Slagurinn við verðbólguna snýst að stórum hluta um trúverðugleika. Það er að segja að markaðurinn sannfærist um að þeir sem stjórna efnahags- og peningamálum landsins muni beita öllum tiltækum ráðum til þess að koma böndum á verðlagshækkanir.

Fram til þessa hefur Seðlabankinn staðið einn í fylkingarbrjósti í baráttunni gegn verðbólgunni. Afleiðing þess er að vextir hafa hækkað fram úr öllu hófi. Eins og fram kemur í nýjustu peningamálaskýrslu Seðlabankans þá væri vaxtarstigið lægra ef stjórnvöld hefðu sett sér metnaðarfull markmið um skilvirkan og skjótan samdrátt á útgjöldum ríkisins.

Í sömu skýrslu Seðlabankans kemur fram að verðbólguvæntingar hafa farið hækkandi að undanförnu og er vel yfir langtímamarkmiðum. Engan skal undra. Stjórn ríkisfjármála hefur verið með þeim hætti að engin ástæða er til að ætla verðbólga hjaðni hratt og örugglega.

Útspil ríkisstjórnarinnar í vikunni breytir engu í þeim efnum. Þvert á móti. Þessar aðgerðir sýna fullkomið andvaraleysi ráðamanna gegn verðbólguvandanum og afleiðingum hans. Samkvæmt tillögunum er stefnt að því að spara einungis 36 milljarða í ríkisrekstrinum. Þetta er þriðjungur þeirra upphæðar sem Alþingi hækkaði útgjöld ríkissjóðs um þegar það hafði fjárlög þessa árs til umfjöllunar.

Með öðrum orðum er lítill vilji til staðar hjá ríkisstjórninni að búa í haginn fyrir þá erfiðleika sem eru fram undan eru vegna stöðu mála. Hið háa vaxtarstig mun á endanum leiða til samdráttar sem mun svo hafa áhrif skatttekjur ríkissjóðs. Útlit er fyrir að frumjöfnuður á rekstri ríkisins verði jákvæður í ár vegna mikils hagvaxtar. Að óbreyttu verða aðstæður ekki með þeim hætti þegar fram í sækir og þá munu stjórnmálamenn vakna upp við vondan draum og þeim hefnast fyrir að hafa ekki brugðist við verðbólgunni með samdrætti í ríkisútgjöldum í tæka tíð.

Fleiri tillögur í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar benda til skilningsleysi á þeim vanda sem við er að etja. Þar er meðal annars dustað rykið af tillögum um þjóðarsjóð – ríkisfjárfestingasjóðs sem er ætlað að tryggja áfallaþol ríkissjóðs til frambúðar. Slíkar tillögur eru gagnslausar og nær væri að greiða niður skuldir og skuldbindingar ríkisins.

Og ef boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru ekki til þess fallnar að telja mönnum trú um að rekin verður ábyrg efnahagsstefna sem hefur það markmið að kveða niður verðbólguna, hvað verður þá sagt um stjórnarandstöðuna og erindi hennar í þessum efnum? Því miður fátt. Allar tillögur hennar byggja á frekari útgjaldaaustri og enn meiri millifærslum ásamt skattahækkunum. Allt gagnslausar aðgerðir í baráttunni gegn verðbólgunni.

Þrátt fyrir mikla verðbólgu hefur hagvöxtur verið kröftugur að undanförnu og atvinnuleysi er nánast ekkert. Því miður er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að þetta ástand muni ekki breytast. Það blasir við að vaxtarstigið er þegar farið að bíta og nú þegar má sjá blikur á lofti yfir ýmsum atvinnugeirum. Í því samhengi má nefna að kraftur í byggingageiranum fer þverrandi á sama tíma og eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði fer vaxandi meðal annars vegna mikillar fólksfjölgunar.

Flestir bendir til þess að stjórnvöld hafi glutrað niður tækifæri til að bregðast við verðbólguvandanum með skilvirkum hætti. Sökum þessa mun verðbólgan verða þrálát og vaxtarstigið mun haldast hátt í lengri tíma.