Ýmsir höfðu gagn og gaman af álagningarskrá Skattsins í liðnum mánuði. Miðlar kepptust við að matreiða fréttir upp úr þessum persónuupplýsingum fólks og fóru hamförum í samkeppni um vinsælustu smellina.
Ýmsir höfðu gagn og gaman af álagningarskrá Skattsins í liðnum mánuði. Miðlar kepptust við að matreiða fréttir upp úr þessum persónuupplýsingum fólks og fóru hamförum í samkeppni um vinsælustu smellina.
Heimildin einblíndi ekki aðeins á þá sem greiddu hæstu skattana og birtu um þá upplýsingar. Miðillinn gekk enn lengra og reiddi sérstaklega fram upplýsingar um þá sem greiða hér háa fjármagnstekjuskatta. Heimildin kortlagði að eigin sögn „tekjuhæsta eina prósentið“ út frá launa- og fjármagnstekjum. Skilaboðin í umfangsmikilli umfjöllun miðilsins voru eins og áður að fjármagnstekjur séu á einhvern hátt neikvæðar. Ekki bara séu lægri skattar greiddir af fjármagnstekjum sem hljóti að þýða einhvers konar misnotkun, heldur séu þetta í grunninn fjármunir sem auðugt fólk deili með sér.
Ég er ein af þeim sem hef lítinn áhuga á því að snuðra í fjárhagsupplýsingum fólks. Enda er ég svo nýkomin af SUS-aldri að ekki er langt síðan ég tók virkan þátt í mótmælum gegn birtingu slíkra upplýsinga. Sem dyggur áskrifandi að Viðskiptablaðinu fékk ég þó heimsent Tekjublað Frjálsrar verslunar sem er gefið út af sama útgáfufélagi og Viðskiptablaðið. Og las það auðvitað ekki. En þegar ég fékk beiðni frá vinkonu um að fletta upp í listamannaumfjöllun Frjálsrar verslunar, rak ég augun í tölur sem vöktu athygli mína. Nefnilega að sjá þar þjóðþekkta listamenn, sem birtast okkur reglulega á síðum Smartlands vegna veglegra húsakaupa og annars íburðar, með uppgefin lúsarlaun. Af þessum upplýsingum má ráða að listamennirnir greiði mjög lágan tekjuskatt til sameiginlegra sjóða, enda er umfjöllun Tekjublaðsins byggð á útsvarsstofni samkvæmt álagningarskrá. Að öllum líkindum reka hins vegar margir listamannanna félög utan um störf sín og greiða því vonandi háa fjármagnstekjuskatta á móti þótt prósentan kunni auðvitað að vera lægri en af launatekjum. Í umfjöllun Heimildarinnar um skattakónga Íslands að teknu tilliti til fjármagnstekna voru að vísu ekki margir listamenn, en m.a. iðnaðarmenn, sjómenn og flugmenn svo dæmi séu tekin.
Skattur á launatekjur er hár á Íslandi. Fjármagnstekjuskattur er síðan lagður á tekjur af leigu, vöxtum og á söluhagnað. Sama fyrirkomulag er við lýði í flestum löndum sem við berum okkur saman við. Áður en félög greiða út arð, greiða þau 20% skatt af hagnaði og að lokum greiðir hluthafinn 22% fjármagnstekjuskatt af arðinum. Arður verður ekki til í félögum nema árangur náist í þeirri starfsemi sem félagið er stofnað utan um. Það ætti því að vera fagnaðarefni þegar fólk greiðir háa fjármagnstekjuskatta og leggi þannig til samfélagsins. Það er ekki óréttlæti heldur þvert á móti mikið réttlætismál. Öðru máli gegnir um þá sem leggja lítið eða ekkert til samneyslunnar í formi skatta. Það er óréttlátt og ætti ekki að viðgangast. Við ættum að leita allra leiða til að koma í veg fyrir slíka hegðun. „Skattafælni“ eins og einn pistlahöfundur Heimildarinnar orðar það svo vel. Ef til vill gæti það orðið næsta viðfangsefni Heimildarinnar.
Hitt er svo annað mál að hluthafar sem greiða fjármagnstekjuskatt geta flust milli landa og þannig valið sér hagstæðara skattaumhverfi, eins og dæmin sýna. Við gætum auðvitað valið að hækka fjármagnstekjuskattinn enn frekar. En viljum við ekki heldur gæta hófs og fá peningana í ríkiskassann?
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.