Ein mestu gleðitíðindi nýafstaðinna þingkosninga var grisjunin á vinstri vængnum. Vinstri græn og Píratar fallin af þingi. Sósíalistar náðu ekki inn manni og Græningjar gátu ekki einu sinni boðið fram. Vinstri græn misstu ríkisstyrkinn sem mun því miður halda Pírötum og Sósíalistaflokknum, og afleiddra fjölmiðla í taprekstri, á lífi næstu árin þótt kjósendur hafi hafnað þeim. Sitt er hvað, skattgreiðandinn og kjósandinn. Píratar eru ekki til í sjálfsskoðun heldur hafa kennt öðrum um. Kjósendur eru of heimskir til að skilja Pírata, eða fólk kaus þá ekki því það var að kjósa stjórnarmyndunarumboð.
Í staðinn er kominn jafnaðarmannaflokkur sem vill verja landamærin og fara sér hægt í að blóðmjólka atvinnulífið svo það geti skapað störf. Tíminn mun leiða í ljós hvort það var holur hljómur eða raunveruleg stefnubreyting, ég óttast hið fyrra. Viðreisn, sem vill leysa öll vandamál með aðlögun að atvinnuleysi unga fólksins í Evrópu, fékk óvæntan vind í seglinn sem hlýtur að draga úr þegar efnahagsvandræði Þýskalands breiða úr sér. Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru sæmilega stórir á þingi og munu láta í sér heyra.
Það er spennandi kjörtímabil framundan, mögulega með ríkisstjórn undir forystu kvenna sem hafa verið kallaðar valkyrjur - goðsagnakenndar konur sem færðu fallna til Valhallar. Í því samstarfi verður væntanlega hver höndin á móti annarri - sumir vilja tæma lífeyrissjóðina og aðrir ekki, sumir vilja hærri skatta og sumir enn hærri skatta og sumir vilja opin landamæri en aðrir lokuð. Heita kartaflan, Evrópusambandið, verður svo látin væflast um í stjórnkerfinu, sett í þjóðaratkvæðagreiðslu og landsmönnum sagt að það verði kosið um aðild þar til hún er samþykkt, og svo aldrei aftur.
Sjálfstæðismenn geta á meðan náð vopnum sínum, skerpt á áherslum sínum og minnt kjósendur á valkostinn við ringulreiðina sem núna tekur við.
Höfundur er hugbúnaðarverkfræðingur.