Feykilega mikið hefur verið skrifað um stjórnandann og leiðtogann í gegnum árin og áratugina. Sum myndu segja nóg komið en hér kemur viðbót sem hefur ýtt við mörgum.

Feykilega mikið hefur verið skrifað um stjórnandann og leiðtogann í gegnum árin og áratugina. Sum myndu segja nóg komið en hér kemur viðbót sem hefur ýtt við mörgum.

Í starfi mínu sem stjórnunarráðgjafi notast ég gjarnan við myndmál þar sem ég útskýri hugmyndir og kenningar með penna að vopni. Ljóst er að erfiðara er að koma myndforminu til skila í texta en það er reynt hér. Hetjur þessarar sögu eru kassinn, hringurinn og þríhyrningurinn, sem lýsa eiginleikum sem allir stjórnendur ættu að tileinka sér.

Það kannast eflaust margir við persónugerð sem er oft kennt við Kassa. Í sinni klassískustu mynd er það verkfræðingurinn eða lögfræðingurinn sem fylgir forminu, gefur sjaldan afslátt og sækir styrk sinn í öfluga rökhugsun og visku. Stjórnandi með öflugan kassa heldur gjarnan vel utan um reksturinn, hefur skýra sýn um hvert á að fara, er ferlamiðaður, faglegur, skipulagður og agaður. Allt eru þetta mikilvægir kostir en þeim geta fylgt takmarkanir. Kassinn á það nefnilega til að búa yfir brestum í mannlegum samskiptum sem getur jafnvel haft alvarleg áhrif á starfsfólk.

Persónugerð Hringsins er að vissu leiti andstæða kassans. Hringurinn er frábær að hlusta, er vandvirkur í samskiptum, hvetur fólk til dáða, heillar, býr yfir góðri sjálfsþekkingu, hefur sterkt tengsl og stuðlar að sálrænu öryggi. Einstaklingur með sterkan hring býr yfir öflugri tilfinningagreind og stuðlar að sálrænu öryggi, einhverju sem getur flutt fjöll. Hringurinn spilar oft verðmætt hlutverk í að breyta stjórnanda í leiðtoga. Hættan er að hringur, sem er með takmarkaðan kassa, nær síður langvarandi árangri. Það er jafnvel hætt við að hringurinn geti valdið alvarlegum skaða á vinnustaðnum þar sem engin innistæða er fyrir þeim fyrirheitum sem hringurinn talar fyrir og breytingar ná ekki að festa rótum.

Góður stjórnandi býr yfir báðum hæfileikum, þ.e. öflugri rekstrarfærni og enn betri samskiptafærni. Hér er mikilvægt að draga athygli að myndrænu túlkuninni, þar sem hringurinn er teiknaður stærri en kassinn, sem vísun í að hringur hjálpar kassanum að hreyfast. Samskiptafærni er nefnilega ósköp mikilvægt verkfæri í að koma hlutum á hreyfingu.

En myndin er ekki búin. Þríhyrningurinn stendur fyrir getu til áhrifa og breytinga, sem er lykillinn fyrir leiðtogann. Þar erum við að tala um getu til að greina stöðuna, endurmeta og loks leiða frábærar umbætur. Á myndinni hvílir þríhyrningurinn ofan á hringnum og kassanum og þar sést hversu mikilvægt er að hafa öflugan kassa, til að tryggja undirstöður. Ef kassinn er ekki nægilega stór er næsta víst að umbæturnar falli um sjálft sig. Ef hringurinn er ekki nógu stór er meiri hætta á að hlutir komist ekki á hreyfingu. Ef þríhyrningurinn er lítill eru líkur á að breytingar misheppnist.

Til viðbótar við þessi þrjú grunnform má bæta við einu formi, sem er ólíkt í eðli sínu. Þó að allir þessir þrír þættir séu hámarkaðir er jafn mikilvægt að huga að grunninum. Strikið snýst um að tryggja fullt orkustig á hverjum degi. Rétt eins og með farsíma er mikilvægt að tryggja persónulega hleðslu. Hún er mismunandi á milli einstaklinga en getur verið blanda af hreyfingu, slökun, uppbyggjandi samskiptum, áhugamálum, náttúru, tónlist, menningu og fleira. Sé vel að þessu staðið skapast öflugur skotpallur sem gefur stjórnandanum stóraukinn kraft.

Hlutverk leiðtogans er mikilvægt og það er ekki nóg að treysta bara á styrkleika sína til að ná markmiðum sínum. Byggja þarf upp víðtækari færni. Leiðtoginn þarf að taka fulla ábyrgð á áhrifum sínum með samblöndu af öflugri rökhugsun, frábærri tilfinningargreind, fyrirmyndar umbótagetu og daglegri hleðslu. Með slíka uppskrift að vopni en vonin vís.

Höfundur er kennari og stjórnunarráðgjafi í breytingum.