Hversu mikil áhrif hefur aðgangur að tungumálinu á lífsgæði innflytjenda á Íslandi? Jafnrétti á vinnumarkaði felur í sér inngildingu, það þýðir ekki að allir fái það sama – það þýðir að allir hafi aðgang að jöfnum tækifærum til að starfa á vinnumarkaði. Jafnrétti í tungumálinu er mikilvægt atríði.
Fjölbreytni er lykilhugtak fyrir fyrirtæki og nýsköpun. Rannsóknir sýna að skipulagsheildir sem búa fjölbreytt teymi skila meiri ávinningi og sinna nýsköpun betur. Teymi sem samanstanda af fólki af mismunandi menningar bakgrunni, aldri, kynjum og reynslusögum hafa víðari sýn á heiminn, skapa meira, finna fjölbreyttari lausnir og leysa vandamál á nýja og betri máta.
Svo virðist sem vinnumarkaðurinn geri sér ekki grein fyrir því hversu fjölbreytt samfélagið hér á landi er orðið. Erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað úr 10 þúsund í 65 þúsund á rétt rúmum 20 árum. Rannsókn á vinnumarkaði sem kynnt var á Jafnréttisþingi 2022 sýnir að yfir 20% vinnuafls á Íslandi er af erlendum uppruna en samt er einnungis 1% í samkeppnishæfari störfum. Við töpum miklum verðmætum með því að huga ekki að þessu fólki. Fyrirtæki verða að endurskilgreina hvað fjölbreytni þýðir í raun og veru. Hversu fjölbreytt er fyrirtækið þitt og þinn íðnaður? Ert þú að hvetja til fjölbreytni og nýsköpunar í þínu fyrirtæki? Er grundvöllur fyrir fjölbreytni á Íslandi?
Innflytjendur hafa þurft að sætta sig við störf sem oft eru langt fyrir neðan þeirra menntun og hæfni. Fólk sem býr yfir menntun, sérfræðikunnáttu og reynslu fær ekki störf við hæfi og þarf því að taka hverju sem býðst til að komast af og borga reikninga. Í fínni og samkeppnishæfari störfunum sem við fáum er okkur oft ekki stætt á að vaxa, sama hversu hæf við erum eða bætum við okkur menntun. Þrátt fyrir að uppfylla allar hæfnikröfur og oft langt umfram kröfur sjáum við að frekar eru ráðnir íslenskir kollegar okkar í hærri stöður þrátt fyrir minni reynslu og hæfni.
Stundum velti ég fyrir mér hvort tungumálið sé hreinlega notað til að halda okkur í láglaunastörfum með því að letja til íslenskunámi. Ég hvet alla til að leggja sig fram við að læra tungumálið en íslenska er ekki tungumál sem lærist á einum degi. Ef innflytjendur skrá sig í íslenskunám þýðir það oftast skert vinnuframlag á meðan þar sem kennslustundirnar eru á almennum vinnutíma. Sem einstaklingur í láglaunastarfi er erfitt að minnka vinnu til að sinna námi auk þess sem vinnuveitandi þarf að bjóða upp á þann sveigjanleika. Íslenskunámskeið eru dýr og ekki löguð að mismunandi þörfum. Ég tel að það sé mikil þörf fyrir kennslu á vinnutíma og í starfstengdum fagorðum sem lærast ekki í hefðbundnu tungumálanámi.
Samfélagið þarf allt sem heild að taka þátt í aðlögun innflytjenda, því ef það er eingöngu í höndum vinnumarkaðarins er hætt við hlutum á borð við ólöglegar ráðningar, vangreiddu laun eða mansal. Þegar allt samfélagið vinnur saman minnka líkur á þessum brotum og ef þau koma upp þá hafa innflytjendur aðgang að upplýsingum, þjónustu og stuðningi.
Skortur á aðgengi að tungumálinu getur einnig leitt til af sér mismunun og útilokun á ýmsa vegu á vinnumarkaði, ekki bara að innflytjendur séu ekki ráðnir eða sé haldið í láglaunastörfum heldur njóti þeir heldur ekki sömu tækifæra í störfunum, hafi ekki aðgang að mikilvægum upplýsingum, ekki upplýstir um réttindi sín, sé haldið utan við ákvarðanatökur og einangraðir félagslega á vinnustaðnum.
Ég trúi því að tungumálið sé lykillinn að jafnréttis samfélagi þar sem allir hafi jafnan rétt að atvinnumarkaðnum. Ég trúi því líka að sá tími sé kominn að stjórnendur vinnumarkaðarins taki ábyrgð á sínu hlutverki í að styðja við aðlögun og framþróun innflytjenda sem þeir ráða til starfa. Við erum ekki bara ,,erlent vinnuafl”, við erum starfsfólk af erlendum uppruna sem þurfum betri aðgang að tungumálinu og inngildingunni sem því fylgir.
Höfundur er stofnandi og framkvæmdastjóri Gracelandic og situr í stjórn FKA.