjur fyrirtækja í afleiddum iðnaði um 3,4 milljarða dollara. Það undirstrikar hve einfeldningsleg verndartollastefna er í raun.
Margar hugmyndir Trump og Vance eru algerlega á skjön við forvera Trump í embætti, hvort heldur er litið til samflokksmanna eða pólitískra andstæðinga. Það er hætt við því að nái þeir völdum verði áhrifin af utanríkis-, varnarmála- og tollastefnu þeirra mjög neikvæð fyrir útflutningsþjóð eins og okkur. Stefnubreyting vestra gæti í raun haft þau áhrif með tíð og tíma að ýta Íslandi og íslensku hagsmunamati nær ESB og Evrópu almennt.
Það er hinsvegar ljóst að Repúblikanaflokkurinn er að umpólast úr því að vera flokkur sem studdist við kenningar Adam Smith og David Ricardo yfir í þjóðernislega íhaldsstefnu sem byggir á efnahagslegum popúlisma og óskhyggju. Það eru ekki góðar fréttir fyrir hagsmuni Íslands.
Höfundur er borgarfulltrúi og varaþingmaður. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 24. júlí 2024.