Nú þegar sjávarútvegurinn á undir högg að sækja af hálfu stjórnmálamanna á vinstri vængnum og kaffihúsaspekinga sem flestir þiggja framfærslu sína úr ríkissjóði, er vert að huga að því sem vel er gert í greininni.
Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á miðvikudag um glæsilega rækjuútgerð Óttars Yngvasonar. Hér á eftir fer pistillinn í fullri lengd.
Útrás Óttars Yngvasonar
Margir þingmenn á vinstri væng stjórnmálanna hafa gagnrýnt íslensk sjávarútvegsfyrirtæki fyrir fjárfestingar utan landsteinanna og fyrir fjárfestingar í óskyldum rekstri.
Þeirra á meðal eru tveir fyrrverandi formenn Samfylkingarinnar þau Logi Einarsson, menntamálaráðherra, og Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður, sem næstum gekk að flokknum dauðum í formannstíð sinni.
Einnig er þar að finna Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og fyrrum umsækjanda um stöðu framkvæmdastjóra hjá LÍÚ – eða SFS, eins og samtökin heita í dag.

Útrás sem ekki hefur verið minnst á
Í öllum látunum gleymist ein stórútgerð þegar Samfylkingin talar um hækkaða skatta á sjávarútveginn. Sú útgerð er að vísu ekki á Íslandi, heldur erlendis.
Það er útgerð Óttars Yngvasonar en Óttar hefur lengi gegnt hlutverki fjárhaldsmanns eignarhaldsfélaga tengdum Samfylkingunni. Til dæmis Sigfúsarsjóði, sem er sjálfseignarstofnun, og Alþýðuhúsi Reykjavíkur ehf.
Félög í eigu Óttars og fjölskyldu hafa lengi starfað í sjávarútvegi, aðallega í rækjuveiðum. Þegar afkoman í rækjuveiðum brást á Íslandi hélt félagið velli með því að fjárfesta og byggja upp rækjuútgerð erlendis. Þau hafa nýtt sér þekkingu sína til að efla reksturinn enn frekar.
Ósanngjörn gagnrýni
Þó að einstaka stjórnmálamenn tali gegn slíkri útrás, er augljóslega mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg að fjárfesta erlendis – og ætti greinin að gera meira af því. Gagnrýnin er því ósanngjörn.
Fyrirtæki Óttars Yngvasonar hafa sýnt djörfung og dugnað við að tryggja sér rækjukvóta í Eystrasaltsríkjunum og virðist ganga vel í þeim rekstri. Rækjuiðnaðurinn á Íslandi hefur átt í erfiðri samkeppni við erlendar útgerðir og vinnslur. Félög Óttars hafa komist í gegnum mikla niðursveiflu í rækjuiðnaði á Íslandi og staðið sig betur en flestar íslenskar rækjuútgerðir.
Það munar miklu fyrir fyrirtækin Dögun, Íslensku útflutningsmiðstöðina og Reyktal að geta rekið togara í mun hagstæðara launa- og gjaldaumhverfi en á Íslandi.
Laun í Eystrasaltslöndunum hafa hækkað mikið undanfarin ár. Þá hafa forsvarsmenn Dögunar brugðist við með því að leita starfsfólks enn lengra að, meðal annars frá Úkraínu. Jafnvel þó að launin í Eystrasaltinu séu aðeins brot af íslenskum launum.
Samkvæmt heimasíðu dögunar og eigin heimasíðu er Reykdal AS norskt félag með rekstur í Tromsø og Finnmörku og gerir út fimm frystitogara, þar af þrjá í eigu móðurfélags og tvo í samrekstri. Skipin sinna rækjuveiðum og -vinnslu á Barentshafi og í Norður-Atlantshafi. Skipin eru öll með djúpfrystibúnaði um borð og selja afurðirnar beint til markaða í Evrópu og Asíu.
Framkvæmdastjóri Reykdal AS er Einar Bergur Ingvarsson, eiginmaður Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra. Á hann mikinn heiður af rekstrinum og öllum þessum glæsilegu fyrirtækjum sem stýrt er frá Íslandi.
Lítið hefur borið á þeim, sem er synd því margt er hægt að læra af þessum öfluga rekstri og af þessari öflugu útrás. Þetta hlýtur að kalla á frekari umfjöllun fjölmiðla enda gæti íslenskt atvinnulíf notið góðs af henni sem og byggðarlögin úti um allt land.
Þetta myndi líka dýpka umræðuna um hvernig samkeppnisumhverfið er á milli einstakra landa. Það væri til dæmis fróðlegt að vita hvort framkvæmdastjóri Reyktal standi í stappi við stjórnvöld í Eystrasaltinu – um leiðréttingar, áætlað aflaverðmæti eða launakjör sjómanna – líkt og tíðkast hér á landi.
Eins væri fróðlegt að vita hvernig þessir atorkusömu Íslendingar náðu sér í kvóta í Eystrasaltinu. Óðni er sagt að Jón Baldvin Hannibalsson hafi lagt mikilvægt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum.
Það er orðið tímabært, nú 17 árum eftir hrunið, að orðið útrás sé tekið úr skammakróknum af vinstri mönnum.
Vel heppnuð útrás, eins og hjá Óttari Yngvasyni og Einari Bergi Ingvarssyni, er íslensku viðskiptalífi mikilvæg.