Það bar hæst til tíðinda í síðustu viku að Magnea Arnardóttir, leikskólakennari í Norðlingaholti, sagði upp störfum.

Morgunblaðið sagði fyrst fjölmiðla frá þessum tíðindum um kvöldmatarleitið síðastliðinn föstudag. Fram kom í fréttinni að ástæða uppsagnarinnar hafi verið afstaða Sambands íslenskra sveitarfélaga til svokallaðrar innanhústillögu Ástraðar Haraldssonar ríkissáttasemjara til lausnar á kjaradeilu kennara.

Morgunblaðið hafði eftir skrifum Magneu á samfélagsmiðlum:

“Rétt í þessu sagði ég starfi mínu lausu hjá Reykja­vík­ur­borg. Ég er búin að berj­ast og berj­ast. Ég veit ekki hvað ég get gert meira.

Leik­skóla­kenn­ar­ar eru ómiss­andi og í út­rým­ing­ar­hættu.

Er það í al­vöru sam­fé­lag sem við vilj­um, án þess­ar­ar stétt­ar?

Óvirðing gagn­vart störf­um okk­ar er ólíðandi og við eig­um skilið betri kjör og vinnuaðstæður. Viðsemj­end­ur okk­ar virðast ekki vera til­bú­in að sjá það.”

Hér er býsna sterkt tekið til orða. Erfitt er að sjá að tillaga um fimmtungs launahækkun kennara, eins og innanhústillaga ríkissáttasemjara er sögð fela í sér, verði til þess að útrýma stétt leiksskólakennara.

***

Uppsagnarbréf Magneu og óttinn við útrýmingu leikskólakennara sætti svo miklum tíðindum að Ríkisútvarpið tók hana fyrir sem fyrstu frétt í hádegisfréttunum daginn. Fyrirsögnin á endursögn fréttarinnar á vef Ríkisútvarpsins var: Kennarar segja upp eða íhuga uppsagnir.

Í fréttinni sagði svo Linda Blöndal fréttamaður frá því að kennarar “væru reiðir” og margir þeirra íhuguðu að segja upp störfum. Samt sem áður var það eina sem hönd var á festandi í fréttinni að téð Magnea hafi sagt upp störfum og að hún héldi að einhverjir aðrir myndu gera slíkt hið sama.

Þarna voru Morgunblaðið og Ríkisútvarpið augljóslega að taka vísvitandi þátt í kjarabaráttu kennara og spunaþráðum forystu Kennarasambandsins. Það er ekki fréttnæmt ef starfsmaður sem er ósáttur við kjör sín og starfsaðstæður segir upp störfum. Það er gangur lífsins.

Eigi að síður virðist íslenskt fjölmiðlafólk hrökkva á hjörunum ef það fréttist af kennara eða þá hjúkrunarfræðingi sem ákveður að skipta um starf. Minnir þetta um margt á fréttaflutning meðan að heimsfaraldurinn stóð yfir en þá fluttu Ríkisútvarpið og fleiri miðlar ítrekað fréttir af sama hjúkrunarfræðingnum sem var alltaf að segja upp álagsins á Landspítalanum. Óminnugir lesendur fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins geta fundið umfjöllun að það mál allt með því að slá inn leitarorðunum Soffía fær nóg á Google.

Svo er rétt að halda til haga að síðasti starfsdagur Magneu á leikskólanum á Rauðhóli verður 31. maí að sögn Morgunblaðsins.

***

Í sjálfu sér er ekkert sérstaklega fréttnæmt að einhver hafi skoðun á einhverju. Gildir þá einu hvort um sé að ræða leikstjóra, kaupsýslumann eða fulltrúa einhverrar annarrar starfstéttar.

Síðastliðið miðvikudagskvöld birtist frétt á vef Morgunblaðsins sem fjallaði um að „vegna beinn­ar þátt­töku Rapyd í stríðinu á Gasa mega lögaðilar á Íslandi ekki eiga viðskipti við fyr­ir­tækið sam­kvæmt úr­sk­urði Alþjóðadóm­stóls­ins í Haag”.

Nú er fjölmiðlarýni ekki kunnugt um hvernig fjártæknifyrirtækið Rapyd tekur beint þátt í vopnuðum deilum á Gasa-svæðinu og hvað þá vægi aðgerðarmiðstöðin í Dalshrauni í Hafnarfirði hefur fyrir stríðandi fylkingar þarna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Enda var eina heimildin fyrir þessari túlkun um að þorri Íslendinga væru að standa í álöglegum viðskiptum við færsluhirðinn aðsend grein sem eftir Björn Brynjólf Björnsson kvimyndagerðarmenn sem hafði birst í Mogganum þann daginn. Morgunblaðið hefur ekki fylgt málinu eftir.

Þeir sem fylgjast annars með fjölmiðlum vita að Björn Brynjólfur er ekkert sérstaklega hrifinn af ísraelska greiðslumiðlunarfyrirtækinu Rapyd og hefur skrifað fjöldan allan af greinum í fjölmiðla undanfarin ár eftir árásir og gíslatöku Hamasliða á Ísrael þar sem hann hvetur landsmenn að sniðganga fyrirtækið.

Í raun og veru er álíka fréttnæmt að kvimyndagerðarmaðurinn hvetji til sniðgöngu Rapyd og að Ole Anton Bieltvedt, sem er alþjóðlegur kaupsýslumaður til aðgreiningar frá staðbundnum og þjóðlegum kaupsýslumönnum þessa lands, lýsi þeirri skoðun yfir að hann sé alls ekki fráhverfur hugmyndinni um upptöku evru hér á landi. Það myndi seint rata sem frétt á vef Morgunblaðsins.

***

Nú virðist stór hluti fréttastofu Stöðvar 2 verið ráðinn til starfa hjá ríkisstjórnarflokkunum. Af þeim hefur mest kveðið á Heimi Péturssyni, sem er nú framkvæmdastjóri þingflokks Flokks fólksins. Hann virðist sækja sér fyrirmynd til Sean Spicer fyrrverandi blaðafulltrúa Hvíta hússins í fyrri forseta tíð Donald Trump.

Heimir hefur ritað aðsendar greinar sem birst hafa á Vísi þar sem að hann fer miður fögrum orðum um fyrrverandi starsbræður sínar. Ástæðan er fréttaflutningur Morgunblaðsins, Vísis og Ríkisútvarpsins þar sem hann gagrýnir fréttamenn fyrrnefnda blaðsins fyrir að flytja fréttir af styrkjum sem flokkurinn hefur fengið á fölskum forsendum. Kallaði Heimir blaðamenn Morgunblaðsins “eiturpenna” og sagði þá án alls siðgæðis.

Það hlýtur að teljast nokkuð sérstakt að starfsmaður ríkisstjórnarflokks skuli hafa slík orð um blaðamenn sem eru ekki að gera neitt annað en að sinna störfum sínum. Enginn ágreiningur er um hvort að röng skráning Flokks fólksins með hliðsjón af skilyrðum fyrir að hljóta styrki frá ríkissjóði hafi ekki verið fréttaefni.

Fleira í framgöngu landgönguliða Ingu Sælands vekur upp spurningar. Ákveðnar reglur gilda um samskipti blaðamanna og ráðherra í tengslum við ríkisstjórnarfundi. Blaðamenn óska eftir viðtali við ákveðna ráðherra að loknum fundi um tiltekin umfjöllunarefni.

Á vef Morgunblaðsins í síðustu viku mátti sjá upptöku af slíku viðtali blaðamanns við Ingu Sæland. Í miðju viðtali fór svo Heimir Már að skipta sér af viðtalinu og hreinlega svara spurningum fyrir hönd ráðherrans. Það er hreinlega ótrúlegt að slík vanvirðing bæði gagnvart ráðherra og svo blaðamanni skuli líðast.

Enn meira um herferð Flokk fólksins gagnvart Morgunblaðinu. Ingu Sælandi og pólitískum fylgihnöttum hennar á borð við Heimi er tíðrætt um að miðillinn sé málgagn auðmanna. Þeir mættu að taka fram að til að komast í þann hóp hlutfallslega dugar að þiggja laun fyrir þingmennsku eða vera á launaskrá þingflokksins og fjármagnaður af ríkinu.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins.