Danskur blaðamaður að nafni Lasse Skytt birti grein í Aftenposten Innsikt í febrúar, en það er mánaðarlegt tímarit þessa útbreiddasta dagblaðs Noregs. Í greininni ræðir hann við formann Blaðamannafélagsins, mikilvægasta rannsóknarblaðamann landsins og framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Transparency International um útgerðarfélagið Samherja og starfsemi þess, en af því voru dregnar ekki litlar ályktanir um eðli íslensks samfélags, sem aftur voru básúnaðar dyggilega af sumum miðlum hér á landi.
Nú er komið á daginn að ekki stóð steinn yfir steini í umfjöllun danska blaðamannsins.
Í greininni kom meðal annars fram að meðan önnur Norðurlandaríki gætu stært sig af að vera minnst spilltu lönd heims hefði Ísland sokkið í spillingarfen á liðnum árum. Rótin að þessu öll saman var sögð vera stjórnun fiskveiða hér við land.
Sem fyrr segir byggði umfjöllunin meðal annars á viðtölum við Sigríði Dögg Auðunsdóttur, formann Blaðamannafélagsins, Þórð Snæ Júlíusson, annan af ritstjórum Heimildarinnar, og Atla Þór Fanndal, framkvæmdastjóra Íslandsdeildar Transparency International, auk Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja, sem iðulega er nefndur uppljóstrari. Í greininni var svo fjallað um Samherja og umsvif fyrirtækisins í Namibíu með sambærilegum hætti og fyrirrennarar Heimildarinnar hafa gert auk fréttaskýringaþáttarins Kveiks í Ríkissjónvarpinu.
Þess vegna vekur sérstaka athygli að Aftenposten Innsikt sá í síðustu viku ástæða til þess að birta viðamikla afsökunarbeiðni vegna umfjöllunarinnar. Þar kveðst ritstjórnin hafa brugðist lesendum sínum og ekki tryggt að farið væri eftir „venjum um góða starfshætti“ við birtingu greinarinnar. Svo er í ítarlegu máli farið yfir óvönduð vinnubrögð við gerð greinarinnar og villandi framsetningu.
Í upphaflegu greininni var haldið fram að blaðamenn hefðu verið ofsóttir fyrir að segja fréttir af Samherjamálum. Á þessu biðst Aftenposten forláts. Ritstjórn tímaritsins áréttar að yfirheyrsla íslenskra blaðamanna hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra hafi „ekki tengst umfjöllun þessara blaðamanna um umrætt mál og kemur þannig málinu ekki við“. Er þar vísað til máls sem er til rannsóknar vegna kæru Páls Steingrímssonar skipstjóra í tengslum við símastuld og brot gegn friðhelgi einkalífs.
Því sama var raunar haldið fram í annarri grein danska blaðamannsins.
Hún birtist í Journalisten, málgagni danska blaðamannafélagsins, og var byggð á viðtali við Þórð Snæ um þá skoðun ritstjórans að starfsumhverfi blaðamanna hér á landi sé með versta móti.
Það er ekkert nýtt að Íslendingar vilji sækja sér upphefð að utan. Það getur líka átt við um blaðamenn, sem stundum hafa leitað samstarfs við erlenda kollega, að því er virðist aðallega til þess að gefa umfjöllun aukna vigt þó að í henni felist ekkert nýtt. Jafnvel aðeins endursögn á eigin efni, sem þeir geta síðan aftur sagt fréttir af að hafi verið sýndur slíkur sómi. Auðvitað verður fréttin ekki nákvæmari eða réttari við að vera þýdd fram og til baka, en ber hins vegar sjálfbærni í fréttaskrifum fagurt vitni.
Stundum virðist þetta gert til þess að gera sér mat úr minnimáttarkennd eyjarskeggja gagnvart hinum stóra heimi, að eitthvað hljóti að vera gott og gilt fyrst einhverjir útlendingar hafi komist að sömu niðurstöðu. Að í því felist alþjóðleg viðurkenning og sérhverjar mótbárur séu bara molbúaháttur.
Þetta kom býsna skýrt fram í liðnum mánuði þegar upphaflega greinin kom út í Aftenposten Innsikt, en þá birti Helgi Seljan mynd af forsíðunni og skrifaði með af kaldhæðni: „Útlendingar að misskilja“.
En nei, þá upplýsingaóreiðu Lasse Skytt mátti ekki rekja til misskilnings, heldur til þess að hann var fóðraður á röngum og misvísandi upplýsingum, frásögnum sem höfðu verið margtuggnar í sumum innlendum miðlum en standast ekki skoðun eða kröfur um eðlileg vinnubrögð fjölmiðla frekar en grein Skytt. Þótti Blaðamannafélagi Íslands samt ástæða til að verðlauna þau vinnubrögð.
***
Ofangreint fær mann til að rifja upp orðaskipti Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, og Ásgeirs Brynjars Torfasonar, fyrrverandi lektors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í þættinum Fréttavaktinni á Hringbraut fyrir nokkru. Þar var rætt um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og kvartaði Ásgeir Brynjar mjög yfir því hversu erfitt hann ætti með að útskýra þessa sölu og tímasetningu hennar fyrir erlendum sérfræðingum. Sigurður spurði hann þá hvort ekki færi þá bara betur á því að aðrir tækju að sér að útskýra málin fyrir útlendingum. Þessi áleitna spurning Sigurðar hefur breiða skírskotun um þessar mundir.
Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 9. mars 2023