Verkalýðsfélagið Efling og Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) elda nú grátt silfur. Það er kannski ekkert sérstaklega fréttnæmt að verkalýðsfélag undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur eigi í útistöðum við atvinnurekendur. Það væri frétt ef svo væri ekki en það er önnur saga.
Í stuttu máli snýst deilan um að Efling sættir sig ekki við að SVEIT hafi gert kjarasamning við stéttarfélagið Virðingu, sem stofnað var nýlega af starfsmönnum í veitingageiranum í krafti stjórnarskrárvarins réttar síns. Krefst Efling þess að aðildarfélög SVEIT segi sig úr samtökunum og hætti að greiða félagsmönnum í Virðingu sem hjá þeim starfa laun eftir því sem virðist vera löglega gerðir kjarasamningar.
Eflingarmönnum er mikið niðri fyrir. Það sést ágætlega á yfirlýsingum Sæþórs Benjamíns Randalssonar, stjórnarmanns í Eflingu og framkvæmdastjóra vinnudeilusjóðs félagsins, um áramótin. Sæþór skrifaði eftirfarandi á samfélagsmiðli sínum:
„Þessi iðnaður er leikvöllur fyrir misheppnuð börn auðmanna, sem hefur verið sagt „nei“ á ævinni. Þeir krefjast þess að veitingahúsin sem þeir stofna skili reglulega hagnaði til að fjármagna íburðarmikinn lífstíl þeirra. Eigendurnir sjálfir elda ekki, þrífa eða taka við pöntunum, veitingastaðirnir eru byggðir, skreyttir og mönnuð af öðru fólki. Eigendur eru sníkjudýraflokkur, sem koma til móts við aðeins lægri flokk sníkjudýra.“
Látum liggja milli hluta að þessi lýsing gæti auðveldlega verið tekin beint upp úr ritgerðasafni Envers Hoxha og að hún komi sennilega ekki heim og saman við reynslu flestra af íslenskum vertum. Sníkjudýr, afætur og „misheppnuð börn auðmanna“ er ekki það fyrsta sem gestum rótgrónna veitingastaða eins og Þriggja frakka, Jómfrúarinnar, Asks og Slippsins í Vestmannaeyjum, svo nokkur dæmi séu tekin að handahófi, dettur í hug þegar þeir sitja þar að borðum. Það sama á við um velflesta veitingastaði á landinu þó að vissulega megi finna undantekningar. Það eru undantekningar sem segja ekkert um regluna.
Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að Efling er markvisst að reka baráttu sína í fjölmiðlum. Eflingarfólk veit að kalli maður fólk sem tekur áhættu og setur sparnað sinn í veitingarekstur sníkjudýr og þá sem sækja veitingahús enn aumari sníkjudýr mun það rata í fjölmiðla.
Fjölmiðlar verða að gera sér grein fyrir þessu. Annars er hætta á því að þeir verði óvitandi orðnir óvitandi þátttakendur í atvinnurógi gegn viðkomandi fyrirtækjum og einhverjum furðulegum kúgunartilburðum verkalýðsrekanda, sem vill halda einokunarstöðu sinni og gefa ekkert fyrir félagafrelsið og stjórnarskrána. Því miður hafa fjölmiðlar fallið nokkuð oft á því prófi gegnum tíðina.
Þannig sendi Efling fjölmiðlum lista yfir fimm fyrir-
tæki sem verkalýðsfélagið sagði standa að baki kjarasamningi SVEIT við Virðingu. Fram kemur í tilkynningunni að umræddir veitingastaðir hafi ekki svarað erindum frá Eflingu sem hafi „borist upplýsingar um að suma þessara fyrirtækja hafi skráð starfsfólk sitt á Virðingu“. Fyrirtækin sem um ræðir eru veitingastaðirnir Rok, Subway, Public House Gastropub, Hard Rock Cafe og Finnsson Bistro. Þá kemur fram í tilkynningunni að Efling hafi staðfestar heimildir fyrir því að Óskar Finns-son, matreiðslumaður á Finnsson og stjórnarformaður K3 ehf., hafi lýst því yfir að hann muni skrá starfsfólk sitt í Virðingu og gefa þeim engan ann-an kost.“
DV, Morgunblaðið og Vísir birtu þessa fréttatilkynningu Eflingar nánast óbreytta. Sem er óneitanlega sérstakt þar sem Efling hafði ekkert í höndunum annað en þær ályktanir sem Sólveig Anna og hennar fólk drógu af því að umræddir veitingastaðir hefðu ekki svarað áðurnefndu erindi. Það er óneitanlega sérstakt einkum í því ljósi að þeir sem hafa séð erindi Eflingar eru sammála um að það sé hálfgert hótunarbréf og orðagjálfur og að í því væru engar spurningar eða annað sem kallaði á svör viðtakenda.
Fjölmiðlarýnir sá því fleygt fram á samfélagsmiðlum í vikunni að hlaðvörp vinstri manna væru fyrst og fremst útvarpsþættir í Ríkisútvarpinu. Hvað sem því líður þá vakti val Ölmu Ómarsdóttur, stjórnenda Vikulokanna á Rás 1, á viðmælendum sínum um helgina athygli.
Alma fékk til sín Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur sem féll af þingi fyrir Pírata á dögunum, Höllu Gunnarsdóttur, flokksmann í Vinstri grænum, og Sönnu Magdalenu Mörtudóttir, oddvita Sósíalista í Reykjavík suðurs í alþingiskosningunum. Sem sagt þrír fulltrúar flokka sem ekki komust inn á þing í kosningunum komnir saman í hljóðstofu Ríkisútvarpsins til þess að fara yfir það helsta sem gerðist á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar.
Það er eins og niðurstaða kosninganna hafi hreinlega farið fram hjá þáttastjórnandanum og það sama má segja um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Taktleysi þáttastjórnandans afhjúpaðist með skýrari hætti eftir að þættinum lauk og honum var falið að skrifa frétt inn á vef Ríkisútvarpsins um það markverðasta sem sagt var í þættinum um morguninn. Fyrirsögn fréttarinnar var: Undirstrikar mikilvægi þess að við fáum nýja stjórnarskrá. Fjallaði fréttin um þá skoðun Þórhildar Sunnu en hún var varla fréttnæm fyrir síðustu alþingiskosningar og hvað þá eftir þær nú þegar hún er fallin af þingi.
Fyrsta dag ársins bárust sorgleg tíðindi frá Kjalarnesi. Hnífaárás átti sér stað á nýársnótt. Í frásögn Ríkisútvarpsins af atburðunum á nýársdag var fullyrt að árásin hefði átt sér stað á sveitabænum Tindum sem er rangt – árásin átti sér stað í næsta húsi við hliðina sem hefur ekkert með Tinda að gera. Þrátt fyrir það mættu fréttamenn á svæðið og tóku myndir af gistiheimilinu með dróna sem svo voru sýndar í kvöldfréttatímanum.
Halldóra Bjarnadóttir, eigandi Tinda, var til viðtals á Bylgjunni 3. janúar vegna málsins. Hún sagði meðal annars: „Ég sé það bara í fréttunum á nýársdag. Ég fékk algjört áfall, þá er sýnt húsið, heimreiðin heim til mín, húsið mitt, hesthúsið, hús strákanna minna sem er þarna fyrir neðan og talað um að það hafi orðið hnífstunga heima hjá mér.“
Þetta eru vissulega ótrúlega óvönduð vinnubrögð hjá Ríkisútvarpinu. Það var einnig átakanlegt að heyra Halldóru lýsa samskiptum sínum við fréttastofu RÚV í viðtalinu við Bylgjuna. Hún sagðist hafa ítrekað reynt að fréttamanninn sem flutti fréttina til að leiðrétta vitleysuna en án árangurs. Samkvæmt Halldóru þurfti hún að tala við fjölda fréttastjóra hjá RÚV til þess að fá því framgengt að þetta yrði leiðrétt. Það var gert stuttlega inni í miðjum kvöldfréttatíma daginn eftir. Samt sem áður þá þarf ekki annað en að slá upp gistiheimilið Tinda á leitarvélum til þess að fréttin um hnífaárás á bænum komi upp.
Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 8. janúar 2025.