Sjálfskipaðir varðmenn heimilanna í efnahagsmálum virðast telja sig hafa mikinn hag af því að mála skrattann á vegginn.

Hér er meðal annars um að ræða verkalýðsforingja, stjórnmálamenn og álitsgjafa sem bíða tækifæris til að vera kjörnir á þing. Leiða má líkum að þessar raddir gerist háværari þegar líða tekur á veturinn og það styttist í að kjarasamningar á almennum markaði renna úr gildi.

Þessum sjálfskipuðu varðmönnum er tíðrætt um snjóhengjuna svokölluðu. Þar er átt við þann fjölda fasteignalána hvers vextir verða endurákvarðaðir á næstu misserum eftir að hafa verið bundnir undanfarin ár. Ljóst er að vextir á þessum lánum munu hækka umtalsvert ef heimilin endurfjármagna þau ekki.

Samkvæmt tölum Seðlabankans verða vextir fasteignalána fyrir 35 milljarða króna endurskoðaðir fram að áramótum. Upphæðin er 183 milljarðar fyrstu níu mánuði næsta árs og þar af eru óverðtryggð lán fyrir um 160 milljarða. Heildarverðmæti íbúðalána á Íslandi er hins vegar um 2500 milljarðar króna. Þannig að innan við 10% íbúðalána verða endurskoðaður á næstu misserum.

Staðreynd málsins er sú að staða heimilanna er sterk og heilt yfir ættu þau að ráða við versnandi vaxtakjör. Þannig hafa skuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu farið lækkandi á undanförnum árum og raunvöxtur skulda þeirra lækkað. Samkvæmt Seðlabankanum var heildargreiðslubyrði fasteignalána lægri en 200 þúsund krónur hjá um 70% heimila. Aðeins um 15% heimila greiddu meira en 250 þúsund.

Einnig er mikilvægt að halda því til haga að heimilum stendur til boða fjöldi valkosta til að lækka greiðslubyrði sína. Hægt er að lengja í lánum og endurfjármagna eins og að færa lánin yfir í verðtryggð lán sem hafa mun lægri greiðslubyrði.

Vissulega er hægt að taka undir þá skoðun að æskilegt væri að skuldir heimilanna séu fjármagnaðar með óverðtryggðum lánum. Íslenska hagkerfið stefndi í þá átt fyrir nokkrum árum. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að kalla fram stöðugleika sem myndar grunn að lægra vaxtastigi.

Það hvernig tekst til í komandi kjaraviðræðum mun skipta sköpum fyrir þá þróun. Hóflegir kjarasamningar ásamt raunverulegu aðhaldi í ríkisrekstrinum geta tryggt að verðbólgan hjaðni hratt og örugglega og svigrúm skapist til lægri vaxta.

Þetta er hið raunverulega hagsmunamál heimilanna. Svo virðist að almenningur átti sig á þessu. Í nýlegri könnun sem Samtök atvinnulífsins létu gera heyrist skýr samhljómur er milli almennings og atvinnurekenda. Markmið komandi kjarasamninga er að stuðla að lækkun vaxta og verðbólgu. Meirihlutinn gerir sig einnig grein fyrir að svigrúmið til kauphækkana er takmarkað.

Með þetta að leiðarljósi má ganga út frá því að hægt verði að ná niður verðbólgu á tiltölulega skjótum tíma og skapa skaplegra vaxtaumhverfi fyrir heimili og fyrirtæki.