Stjórnmál og stýrivextir eru líklegast þau umfjöllunarefni sem helst hafa borið á góma á kaffistofum landsins enda af nægu að taka. Háir stýrivextir hafa líka tekið vel í pyngju landsmanna sem meðal annars hefur sýnt sig í færslu úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð lán.
Ísland sker sig frá flestum löndum hvað varðar útbreiðslu verðtryggingar skuldbindinga. Erlendir fjárfestar og greinendur klóra sér gjarnan í kollinum þegar útskýrt er hvernig hún virkar og hver áhrifin eru á bæði bankana og lántakendur. Í raun má segja að í landinu séu tvær myntir; óverðtryggðar og verðtryggðar krónur. Þær hegða sér á töluvert ólíkan hátt og þá sér í lagi þegar miklar sveiflur eru í verðbólgu og vöxtum.
Breytingin kemur glögglega í ljós þegar horft er til þróunar á verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum síðustu árin. Í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar lækkuðu bæði verðtryggðir og óverðtryggðir vextir, en í framhaldinu jókst verðbólga og óverðtryggðu vextirnir fóru hratt upp á við og til mótvægis voru stýrivextir hækkaðir úr 0,75% í 9,25%. Á sama tíma hækkuðu verðtryggðir vextir úr um það bil 2% í 4%. Því má segja að verðtryggðir vextir séu almennt stöðugri en þeir óverðtryggðu. Hins vegar sveiflast heildarvaxtakostnaður verðtryggðra lána töluvert vegna verðbólgu sem bætist við höfuðstól.
Háir óverðtryggðir vextir síðustu misserin hafa leitt til þess að fjöldamargir lántakar hafa leitað í „skjól“ verðtryggðra vaxta. Á það bæði við um einstaklinga og fyrirtæki. Með þessu leitast lántakar við að létta hjá sér mánaðarlega greiðslubyrði til að þrauka í gegnum umhverfi hárra vaxta, á kostnað hægari eignamyndunar.
Aukningin á verðtryggðum lánum er langt umfram það sem bankarnir hafa geta fjármagnað með verðtryggðum skuldum, hvort sem er í formi innlána eða útgáfu skuldabréfa. Þetta hefur valdið því að samanlagður verðtryggingarójöfnuður (verðtryggðar eignir umfram verðtryggðar skuldir) bankanna hefur aukist um rúma 500 milljarða króna á rúmlega einu ári – sem er ótrúlega mikil breyting á skömmum tíma. Þá hefur samanlagður verðtryggingarójöfnuður bankanna tífaldast á innan við tveimur árum.
Afleiðing þessa er að bankarnir fjármagna verðtryggð útlán í mjög auknum mæli með óverðtryggðum innlánum. Í lok nóvember lækkaði Seðlabanki Íslands stýrivexti um 0,5 prósentustig og eru þeir nú 8,5%. Miðað við spár greiningaraðila er gert ráð fyrir að árstaktur verðbólgu næstu mánuðina verði um 2%. Raunstýrivextir (stýrivextir að frádreginni verðbólgu) verða því um 6,5% á því tímabili. Bankarnir fjármagna sig vissulega á fjölbreyttan hátt, en þetta gefur til kynna á hvaða kjörum stór hluti verðtryggðra lána er fjármagnaður á komandi mánuðum. Eftir síðustu breytingar á vöxtum bankanna eru breyti- legir vextir húsnæðis- lána í kringum 5,0%, aðeins misjafnt eftir bönkunum, og því má búast við að vaxtamunur af þeim lánum verði neikvæður um í kringum 1,5 prósentustig yfir það tímabil – sem þýðir að bankarnir greiða hærri vexti en þeir innheimta og taka þar með á sig töluvert af högginu sem í þessu felst.
Útlit er fyrir að verðbólga komi hratt niður næstu misserin. Líkt og áður segir gera greiningaraðilar ráð fyrir um 2% verðbólgu næstu mánuði og Seðlabankinn spáir um 3% verðbólgu yfir næstu 12 mánuði.
Því er mikilvægt að stýrivextir Seðlabankans lækki einnig hratt, þannig að lántakar í bæði óverðtryggðum og verðtryggðum krónum njóti góðs af lægri vaxtakostnaði.
Hvað ef á Íslandi væri einungis ein króna? Líklegt má telja að peningastefnan yrði skilvirkari og stýrivaxtabreytingar hefðu þá hraðari og kröftugri áhrif og því þyrfti ekki jafn miklar hreyfingar á vöxtum og við höfum séð hér landi á undanförnum árum. Á móti kæmi að valkostum lántaka gæti fækkað og skoða þyrfti leiðir til að stýra áhrifum hárra vaxta á greiðslubyrði lántaka. Spurning er hvort tímabært sé að ný stjórnvöld og aðrir hagaðilar taki umræðu um það hvort ein króna sé betri en tvær?
Greinin birtist fyrst í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.