Að því gefnu að núverandi opinberar efnahagsspár rætast ætti líftímaálag til fimm ára að vera um 150 punktum neikvæðara en ríkisskuldabréfamarkaðurinn gefur til kynna. Ávöxtunarkrafa lengri ríkisskuldabréfa er of há sem því nemur.
Væntingavísitala Gallup sýnir hlutfall þeirra sem eru annars vegar jákvæðir og hins vegar neikvæðir á núverandi efnahagsástand og til framtíðar. Nýjasta mæling Gallup fyrir framtíðarvæntingar er fyrir júlí síðastliðinn og gefur til kynna aukna bjartsýni meðal þátttakenda. Sýnir hún samskonar leitni og hefur verið undanfarna sjö mánuði þar sem aukinnar bjartsýni gætir til framtíðar samanborið við núverandi ástand. Þannig hefur munurinn á mælingunum ekki reynst meiri síðan í ársbyrjun 2022 líkt og myndin sýnir.
Hún sýnir jafnframt þróun líftímaálags (e. term premium) milli 1 árs ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisskuldabréfa og ávöxtunarkröfu til 5 ára sem finna má með skuldabréfavísitölum Nasdaq Iceland. Mælikvarðinn lýsir þeim bótum sem fjárfestar krefjast til að taka á sig áhættu við að eiga bréf til lengri tíma. Um grundvallarstærð er að ræða við ákvörðun útlánavaxta til fyrirtækja og verðlagningu hlutabréfa. Hefur álagið ekki verið neikvæðara síðan í árdaga fjármálahrunsins árið 2008. Þá, líkt og í dag, sýndi mæling Gallup mun meiri bjartsýni í garð hagkerfisins til framtíðar samanborið við ástand líðandi stundar.
Verðbólga þess tíma var nær 17%, líftímaálag var neikvætt þar sem ávöxtunarkrafa 5 ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa nam um 10,5% og til 1 árs um 13%. Verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja stóðu í um 14% og mat Seðlabanki Íslands jafnvægisraunvexti um 2,5% á ársgrundvelli. Árið eftir fóru skammtímavextir hratt lækkandi og líftímaálag snérist yfir í að vera jákvætt. Nú er verðbólga mun minni eða um 6%, og verðbólguvæntingar um það bil fastar í 4,5%. Samkvæmt Kodiak voru fyrrgreindar ávöxtunarkröfur um 7,1% og 9,3% við lok viðskipta síðastliðinnar viku, á meðan Seðlabankinn metur jafnvægisraunvexti í grennd við 1,6%.
Haldi Seðlabankinn skoðun sinni á jafnvægisraunvöxtum óbreyttri í ljósi vænts framleiðsluslaka sem þjóðhagsreikningar hagkerfsins gefa til kynna og rætist nýjasta spá Peningamála sýnir opinbert þjóðhagslíkan að vextir fara lækkandi frá með lokum þessa árs. Í raun sýnir þjóðhagslíkanið að verðlagning markaðsaðila á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum til fimm ára sé of óhagstæð miðað við nýjustu spá bankans. Niðurstöður líkans fyrir framtíðar vaxtaferil gefur til kynna að óverðtryggðir vextir til fimm ára ættu að vera lægri eða nær 5,8% og líftímaálag um 150 punktum lægra. Á móti getur unnið áframhaldandi aukin bjartsýni til efnahagshorfa sem veldur vanmati þjóðhagslíkans á þennslu í þjóðarbúskapnum.
Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.