„Heimurinn verður stöðugt óreiðukenndari. Alls kyns skoðanir og ótal raddir dynja á okkur. Við þurfum öll að leita staðreynda, greina kjarna máls og meta ólík sjónarmið. Upplýst samfélag þarf faglega blaðamennsku sem setur hlutina í samhengi og skýrir þá með hag almennings að leiðarljósi. Blaðamennska hefur aldrei verið mikilvægari.“
Þetta er kjarninn í nýrri vitundarherferð Blaðamannafélags Íslands. Markmiðið hennar er að vekja fólk til vitundar um mikilvægi blaðamennsku fyrir samfélagið. Miðað við útlit herferðarinnar og framsetningu virðist það einnig vera markmið herferðarinnar að fólk fái það á tilfinninguna að því hafi verið að berast fjárkúgunarbréf frá formanni Blaðamannafélagsins, en það er önnur saga.
Annað lögmál Newtons og skammtafræðin skýra vissulega hvernig veröldin verður óreiðukenndari eftir því sem tímanum vindur fram - tebollar brotna, bílar ryðga og eftir því sem hröðun alheimsins eykst styttist í að ekkert verði eftir nema myrkur.
Hvernig það eigi að varpast á síbreytileg mannleg samfélög er hins vegar annað mál. Er eitthvað hæft í þeirri fullyrðingu að samfélag sé óreiðukenndara í dag en það var áður?
Dómari í Súmer þyrfti ekki langan tíma til að semja sig að frönsku réttarfari nútímans, og slarkfærir þingmenn við Austurvöll ættu auðvelt með að feta sig í öldungaráði Rómar.
Ekkert sem við lesum úr ritum fornaldar, sagnfræðiritum eða skáldskap bendir til þess að nokkuð hafi breyst um mannlegar tilfinningar og ekkert sem við getum lesið úr mannvistarleifum Neanderdalsmanna gefur til kynna að mannseðlið hafi breyst, jafnvel ekki frá okkar útdauðu frændum sem við deilum aðeins sameiginlegum forföður með.
Svo, það er afar hæpið að skýra samfélög manna með frumsetningum eðlisfræðinnar. Það er bara álíka galið og að styðjast við félagslegan darwinisma svo vísað sé til nærtæks dæmis.
Alls kyns skoðanir og alls kyns raddir hafa dunið á öllum mönnum á öllum tímum. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum. Vafalaust er eina breytingin í þeim efnum að hættan á að lenda í bergmálshellum hefur vaxið.
Það að einhverjum þyki skoðanir óæskilegar er ekki uppfinning samtímans. Það eru kannski aðrar skoðanir á bannlista nú en var á miðöldum, en bannlisti er það samt.
Og þrátt fyrir grundvallaðra skoðanafrelsi nú en þá, er hneigðin fremur í hina áttina, að í nafni baráttu gegn upplýsingaóreiðu megi og eigi að þagga niður sum sjónarmið en önnur ekki. Bæði af stjórnvöldum og með félagslegri samhæfingu.
Það á við nú sem um allar aldir, að fólk þarf að leita staðreynda, greina kjarna máls og meta ólík sjónarmið. Það er í eðli okkar talandi félagsapa en þeir sem ekki gera það verða lögmálum Darwins að bráð.
Fagleg blaðamennska er engin forsenda upplýsts samfélags. Blaðamennska er ágæt og það að einhverjir sérhæfi sig í henni í anda verkaskiptingar markaðssamfélagsins og horfi yfir svið mannlífsins og dragi fram það sem flesta varðar mestu, leiti staðfestingar um ætlaðar staðreyndir og fullyrðingar og svo framvegis er ágætt fyrir umræðuna.
En hvers vegna er hortittinum „faglega“ troðið þarna inn? Á það ekki við öll störf að gott sé að menn vandi sig við að gegna þeim?
En nei, með þessu orði er verið að gefa til kynna að það séu einhverjir mismerkilegir flokkar blaðamennsku og að þeim þurfi sérstaklega að hlúa sem gefur sig út fyrir að vera faglegi flokkurinn. Og þeir sem ekki séu í því liðinu þar af leiðandi ófaglegir, óvandaðir eða verra.
Þar vekur næsta setning enn meiri áhyggjur, því þar er undirstrikað að ekki dugi að blaðamenn segi fréttir, heldur þurfi að setja þær í samhengi og skýra með hag almennings að leiðarljósi. Hvað er verið að segja hér?
Jú, við þurfum ekki að leita staðreynda, greina kjarna máls og meta ólík sjónarmið. Við getum bara eftirlátið faglegum blaðamönnum það, sem af fórnfýsi og náungakærleik setji það allt í samhengi fyrir okkur.
Hvað má þá segja um mærðina um að blaðamennska hafi aldrei verið mikilvægari?
Kjánalega sjálfhverft raus um að þeir tímar sem við nú lifum á séu eitthvað merkilegri en aðrir tímar. Blaðamannafélagið hefur mikið verið í að verðlauna greinar „sem fjalla á yfirgripsmikinn máta um svifryksmengun“, svo dæmi sé tekið.
Eru þær eitthvað mikilvægari fyrir samfélagið en skilaboðin sem Filippídes, einn af frumkvöðlum blaðamennskunnar, færði Aþenumönnum á sínum tíma?
Er virkilega hægt að halda því fram að blaðamennska sé eitthvað mikilvægari nú en á tímum kalda stríðsins, Víetnamstríðsins eða seinni heimsstyrjaldarinnar?
Nei, vitundarherferð Blaðamannafélagsins er innihaldsrýr orðavaðall sem er til þess fallinn að rifja upp fyrir fólki að blaðamannastéttin sé oftar en ekki sjálfhverf og hlægileg.
Fjölmiðladárýnin birtist Viðskiptablaðinu 27. mars. Áskrifendur geta lesið pistilinn í heild sinni hér.