Á tíunda áratug síðustu aldar mótuðu þáverandi stjórnvöld sér þá stefnu að útvista bæri verkefnum frá hinu opinbera til einkaaðila í sem mestum mæli. Eitt fyrsta verkefnið sem ráðist var í á þeim grunni var að leggja niður Bifreiðaeftirlit ríkisins. Stofnun þessi hafði það hlutverk að framkvæma lögboðnar öryggisskoðanir á bifreiðum landsmanna en stofnunin hafði lengi haft orð á sér fyrir afar lágt þjónustustig. Frá þeim tíma hefur öryggisskoðun á bifreiðum okkar verið í höndum einkaaðila, s.k. faggiltra skoðunarstofa og verður ekki annað séð en almenn ánægja sé með þá þjónustu sem þau fyrirtæki veita.

Til grundvallar þessari nær þrjátíu ára gömlu stefnumótun lá sú bjargfasta skoðun stjórnvalda þess tíma, að hið opinbera ætti ekki að vera vasast í því sem einkafyrirtæki gætu betur sinnt. Það er líka almenn skoðun að leiðin til þess að ná sem bestum árangri í rekstri felist í því að einbeita sér að kjarnastarfsemi sinni. Það á bæði við um opinberan rekstur og einkarekstur. Það getur t.d. ekki talist til kjarnastarfsemi sveitarfélaga að annast þrif á húsnæði í eigu sveitarfélagsins, enda bjóða langflest sveitarfélögin þessa þjónustu út til einkaaðila. Hið sama mætti heimfæra upp á starfsemi á borð við bókhald, hugbúnaðarþjónustu, vöruflutninga eða starfsmannaráðningar. Ekkert af þessu getur talist kjarastarfsemi nema hjá þeim fyrirtækjum sem hafa slíka starfsemi sem meginstarfsemi. Þess vegna er slíkt jafnan falin þessum sérhæfðu fyrirtækjum, bæði af opinberum aðilum og einkafyrirtækjum.

En hverju hefur svo miðað áfram síðan þessi metnaðarfulla stefna var mótuð fyrir tæplega þrjátíu árum síðan? Svarið er í raun einfalt: Lítið sem ekki neitt. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi með reglulegu millibili komið fram með metnaðarfullar ráðagerðir í þessa veru, hefur hið opinbera stækkað og þanist út á alla kanta. Á sama tíma hefur Ríkisendurskoðun ítrekað bent á að mörg verkefni sem opinberir aðilar hafa með höndum séu illsamrýmanleg hlutverki og starfsemi hins opinbera. Slíkar ábendingar hafa haft lítil eða jafnvel þveröfug áhrif.

Hvað sem veldur þá er það einfaldlega þannig að pólitísk umræða um tilfærslu verkefna frá hinu opinbera nær aldrei alvöru flugi. Allir kannast við kosningaslagorð á borð við „báknið burt" og annað í þá áttina. Þrátt fyrir fögur fyrirheit kosningar eftir kosningar er báknið alls ekkert á leiðinni burt, umsvif hins opinbera hafa aukist verulega og meiri tregða en nokkru sinni fyrr er á að fela einkafyrirtækjum verkefni sem betur eru komin þar en hjá hinu opinbera. Starfsemi hins opinbera teygir anga sína inn á æ fleiri svið þjóðfélagsins. Ríkisrekin félög og stofnanir eru enn virkir þátttakendur á samkeppnismarkaði og eftirlitsstofnunum hefur hreint ekki fækkað á undanförnum árum. Engu virðist skipta þó mörgum stofnunum reynist örðugt að sinna lögboðnu hlutverki sínu með ásættanlegum hætti. Áfram skal haldið og ekki slegið af.

Nú eru í gangi stjórnarmyndunarviðræður. Fróðlegt verður að sjá hvort einhver fyrirheit verða gefin um tilfærslu verkefna frá hinu opinbera, þegar nýr stjórnarsáttmáli lítur dagsins ljós. Maður verður að vona að svo verði. Hitt er víst að eitt af stóru áskorunum nýrrar ríkisstjórnar verður endurreisn efnahagslífsins í kjölfar heimsfaraldurs. Ein af augljósum leiðum í því sambandi er að minnka umsvif hins opinbera þar sem því verður við komið og ná með því fram aðkallandi hagræðingu í opinberum rekstri.

Það væri t.d. ágætis byrjunarverkefni í þessu sambandi að hlutverk stofnana á borð við Vinnueftirlit, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélagana væri tekið til endurskoðunar. Markmiðið hlyti þá að vera að þessar stofnanir hefðu fyrst og fremst stjórnsýsluhlutverki að gegna en reglubundið eftirlitshlutverk þeirra yrði falið einkafyrirtækjum.

Beri stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar með sér alvöru aðgerðaráætlun um tilfærslu verkefna frá hinu opinbera til einkaaðila, gefur það vonir um að loks sjáist til glitta í efndir á margítrekuðum fyrirheitum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.