Ísland er eitt ríkasta land heims og velsæld hér er með því mesta sem þekkist. Hætt er við því að þessi staðreynd fari fram hjá lesendum íslenskra fjölmiðla. Augljóst er að hún hefur farið fram hjá mörgum blaðamönnum. Annars myndu þeir birta ummæli á borð við þau sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafði uppi í síðustu viku án athugasemda.

Vísir leitaði álits Ragnars á skoðun Vilhjálms Birgissonar, verkalýðsleiðtoga á Akranesi, um að Íslendingar ættu alvarlega að íhuga að taka upp nýjan gjaldmiðil. Ragnar vill ganga lengra eins og eftirfarandi ummæli sýna:


„Ég er ekki jafn áhyggjufullur yfir krónunni og ég hef af stjórn efnahagsmála. Ég tel okkur sem þjóð ekki við bjargandi í þeim efnum. Þannig að mín skoðun er sú að okkur er ekki treystandi til að fara með stjórn efnahagsmála, það er fullreynt og engu að tapa og allt að vinna að það sé í höndum annarra eins og seðlabanka Evrópu sem dæmi.“

Glannalegar og vanhugsaðar yfirlýsingar úr ranni Ragnars Þórs ættu ekki að þykja fréttnæmar. Eigi að síður ættu fréttamenn að staldra við og spyrja hann frekar út í þær. Nú vita flestir Íslendingar að þjóðin hefur farið úr því að vera ein sú fátækasta í Evrópu yfir í að vera velmegunarsamfélag á hundrað árum. Þetta hefur átt sér stað þrátt fyrir viðvarandi vont veður og að Íslendingar hafa notað krónuna sem lögeyri. Rétt er að taka fram að krónan sem slík skiptir afar litlu máli í þessu samhengi. Íslendingar selja ekki krónur fyrir gjaldeyri. Íslendingar selja fisk, ál, ferðaþjónustu og hugvit fyrir gjaldeyri. Það er óháð því hvaða mynt er notuð hverju sinni. Að því sögðu skiptir sjálf gengisstefnan höfuðmáli.

Hvað um það. Ragnar Þór telur Íslendinga ófæra um að stjórna eigin efnahagsmálum. Ragnar er væntanlega að vísa til vaxtastigsins og verðbólgunnar í þeim efnum. En hverjar ætli ástæðurnar fyrir því að vextir og verðbólga séu hærri hér á landi en annars staðar? Ætli ástæðuna megi ekki finna í þeirri staðreynd að laun hér á landi hafa hækkað langtum um meira en framleiðni undanfarinn áratug eða svo. Sé vísitala launa hér á landi borin saman við þróunina á Norðurlöndum og á evrusvæðinu kemur nöturlegur sannleikur í ljós. Miðað við árið 2009 hafa laun á evrusvæðinu hækkað um 30% en á sama tíma hækkuðu þau hér um 120%. Þegar litið er til hækkunar launa á árunum 2021 til 2022 kemur það sama á daginn. Laun hér á landi hækkuðu um 13% á þessu tímabili meðan þau hækkuðu um tæplega fimm prósent á meginlandi Evrópu.

Það skyldi þó aldrei vera að vandamálið sé ekki íslensk hagstjórn heldur fyrst og fremst linkind atvinnulífsins við fyllilega ábyrgðarlausum kröfum verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum sem hefur leitt til þess að laun hafa hækkað margfalt á við framleiðni í hagkerfinu með tilheyrandi vaxta- og verðbólgukostnaði?

Í sömu frétt var einnig rætt við áðurnefndan Vilhjálm. Var haft eftir honum að almenningur gæti vart búið við gjaldmiðil „sem kostar neytendur og heimilin yfir 200 milljarða á ári“. Þetta er áhugaverð fullyrðing ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að heildartekjur íslenskra heimila námu um 266 milljörðum í fyrra.

Rétt eins og Ragnar telur Vilhjálmur að launahækkanir umfram aukningu framleiðni séu ekki vandamálið heldur krónan. Í fréttinni segist Vilhjálmur vilja fá virta erlenda aðila til að kanna kosti og galla við að taka upp nýjan gjaldmiðil. Áhugavert væri að vita hvað Vilhjálmur telur að skýrsla bandaríska Nóbelsverðlaunahafans Joseph Stiglitz frá árinu 2001 um sama efni svari ekki. Niðurstaða Stiglitz var að það hentaði Íslendingum best að styðjast við fljótandi gengi og verðbólgumarkmið.
***

Á fimmtudagskvöld birtist á vefsvæði Ríkisútvarpsins frétt um að réttarhöldum í sakamáli Namibíu hefði verið frestað. Í fréttinni er stuðst við frásögn namibíska miðilsins Informanté og kallar Ásta Hlín Magnúsdóttir, fréttamaður RÚV, málið „namibíska Samherjamálið.“

Þetta er undarleg framsetning ekki síst í ljósi þess að nafn Samherja er hvergi nefnt á nafn í frásögn Informanté. Enda snýst málið ekkert um Samherja. Málið snýst um ásakanir á hendur embættismönnum í opinberri stofnun er nefnist Fishcor og hefur meðal annars það hlutverk að selja aflaheimildir og á að nota afraksturinn í uppbyggingu innviða. Þeir hafi stungið undan fé. Samherji var eitt þeirra útgerðarfélaga sem áttu í viðskiptum við Fishcor.

Enn undarlegra var svo að sjá netútgáfu Morgunblaðsins apa þetta upp eftir Ríkisútvarpinu daginn eftir og segja frá því að réttarhöldum í Samherjamálinu í Namibíu hafi verið slegið á frest.

***

Ríkisútvarpið sagði frá því um helgina að þáttaröðin The Last of Us sem fjallar um uppátækjasama uppvakninga hefði fengið tæpar fimmtíu milljónir endurgreiddar úr ríkissjóði. Fréttin var skrifuð eftir að Kvikmyndamiðstöð uppfærði lista yfir þau sjónvarps- og kvikmyndaverkefni sem fengið hafa endurgreiðslu úr ríkissjóði.

Endurgreiðslan er tilkomin samkvæmt fréttinni vegna þess að hópur Íslendinga á vegum tæknibrellufyrirtækisins RVX hafi komið að gerð þáttanna. Það sem vekur athygli við fréttina er að þættirnir voru ekki teknir upp hér á landi heldur í Kanada.

Í fyrstu grein reglugerðar um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi segir: Heimilt er að endurgreiða úr ríkissjóði 25% af framleiðslukostnaði sem til fellur við framleiðslu kvikmynda eða sjónvarpsefnis hér á landi og eftir atvikum í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Síðast þegar fjölmiðlarýnir athugaði var Kanada ekki hluti af Evrópska efnahagssvæðinu.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 27. september 2023.