Hrafnarnir kunna að meta staðfestu í fari manna. Enginn virðist vera staðfastari en Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis.
Hann neitar að nefndin hafi gert mistök við afgreiðslu á breytingum á búvörulögum í vor. Sem kunnugt er komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu í vikunni að afgreiðslan hefði verið í andstöðu stjórnarskrárinnar. Þetta hefur sett undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnisslögum í uppnám og það sama á við yfirtöku Þórólfs Gíslasonar og hans manna í KS á Norðlenska og möguleg kaup kaupfélagsins á sláturhúsi og kjötvinnslu B. Jensen.
Annars vakti það athygli hrafnanna að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, telur líklegt að dómnum verði áfrýjað. Innflutningsfyrirtækið Innnes höfðaði málið á hendur Samkeppniseftirlitinu og eiga hrafnarnir erfitt með að sjá hver eigi að áfrýja málinu. Varla Innness sem vann málið og hvað þá Samkeppniseftirlitið.
Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 20. nóvember 2024.