Það hefur væntanlega farið fram hjá hlustendum Ríkisútvarpsins að vel heppnuðu útboði Ísfélagsins lauk fyrir síðustu helgi og viðskipti með bréf félagsins hefjast í Kauphöllinni á föstudag.

Ástæðan fyrir því að það hefur farið fram hjá hlustendum ríkismiðilsins er einfaldlega sú að engin frétt var sögð af því að elsta hlutafélag landsins og eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki stæði í hlutafjárútboði og skráningu í Kauphöllina. Þetta þótti fréttahaukunum í Efstaleiti alls ekki fréttnæmt. Kalla þeir þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Heimildin, systurmiðill Ríkisútvarpsins, þótti þetta ekki heldur fréttnæmt. Rannsóknarblaðamennskusetrið sagði aðeins eina frétt sem tengist Ísfélaginu meðan á útboðinu stóð og tengdist hún viðskiptum innan fjölskyldu stærsta eiganda Ísfélagsins.

Sérhæfing í neikvæðum fréttum

Hrafnarnir telja að ríkismiðlinum og systurmiðlinum hafi ekki þótt þetta glæsilega útboð, þar sem á sjöunda þúsund einstaklingar og lögaðilar tóku þátt og eru þar með þátttakendur í þessu mikilvæga útgerðarfélagi, fréttnæmt þar sem ekki er að finna neinn neikvæðan flöt á því – hvorki fyrir Ísfélagið eða sjávarútveginn í heild sinni. Þessir miðlar hafa sérhæft sig í slíkum fréttaflutningi. Það er af sem áður var en á sínum tíma lagði Ríkisútvarpið mikla áherslu á vandaðan fréttaflutning af sjávarútvegsmálum og hélt meðal annars úti hinum ágæta fréttaþætti Auðlindinni.

Huginn og Muninn er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.

Ábending: Hröfnunum barst ábending frá Heiðari Erni Sigurfinnssyni fréttastjóra RÚV um að miðillinn hafi vissulega fjallað um útboðið. Það var gert í hádegisfréttum Ríkisúvarpsins 2. desember og leiðréttist það hér með.