Ríkisstjórnin setti fram metnaðarfull markmið í stjórnarsáttmála. Eitt þeirra er að „… rjúfa kyrrstöðu og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi.“ Þetta ætti í raun að vera lykiláherslumál nýrrar ríkisstjórnar því forsvarsmenn hennar gera sér ljósa grein fyrir því að öflugt atvinnulíf er best til þess fallið að treysta almenna velferð í landinu. Því er ekki úr vegi að gaumgæfa hvað það er nú helst sem ríkisstjórnin hyggst gera, skoða hvaða spil hún hefur sýnt á.
Hærra veiðigjald er atlaga að lífæð landsbyggðar
Boðað er að veiðigjald í sjávarútvegi verði stórhækkað - tvöfaldað. Sjávarútvegur á Íslandi er algerlega háður alþjóðlegri eftirspurn en um 98% af íslensku sjávarfangi eru seld til útlanda. Án fótfestu á alþjóðlegum markaði er tómt mál að tala um öflugan íslenskan sjávarútveg. Samkeppnishæfnin er það sem öllu skiptir. Með boðaðri hækkun á veiðigjaldi er enn og aftur verið að skapa óvissu um greinina.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra lýsti þeirri skoðun sinni í viðtali við Fiskifréttir á sínum tíma að: „Grundvallaróvissa um þennan atvinnuveg, sem meira og minna öll þjónusta á mörgum litlum stöðum úti á landi byggir á, hefur ein og sér mikil áhrif á byggðirnar.“ Þessi óvissa er viðbót við hina náttúrulegu sem ekki fæst við ráðið og nefna má nýlega niðurstöðu úr loðnuleit, sem engri úthlutun skilaði, auk algerrar óvissu um stöðu alþjóðaviðskipta vegna tollastríðs sem skollið er á.
Stórhækkað veiðigjald dregur úr samkeppnishæfni og mun ekki auka verðmætasköpun í atvinnulífinu, þvert á markmið ríkisstjórnarinnar. Þá er einboðið að boðaðar hækkanir muni draga úr vinnslu á fiski á Íslandi, en bæta hag ríkisstyrktra fiskvinnslna í útlöndum.
Hærra kolefnisgjald
Ríkisstjórnin boðar líka stórhækkað kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti. Gjaldið var hækkað um 60% um áramót og samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi á að hækka það aftur og nú um 25%. Þessar síendurteknu hækkanir koma illa niður á íslenskum sjávarútvegi en stjórnvöld virðast ekki telja það vandamál þótt samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs skerðist af þessum sökum.
Á síðustu mánuðum hafa bæði Noregur og Danmörk ákveðið að undanskilja fiskiskip að mestu frá slíku gjaldi vegna þess að það skerðir samkeppnisstöðu, eykur kolefnisleka og dregur úr verðmætasköpun heima fyrir. Kolefnisleki er það kallað þegar losun gróðurhúsalofttegunda flyst frá einu landi til annars vegna strangari loftslagsreglna og/eða skatta. Útgerðir geta í dag fengið olíu í Færeyjum á 28% lægra verði en hér á landi. Með fyrirhugaðri breytingu eykst munurinn í 34%.
Verði olía sótt til annarra landa eru mun meiri líkur á að skip landi afla sínum þar. Afleiðingin er augljós – verðmæti flytjast úr landi og kolefnisleki eykst. Þar með gæti hækkun á kolefnisgjaldi skilað lægri upphæð þegar upp væri staðið, svo ekki sé talað um áhrif á vinnslur og afkomu fólks víða um land.
Útreikningar á hugsanlegum áhrifum stórhækkaðs gjalds hafa ekki verið lagðir fram. Þá er merkilegt til þess að vita að kolefnisgjaldið er orðið það hátt að opinber stofnun, Landhelgisgæslan, treystir sér ekki til að taka olíu hér á landi og siglir frekar til Færeyja.
Ef stofnun á vegum stjórnvalda, sem þó er ekki í neinum samkeppnisrekstri, treystir sér ekki til þess að kaupa olíu hér á landi vegna kostnaðar, er þá ekki ástæða til að staldra við og spyrja hvort ekki sé of langt gengið? Hækkun kolefnisgjalds mun einfaldlega ekki auka verðmætasköpun í atvinnulífinu, þvert á markmið ríkisstjórnarinnar.
Meiri strandveiði
Ríkisstjórnin ætlar að tryggja 48 daga til handa fámennum hópi fólks til strandveiða. Bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa notað orðið sóun um strandveiðar. Forsætisráðherra sagði í skýrslu á sínum tíma að: „Strandveiðarnar draga því úr þeirri hagkvæmni sem hefur áunnist frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var komið á.“ Um það þarf svo sem ekki að deila. Þá sýna gögn skýrlega að strandveiðar ná ekki neinum þeim markmiðum sem að er stefnt varðandi byggðafestu. Raunar er vandfundið það sveitarfélag sem óskar frekari strandveiða en mörg gjalda hins vegar varhug við aukningu þeirra.
Strandveiðar eru sóun og því meiri strandveiðar, því meiri verður sóunin. Sóun dregur úr verðmætasköpun og það er í andstöðu við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um aukna verðmætasköpun í atvinnulífinu.
Þrengri skilyrði
Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir úrbótum á afmörkuðum atriðum þeirra ákvæða laga er varðar hámarkshlutdeild og yfirráð yfir aflaheimildum, upplýsingagjöf og eftirliti Fiskistofu með þeim atriðum. Tilgangurinn er að sögn sá að auka gagnsæi í sjávarútvegi. Eins og frumvarpið er vaxið mun það hamla frekari áhættudreifingu og hagræðingu í greininni.
Takmarkanir á hámarksaflahlutdeild hvers aðila í gildandi lögum miðast bæði við ákveðna hlutdeild í einstaka tegundum og að hámarki 12% hlutdeild af heildarverðmæti aflahlutdeildar allra tegunda sem sæta ákvörðun um leyfðan heildarafla. Af því leiðir að fyrirtæki getur verið undir viðmiðunarmörkum hámarksaflahlutdeildar en skyndilega er það komið yfir þau mörk vegna aðstæðna sem það hefur engin tök á að verjast. Nefna má úthlutun í loðnu sem nærtækt dæmi. Hámark á einstaka tegund einvörðungu er mun gagnsærri og eðlilegri leið, ein og sér, til að fylgjast með stöðu aflamarks hjá hverju fyrirtæki fyrir sig.
Jafnframt eru lagðar til breytingar á tengdum aðilum í frumvarpinu. Breytingin mun án nokkurs vafa hafa áhrif á starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja og hamla mjög fjárfestingum, nýsköpun, vexti og hagræðingu í greininni. Frumvarpið mun því í heild sinni ekki auka verðmætasköpun í atvinnulífinu, svo sem stefnt er að samkvæmt stjórnarsáttmála.
Spilað með landsbyggðina og grunnatvinnuveg
Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sagði á sínum tíma úr ræðustóli Alþingis: „Það er ekki hægt að nota sjávarútvegsmálin sem einhvern spilapening á leikborði stjórnmálanna …“. Ekki verður annað ráðið af orðum og gerðum ríkisstjórnarinnar en að verið sé að spila með sjávarútveginn og alla sem honum tengjast, beint og óbeint, á leikborði stjórnmálanna. Hætt er við að margir muni tapa, sér í lagi landsbyggðin, fólkið sem þar býr og sveitarfélög. Útvegsspil ríkisstjórnarinnar gæti því á endanum reynst dýrkeypt.
Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.