Vitundarvakning hefur orðið á heimsvísu gagnvart mikilvægi ábyrgra fjárfestinga á undanförnum árum. Alþjóðasamfélagið gerir sífellt meiri kröfur til rekstraraðila að sýna samfélagslega ábyrgð og stjórnvöld víða um heim hafa sett þessi mál í forgang hjá sér. Almenningur verður stöðugt meðvitaðri og farið er að gera auknar kröfur til fjárfesta um að taka tillit til ófjárhagslegra þátta við fjárfestingarákvarðanir, þar sem mest er horft til umhverfis- og félagsþátta og stjórnarhátta, oft skammstafað sem UFS (e. ESG ). Fjárfestar hafa tækifæri á að beita sér gagnvart útgefendum sem þeir fjárfesta í um það hvernig þeir taka á þessum málum m.a. hvaða kröfur útgefandinn setur á sína hagaðila til að bæta sig sem síðan leiðir áfram koll af kolli til annarra fyrirtækja.
Lífeyrissjóðir, eignarstýringar banka og aðrir fagfjárfestar eru í auknum mæli að móta sér stefnu og setja sér markmið um hvernig kröfur þeir gera til fjárfestinga sinna m.t.t. UFS. Erlendis hafa sérhæfð matsfyrirtæki vaxið hratt sem vinna svokölluð UFS áhættumöt (e. ESG rating ), einnig kallað UFS reitun . Engin undantekning er á þessari þróun hérlendis og er vaxandi fjöldi innlendra fjárfesta að setja sér stefnu og markmið um ábyrgar fjárfestingar. Erlendu matsfélögin hafa þó í litlum mæli boðið upp á slíka þjónustu hérlendis en þar sem innlendur markaður samanstendur af minni og millistórum fyrirtækjum er hann kannski ekki nógu stór til að erlend matsfyrirtæki sýna honum raunverulegan áhuga. Líklegt er því að innlendur aðili muni alltaf þurfa að veita þessa þjónustu.
UFS reitun – nýjung á Íslandi
Íslenska matsfyrirtækið Reitun ehf. hefur undanfarin 2 ár unnið að þróun á aðferðafræði til að meta íslensk fyrirtæki og aðra rekstraraðila með sambærilegum hætti og erlendu matsfyrirtækin gera. Reitun hefur verið starfandi frá árinu 2010 og sérhæft sig í lánshæfismatsgreiningum en hefur nú jafnframt bætt UFS áhættumötum við. Slík möt gefa fjárfestinum mikilvæga sýn á hvernig þeir rekstraraðilar sem hann fjárfestir í séu að standa sig í þessum þáttum og í samanburði við markaðinn. Í vaxandi mæli er einnig verið að taka tillit til þessara þátta inn í virðismöt fyrirtækja og lánshæfismata og því ljóst að til mikils er að vinna fyrir fyrirtæki að hlúa að þessum ófjárhagslegum þáttum.
Fyrstu UFS áhættumöt Reitunar voru gefin út á þessu ári og er búið að meta um 30 innlend fyrirtæki. Meðfylgjandi mynd sýnir dreifingu UFS heildareinkunnar hjá Reitun . Einkunnadreifing er frá lægstu einkunn upp á 22 stig til hæstu einkunnar upp á 86 stig, þar sem meðaleinkunn er 60 stig og fellur það undir flokk B3 samkvæmt aðferðafræði Reitunar . Einkunnir eru einnig gefnar fyrir hvern þátt U , F og S sem og flokka þar undir en þær einkunnir eru ekki birtar hér.
Aðlögun aðferðafræðinnar
Einkunnir er settar niður í flokka sem eru á bilinu A1 til D , þar sem A1 er besti flokkurinn og D sá slakasti. UFS reitunar skalinn er bjagaður og þrengist töluvert þegar komið er í efstu flokkana. Ólíklegt er því að rekstraraðilar komi til með að ná efstu tveimur flokkunum ( A1 og A2 ) nema í sérstökum tilvikum. Nýlega birti Landsbankinn samantekt á niðurstöðum sínum úr UFS áhættumati Reitunar . Bankinn náði þar framúrskarandi árangri með 86 stig af 100 mögulegum, sem setur þá í flokk A3 . Þessi einkunn er sú hæsta sem Reitun hefur gefið og er aðeins einn annar rekstraraðili sem nær þessari einkunn. Bankinn hefur jafnframt fengið svipaða einkunn frá stóru erlendu matsfyrirtæki og var því ánægjulegt að sjá samræmið milli þessara einkunna. Aðferðafræði Reitunar þarf að vera lifandi og aðlagast að stöðugri framþróun í heiminum. Þau viðmið sem unnið er eftir geta því breyst milli ára auk þess sem fleiri undirþættir geta bæst við. Stöðugt er verið að gera auknar kröfur til rekstraraðila og taka viðmiðin mið af því að einhverju marki. Það er því mikilvægt fyrir rekstraraðilann til að halda UFS einkunn sinni stöðugri eða bæta sig, að missa ekki sjónar á þessum málum og halda áfram að hlúa vel að ófjárhagslegum þáttum í starfsemi sinni.
Aukin krafa á ábyrgari hegðun rekstraraðila
Þessi áhættumöt gefa því fjárfestinum nýja og mikilvæga sýn á eignasafn sitt og nýtast honum sem tæki til að framfylgja stefnu sinni um ábyrgar fjárfestingar. UFS matsfyrirtæki eins og Reitun , njóta vinsælda vegna þeirrar hagkvæmni sem felst í því að nota slíka þjónustu. Sú hagkvæmni felst m.a. í auknum gæðum, lægri kostnaði, samanburðarhæfni og minna áreiti hjá fyrirtækjum í samanburði við það ef hver og einn fjárfestir myndu framkvæma slíkt mat sjálfir. Aðalmálið er þó að með þessum greiningum geta fjárfestar og lánveitendur ýtt á um ábyrgari hegðun rekstraraðila sem og að rekstraraðili getur með hlutlægum hætti notað niðurstöður til að gera betur. Með þessu móti gengur betur að ná þeim mikilvægu markmiðum sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér í þessum efnum.
Höfundur er verkefnastjóri hjá Reitun .