Ritstjórn Viðskiptablaðsins birti nýverið leiðara undir nafninu „Ósjálfbært þvaður“. Þar er fjallað um Sjálfbærniás, raunverulegar aðgerðir og skriffinnsku en einnig er minnst á Sjálfbærnivísi PwC. Við gerum ekki athugasemdir við það sem tengist öðrum aðilum í leiðaranum en við, sem höfundar hans, svörum fyrir Sjálfbærnivísi PwC.

Í Sjálfbærnivísi PwC er metin staða og árangur í loftslagsmálum 50 stærstu fyrirtækja Íslands og byggir matið á opinberum upplýsingum fyrirtækjanna sjálfra. Höfundur leiðara afgreiðir Sjálfbærnivísinn með setningunni „En málið horfir öðruvísi við þegar haft er í huga að íslensk fyrirtæki nýta endurnýjanlega orku að langstærstum hluta í starfsemi sinni og hljóta að teljast býsna umhverfisvæn í öllum erlendum samanburði.“

Þessi fullyrðing er mikil einföldun þar sem rafmagn er lítill hluti þess er fellur undir kolefnisbókhald fyrirtækja. Það að líta framhjá öðrum þáttum, eða gera lítið úr þeim, jafngildir í besta falli því að stinga höfðinu í sandinn.

Fjölmörg alþjóðleg fyrirtæki hafa skuldbundið sig til að kaupa endurnýjanlegt rafmagn. Þetta er ekki lengur merkilegt. Það sem er merkilegt og erfitt að ná utan um eru heildaráhrif fyrirtækisins, virðiskeðja þess og að draga úr losun í samræmi við Parísarsamkomulagið.

Parísarsamkomulagið er merkilegt fyrir marga hluta sakir en ekki síst að þarna tókst 196 þjóðum að sameinast um hvað þyrfti að gera í loftslagsmálum. Þeir sem hafa starfað í pólitík eða fylgst með átta sig strax á því hversu erfitt verkefni það er eitt og sér að samhæfa aðila frá nánast öllum þjóðum heims og hversu merkilegt er að það tókst. Svona gerist ekki nema að verkefnið sé annað hvort, auðvelt í framkvæmd eða eins og í tilfelli loftslagsmála, staðan er svo alvarleg að ekki var hægt að hunsa hana lengur. 196 þjóðir ætla sér að draga úr kolefnislosun og að snúa hagkerfum sínum til sjálfbærri hátta og lágmarka þannig þá óvissu sem hlýst af loftslagsbreytingum og alvarleika áhrifa. Í hverri viku fáum við fréttir af stigmagnandi áhrifum loftslagsbreytinga sem munu eða hafa nú þegar áhrif á rekstur fyrirtækja.

Ef markmið Parísarsamkomulagsins á að nást þarf að þekkja umfangið. Rétt eins og í fyrirtækjarekstri almennt, þarf að mæla rekstur og árangur ef vel á að takast. Ekki er hægt að stinga fingrinum út í loftið og álykta að hitt og þetta sé að gerast. Gott kolefnisbókhald, yfirsýn yfir virðiskeðju og úttekt á stjórnarháttum er m.a. það sem fylgir nýrri tilskipun um sjálfbærniupplýsingar. Hér er freistandi að detta í afturhaldsgírinn, spyrna við fótum og kvarta yfir kostnaði – en hvað kostar að gera ekkert? Samkvæmt fjárfestakönnun PwC Global 2023 sögðust 75% fjárfesta horfa til sjálfbærniáhættu við fjárfestingaákvarðanir þó að fyrirtæki hafi ekki verið birta sjálfbærniskýrslur með stöðluðum hætti og án endurskoðunar. Einnig höfðu 94% fjárfesta efasemdir um ákveðna þætti sem koma fram í þeim skýrslum, sem undirstrikar þörfina á endurskoðun og stöðlun.

Fjárfestar nýta ársreikninga við ákvarðanatöku, ekki er nóg að horfa til fjárstreymis. Enginn af þeim vill vera gripinn með allt niður um sig þegar kemur í ljós að einungis fjárstreymið var jákvætt á meðan restin var tifandi tímasprengja. Án gagna eru aðgerðir fyrirtækja ómarkvissar. Í leiðara segir: „Sjálfbærni í fyrirtækjarekstri er nauðsynleg og full þörf er að halda áfram samtali hvernig líklegast er að ná því markmiði.”

Þetta samtal er löngu hafið og það liggja fyrir niðurstöður sem eru settar fram í formi laga, reglugerða og aukinna krafna m.a. til upplýsingagjafar og skýrslugerðar fyrirtækja. Breytingar verða á skýrslu stjórnar svo að ársreikningar endurspegli betur starfsemi fyrirtækja.

En það má líka taka þá afstöðu að þetta sé allt óþarfi. Af hverju að stoppa þar? Spurning hvort  ritstjórn vilji láta nægja að gera óendurskoðaða ársreikninga með fáum tölum en stuttum og kjarnyrtum lýsingum svo sem „Reksturinn gekk vel og við eigum meiri pening en í fyrra“?

Aron er sérfræðingur í sjálfbærnimálum og Hulda er leiðtogi sjálfbærnimála hjá PwC.