Í fjölmiðlapistli Arnar Arnarsonar í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var fjallað um umræður um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Samskipa og samráð stóru skipafélaganna. Þar sagði:

„En stóryrðin hafa ekki einskorðast við þennan hóp: Þannig mátti heyra Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, leiða líkur að því að málið væri sönnun þess að íslenskt viðskiptasiðferði væri lélegt.

Þetta eru vissulega kaldar kveðjur framkvæmdastjóra til félagsmanna sinna og annarra sem taka þátt í íslensku viðskiptalífi. Ólafur lét þessi orð falla í Kastljósi á þriðjudag í síðustu viku.“ 

Lesendum til glöggvunar leyfi ég mér að birta hér orðrétt þau orðaskipti í Kastljósi sem fjölmiðlarýnirinn virðist eiga við.

Bergsteinn Sigurðsson umsjónarmaður Kastljóss:

„Þetta er alls ekki fyrsta málið af þessum toga. Það var grænmetissamráðið, olíusamráðið, Mjólkursamsalan var sektuð fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu, við munum eftir einkavæðingu bankanna á sínum tíma, núna síðast salan á Íslandsbanka – er viðskiptasiðferði ábótavant hérna á Íslandi?“

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda:

„Það er alveg hægt halda því fram. Öll þessi mál hafa nú samt fært okkur einhverja lærdóma, en þeir mættu vera stærri og vonandi verður það þannig í þessu máli, því að þetta er með stærri samkeppnismálum sem við höfum séð.“

Lesendur geta sjálfir metið hvort þessi orð hafi verið „stóryrði“ eða falið í sér „kaldar kveðjur“ til félagsmanna FA og annarra þátttakenda í viðskiptalífinu. Hér var verið að ræða um einstök mál, sem bera vissulega ekki vott um gott viðskiptasiðferði.

Þessar línur í pistli fjölmiðlarýnis Viðskiptablaðsins heita í bezta falli útúrsnúningur og í versta falli rangfærsla – og hefðu einhvern tímann kannski þótt umfjöllunarefni í fjölmiðlapistlum, þar sem fólk sem telur sig skara fram úr í faginu setur sig gjarnan á háan hest gagnvart kollegunum.