Týr hlustaði á stefnuræðu Kristrúnar Frostadóttir forsætisráðherra og umræður um hana á mánudagskvöld. Forsætisráðherrann var hofmóðug í ræðustólnum sem ekki sé sterkar að orði kveðið.

Henni var tíðrætt um það mikla og óskoraða umboð sem henni var fengið í hendur af þjóðinni í krafti atkvæða fimmta hvers kjósanda í síðustu Alþingiskosningum. Hvað ætli að hinn mikli leiðtogi ætli að gera við umboðið?

Jú, gera breytingar á lögum um leigubíla og bæta um umgjörð um óperustarfsemi hér á landi. Erindi forsætisráðherra við þjóð sína er svo sannarlega brýnt. Sannfæringarkrafturinn þegar kom að síðarnefnda atriðinu var slíkur að forsætisráðherrann fór uppá háa C-ið.

***

En forsætisráðherra ætlar ekki eingöngu að nota völd sín til þess að bæta umgjörð leigubílaaksturs og óperusamstarfi. Sama dag og hún flutti stefnuræðu sína birtist við hana viðtal í breska blaðinu Financial Times.

Viðtalið er áhugavert svo ekki sé meira sagt. Þar segir Kristrún að Íslendingar eigi án refja að greiða aðild Íslands að Evrópusambandinu atkvæði sitt. Það sé eðlilegt skref í „efnahagslegum og menningarlegu samhengi“ eins og hún orðar það í viðtalinu.

***

En Kristrún sá ekki ástæðu til þess að deila þessari sýn með þingheimi í stefnuræðu sinni. Þess í stað eyddi hún töluverðum krafti í að réttlæta í löngu máli að einn af forystumönnum ríkisstjórnarinnar skuli vera yfirhöfuð í ríkisstjórn, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins benti í andsvörum sínum við stefnuræðunni.

Mátti helst skilja á forsætisráðherra að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins væri söguleg nauðsyn þar sem að síðarnefndi flokkurinn hafi stofnaður á eldhúsgólfi í Árbænum fyrir níu árum. Hvað sem það svo sem þýðir.

***

Eini ráðherrann sem sýndi vott af því að vera með lífsmarki þetta kvöld á Alþingi var Jóhann Páll Jóhannsson orkumálaráðherra. Hann öskraði á landsmenn og hvatti þá til að kveina sem mest yfir áformum ríkisstjórnar sem væru fyrst og fremst þau að hækka skatta á verðmætasköpunina – ásamt því auðvitað að bæta umgjörð leigubílaaksturs og óperusöngs hér á landi.

Týr er einn af föstum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.