Það er full ástæða til þess að það fari fram umræða um stöðu íslenskra fjölmiðla og aðkomu ríkisvaldsins að rekstri þeirra. Upphlaupið sem varð þegar Hollvinafélag N4, eins og Andrés Magnússon ritstjórnarfulltrúi kallaði fjárlaganefnd í grein sinni í helgarblaði Morgunblaðsins, ákvað að styrkja stöðina um 100 milljónir í tengslum við lokafrágang fjárlaga næsta árs bendir jafnframt til að skoða þurfi afstöðu einstaka stjórnmálamanna til fjölmiðla ofan í kjölinn.

Málið er allt hið furðulegasta. Þann 1. desember síðastliðinn sendi María Björk Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri sjónvarpsstöðvarinnar N4, bréf til fjárlaganefndar. Þar krefst hún 100 milljóna króna úr ríkissjóði til að hægt verði að reka stöðina næstu tvö ár. Meðan á þeim tíma vill hún að Alþingi samþykki fjölmiðlalög sem meðal annars eiga að fela í sér að hluti rekstrar RÚV fari í hendur N4 undir hatti nýrrar sjónvarpssamsteypu sem myndi einnig ná til þess sem eftir stendur af minni sjálfstæðum fréttamiðlum. Þá leggur María Björk til að þriðjungur útvarpsgjaldsins renni til hinnar nýju samsteypu.

Það sem er enn furðulegra en þessi áætlun forráðamanna N4 um að sölsa undir sig stóran hluta af fjölmiðlamarkaðnum með liðsinni ríkisvaldsins er að fjárlaganefnd samþykkti að greiða stöðinni 100 milljónir. Fjölmiðlar stóðu sig ágætlega við að afhjúpa þetta rugl og krefja stjórnmálamenn um svör. Mörg þeirra reyndust undarleg. Efnislega sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að þetta væri stormur í vatnsglasi svona í ljósi þess að útvarpsgjaldið væri að hækka um þrjú hundruð milljónir. Þessi kæruleysislega afstaða fjármálaráðherrans til svo fráleitra útgjalda ríkissjóðs útskýrir vafalaust af hverju fjárlagahalli næsta árs stefnir í að verða á annað hundrað milljarða króna.

***

Þetta mál sýnir hversu miklar ógöngur stjórnvöld eru komin í með styrkveitingar til fjölmiðla. Fjáraustur í Ríkisútvarpið eykst með hverju árinu og er engan veginn réttlætanlegur.  Þannig fær ríkismiðillinn ríflega milljarði meira að raunvirði en hann gerði árið 2013. Á sama tíma hefur samkeppnin um auglýsingatekjur aukist og rekstrarumhverfi fjölmiðla breyst. Frjálsir fjölmiðlar þurfa ekki einungis að keppa við ríkismiðil með tæplega sjö milljarða rekstrarkostnað heldur einnig við erlenda miðla.

Í stað þess að draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og sníða því stakk eftir vexti hafa stjórnvöld tekið upp fráleitt styrkjakerfi til einkamiðla. Fátt bendir til annars en að stjórnvöld haldi áfram á þeirri ósjálfbæru braut.

Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra fékk umboð ríkisstjórnarinnar í síðustu viku til að skipa starfshóp sem hefur það hlutverk að efla stöðu einkarekinna fjölmiðla og taka á þeirri stöðu sem við þeim blasir í breyttum heimi þar sem tekjur minnka. Af því tilefni var eftirfarandi haft eftir Lilju á vef Ríkisútvarpsins:

Ég tel að það hefði verið heppilegast þegar var verið að stofna til ríkisútvarpsins á sínum tíma að ríkisútvarpið hefði ekki verið á auglýsingamarkaði og það hefði verið svipað fyrirkomulag og er á hinum Norðurlöndunum. Það er samkeppnin innanlands hún er alltaf að verða í minna mæli um þessar tekjur heldur er meiri samkeppni við þessa erlendu aðila og við það er að etja.“

Þetta er undarleg framsetning. Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930. Auglýsendur höfðu ekki marga valkosti þegar kom að því að vekja athygli á vörum og þjónustu á þeim árum. Það getur ekki verið réttlæting fyrir að RÚV verði áfram á auglýsingamarkaði og það að einblína á vaxandi hlutdeild erlendra stafrænna miðla á íslenskum auglýsingamarkaði er skálkaskjól.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 22. desember 2022.