Ríkisstjórnin er heldur betur að láta hendur standa fram úr ermum þessa dagana. Alma Möller sannaði að grímuklæddar hetjur þurfa ekki að bera skikkjur á herðum þegar hún bannaði almenningi á dögunum að sprauta fylliefnum eins og bótoxi í grandalaust fólk. Eins og sjá má á vef stjórnarráðsins hafa fleiri þjóðþrifaverk verið unnin af ráðherrum Valkyrjustjórnar.

Þannig fór Logi Einarsson menningarráðherra til Parísar í gær og undirritaði yfirlýsingu um gervigreind. Eins og flestir vita þá er París sérlega falleg á þessum árstíma. Sama dag heimsótti Hanna Katrín Friðriksson matvælaráðherra starfstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi.

Þingmenn stjórnarflokkanna ljúga engu þegar þeir fullyrða að nú sé raunveruleg verkstjórn komin til valda.

Kryddstangir handa gjaldþrota borg

Tý þykir þó áhugaverðasta verk ríkisstjórnarinnar á undanförnum dögum felast í framlagningu frumvarps sem þvingar sveitarfélög þessa lands til að hækka útsvarið í botn – annars skerast niður framlög til þeirra úr Jöfnunarsjóði. Þarna eru loforð Samfylkingarinnar um að hækka ekki álögur á venjulegt vinnandi fólk farin út í veður og vind. Það ætti ekki að koma neinum á óvart.

Ungmennafélagið Inga Sæland

Eins og fram kom í umfjöllun Viðskiptablaðsins um frumvarpið í gær virðist frumvarpið vera sniðið að þörfum Kryddstangameirihlutans sem er við það að taka við völdum í borginni. Frumvarpið veitir þeim skálkaskjól til þess að hækka álögur borgarbúa vegna alvarlegs og viðvarandi rekstrarvanda fyrri meirihluta.

Það skiptir engu hvort Ungmennafélagið Inga Sæland (UMIS), Samfylking og Viðreisn eru við völd í borg eða í landsmálunum – svarið við öllum vanda er að hækka skatta.

Ótrúverðug hagræðing

En til þess að gæta allrar sanngirni þá er ríkisstjórnin auðvitað að hagræða í rekstrinum líka. Ríkisstjórnin hefur gefið út að það muni spara 350 milljónir króna að leggja niður ráðuneyti menningar og viðskipa. Það samsvarar kostnaði við rekstur ríkisins í tvær klukkustundir á ársgrundvelli.

Reyndar hefur Týr miklar efasemdir um að þessi áætlun um sparnað sé rétt reiknuð því að störfum fækki aðeins um tæplega fimm stöðugildi við það að loka ráðuneyti rafrænna skilríkja og íslenska dansflokksins.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.