Umsóknum íslenskra aðila um skráningu vörumerkja hjá Hugverkastofunni fjölgaði um rúm 4% árið 2024 frá árinu áður og hafa aðeins einu sinni verið fleiri.

Árið 2024 bárust stofnuninni 776 íslenskar umsóknir um skráningu vörumerkja eða um þrjár umsóknir á hverjum virkum degi ársins. Þegar þetta er ritað eru 7.580 íslensk vörumerki skráð hjá Hugverkastofunni og 267 íslenskar umsóknir í vinnslu. Erlendir aðilar eiga meira en 57 þúsund vörumerki skráð hér á landi og á hverju ári berast Hugverkastofunni fleiri en þrjú þúsund vörumerkjaumsóknir frá erlendum aðilum.

Vörumerki eru allt í kringum okkur. Þau eru margs konar tákn sem fólk og fyrirtæki í atvinnustarfsemi nota til að auðkenna vörur sínar og þjónustu og auðvelda þannig neytendum að kaupa aftur það sem ánægja var með, eða forðast það sem ekki var ánægja með. Til að tryggja eiganda einkarétt á notkun vörumerkis fyrir ákveðnar vöru og þjónustu – og þar með heimild til að banna öðrum að nota eins eða mjög líkt merki – er hægt að skrá vörumerki hjá Hugverkastofunni.

Vitundarvakning

Umsóknirnar sem bárust Hugverkastofunni á síðasta ári voru mjög fjölbreyttar. Í sumum tilvikum eru eldri fyrirtæki að skrá merki sem hafa verið lengi í notkun án þess að hafa verið skráð. Þá eru mörg dæmi um merki fyrir nýjar vörur eða þjónustu sem rótgróin fyrirtæki eru að hefja markaðssetningu á. Á árinu barst líka umtalsverður fjöldi umsókna frá ungum fyrirtækjum og einstaklingum. Það er full ástæða til að fagna slíkum umsóknum sérstaklega, enda gefa þær mynd af því hvaða nýsköpun er í gangi í samfélaginu á hverjum tíma. Segja má að nýjar vörumerkjaumsóknir séu ákveðinn spegill á umsvifin í efnahagslífinu. Það er einnig mjög ánægjulegt að sjá að ákveðin vitundarvakning virðist vera í samfélaginu um mikilvægi þess að vernda vörumerki með skráningu.

Yngsti umsækjandinn 14 ára

Af umsóknum ársins 2024 voru 75% frá fyrirtækjum. Helmingur þeirra var frá fyrirtækjum sem voru stofnuð árið 2012 eða síðar og fjórðungur frá fyrirtækjum sem voru stofnuð 2021 eða síðar.

Dæmi um vörumerki nýrra fyrirtækja sem skráð voru árið 2024.
Dæmi um vörumerki nýrra fyrirtækja sem skráð voru árið 2024.

Algengast er að vörumerki samanstandi af orðum, samblöndu orða og mynda eða einungis af myndum. Nokkur íslensk fyrirtækis sóttu um skráningu á svokölluðum seríum á síðasta ári, m.a. Brandenburg, sem sótti um skráningu á orðmerki, orð- og myndmerki og myndmerki. Með því að sækja um seríu, tryggir umsækjandi sér einkarétt á orði, mynd og samsetningu orðs og myndar og býr þannig til öflugan verndarhjúp um merkið. Vörumerki geta líka verið mynstur, litir, hreyfing og hljóð, svo nokkur dæmi séu tekin, en fáar umsóknir bárust á árinu um slík vörumerki og mættu þær gjarna vera fleiri, enda geta t.d. hljóðmerki verið mjög sterk vörumerki.

Orðmerki, myndmerki og orð- og myndmerki Brandenburg sem skráð voru árið 2024.
Orðmerki, myndmerki og orð- og myndmerki Brandenburg sem skráð voru árið 2024.

25% vörumerkjaumsókna komu frá einstaklingum og var ein af hverjum fimm slíkum frá einstaklingum 25 ára eða yngri. Yngsti umsækjandi um skráningu vörumerkis á árinu fæddist árið 2010 og var 14 ára þegar merkið hans var skráð í desember síðastliðnum.

Dæmi um vörumerki í eigu einstaklinga sem skráð voru árið 2024.
Dæmi um vörumerki í eigu einstaklinga sem skráð voru árið 2024.

Hugverkaiðnaður stuðlar að sjálfbærum hagvexti

Síðastliðinn áratug eða svo hafa umsóknir frá ferðaþjónustuaðilum og aðilum í veitingaþjónustu verið mjög áberandi á meðal íslenskra vörumerkjaumsókna og árið 2024 var þar engin undantekning. Á sama tíma var einnig umtalsverður vöxtur í fjölda umsókna frá fyrirtækjum í hugbúnaðarþróun og ýmiss konar þjónustu sem tengist hugverkum og tæknilegri nýsköpun. Það er fagnaðarefni og er vafalaust afleiðing af því hvað hugverkaiðnaður hefur farið vaxandi í íslensku efnahagslífi á allra síðustu árum.

Hjá hugverkadrifnum fyrirtækjum, t.d. í hugbúnaðargerð og tæknilegri nýsköpun, er þó enn óplægður akur og mikilvægt að slíkt fyrirtæki hugi vel að vernd hugverka sinna, hvort sem um er að ræða vörumerki, einkaleyfi á uppfinningum eða verndun hönnunar. Þá er mikilvægt að áfram verði stutt við vöxt hugverkaiðnaðarins, þessarar fjórðu stoðar í íslensku atvinnulífi, því þrátt fyrir mikinn vöxt á undanförum árum eigum við enn nokkuð í land til að ná mörgum þjóðum sem við viljum bera okkur saman við. Öflugur hugverkaiðnaður er og á að vera eftirsóknarverður, m.a. vegna þess að rannsóknir sýna að fyrirtæki í hugverkaiðnaði skila hærri tekjum á stöðugildi, greiða hærri laun og stuðla að miklum og sjálfbærum hagvexti.

Á vef Hugverkastofunnar er einfalt að sækja um skráningu vörumerkis. Eftir að umsókn berst má vænta ákvörðunar Hugverkastofunnar um skráningu merkis innan fárra vikna. Starfsfólk Hugverkastofunnar er ávallt tilbúið að veita umsækjendum leiðbeiningar og ráðgjöf áður en sótt er um.

Ert þú ekki örugglega með þín vörumerkjamál á hreinu?

Höfundur er stafrænn leiðtogi Hugverkastofunnar.