Í síðustu viku gaf Fjármálaeftirlitið út skýrslu um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2012. Lífeyrissjóðakerfið hefur lengst af verið einn af styrkleikum íslensks efnahagslífs en skýrslan gefur tilefni til áhyggja. Aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er mjög hagfelld miðað við önnur þróuð ríki, en hún breytist eftir því sem tíminn líður og því miður eru árin að verða fimm sem hafa farið í súginn frá hruni með gjaldeyrishöftum, skattpíningu og stríði stjórnvalda við helstu atvinnugreinar þjóðarinnar.
* * *
Greidd iðgjöld í samtryggingarkerfið námu 110 milljörðum árið 2012 en voru 67 milljarðar tíu árum áður árið 2002 sem jafngildir 119 milljörðum á verðlagi ársins 2012. Iðgjöld hafa því dregist saman síðastliðin tíu ár. Á síðasta ári tóku nýjar reglur gildi um séreignarlífeyrissparnað þannig að einungis var hægt að leggja fyrir 2% í stað 4% áður án þess að sæta tvísköttun. Skattbreytingin hafði fyrirséð áhrif og lækkaði séreignarlífeyrissparnaður á milli áranna 2011 og 2012 úr 30 í 29 milljarða eða um 8% að raunvirði. Greiðslur í séreignarsparnað hafa hækkað um 14% að raunvirði frá árinu 2002 en samanlögð iðgjöld í lífeyrissjóðina hafa lækkað um 4% frá árinu 2002. Á sama tíma hefur fjöldi starfandi aukist um 8%.
* * *
Árið 2002 var gjaldfærður lífeyrir 33% af iðgjöldum en árið 2012 var hlutfallið komið í 67%. Það dregur því hratt úr sjóðsmyndun í kerfinu. Af 110 milljarða iðgjöldum í samtryggingakerfið í fyrra fóru því 36 milljarðar í nýja fjárfestingu. Þar að auki geta lífeyrissjóðirnir fjárfest í fáu öðru en ríkisskuldabréfum og eru þau nú ásamt skuldabréfum með ábyrgð sveitarfélaga orðin 49% af eignasafni sjóðanna. Kerfið líkist því æ meira gegnumstreymiskerfi, áhættudreifing sjóðanna versnar vegna gjaldeyrishaftanna og jafnvel þótt þetta tvennt væri leyst þá veldur minnkandi nettó innstreymi því að slagkraftur sjóðanna í fjárfestingum fer minnkandi – í ljósi þessa verður því að teljast geggjuð ráðstöfun hjá síðustu ríkisstjórn að minnka hvata fólks til að leggja fyrir.
* * *
Ef litið er á tryggingafræðilega stöðu kerfisins er hún víðast hvar í sæmilegu horfi, að meðaltali er hallinn 4%. Hins vegar má velta fyrir sér hvort FME sé ekki alltof undanlátssamt að leyfa Lífeyrissjóðunum að vera með halla ár eftir ár. Það er skylduaðild að lífeyrissjóðunum og neikvæð tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðs felur í sér ranglæti gagnvart ungu fólki sem er neytt til að greiða í hann. Hallinn þýðir að þeir sem eiga réttindi eða eru að fá greitt út úr sjóðunum fá of mikið á kostnað þeirra sem yngri eru. Neikvæð staða er ígildi skattlagningar á þá sem eru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóðina, skattlagning sem stenst ekki stjórnarskrá.
* * *
En þótt það sé hægur vandi að laga tryggingafræðilega stöðu flestra almennu sjóðanna er hópur lífeyrissjóða sem sker sig algerlega úr. Það eru sjóðir með ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga. Það beinir sjónum að erfiðri fjárhagsstöðu margra sveitarfélaga, sem hefur verið furðulítið í umræðunni en er ekki hægt að lýsa öðruvísi sem neyðarástandi. Þau sveitarfélög sem eru með mestan halla á skuldbindingum sínum eru sveitarfélög sem standa illa fjárhagslega. Vestmannaeyjabær er hugsanlega undantekning en bærinn á 3,8 milljarða í reiðufé til að mæta eigin skuldbindingu upp á 2,9 milljarða og heildarábyrgð upp á 4 milljarða. Í þessari umfjöllun er A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitafélaga sleppt en hallinn á henni er 18 milljarðar. Í sveitarfélögum eins og Akranesi og Húsavík er lífeyrisskuldbinding á hvern íbúa u.þ.b. hálf milljón og þar að auki er sveitarfélagið í ábyrgð fyrir skuldbindingum upp á 200 þúsund krónur til viðbótar.
* * *
* * *
Af þessum sveitarfélögum sem hér eru til umfjöllunar eru skuldir á hvern íbúa yfir 1 milljón í átta þeirra og í því sveitarfélagi sem er verst statt, Reykjanesbæ, eru skuldirnar 4,3 sinnum heildartekjur sveitarfélagsins. Fimm sveitarfélög skulda meira en tvöfaldar heildartekjur. Ef litið er á hagnað fyrir afskriftir (EBITDA) sem nálgun á getu sveitarfélaganna til að þjónusta skuldir sínar þá skulda sex þessara sveitarfélaga meira en 10 sinnum EBITDA. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af getu þessara sveitarfélaga til að veita íbúum sínum viðunandi þjónustu ef ekki verður eitthvað róttækt gert í skuldamálum þeirra hið snarasta. Umræða um þetta hefur farið furðu hljótt, en hærri skattheimta í þessum sveitarfélögum ásamt verri þjónustu hefur áhrif á fasteignaverð í þeim.
* * *
Stærsti vandinn í lífeyriskerfinu eru lífeyrissjóðir með ábyrgð hins opinbera, LSR og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga. Samanlagður halli þessara tveggja sjóða er 500 milljarðar. Að auki ber ríkið síðan ábyrgð á stórum hluta mismunar tryggingafræðilegrar stöðu og bókfærðrar stöðu ýmissa lífeyrissjóða sem nefndir eru hér að ofan en hann er samtals 15 milljarðar. Hallinn á þessum tveimur Lífeyrissjóðum, LSR og LSH, nemur 1,5 milljónum króna á hvern Íslending og u.þ.b. öllum skatttekjum eins árs. Ætli ríkið ekki að svíkja loforð sín við opinbera starfsmenn þarf að ráðast í róttækan niðurskurð í ríkisfjármálum og það verður ekki gert án þess að stokka upp millifærslukerfið, Ísland lifir um efni fram og hefur gert um langt skeið. Ríkið á ekki lengur val um hvort það ætli að beita niðurskurði heldur þarf að ákveða hvernig það ætlar að ráðstafa takmörkuðum fjármunum sínum. Ætlar ríkið að taka yfirvegaða og markvissa ákvörðun eða ætlar það að fljóta sofandi að feigðarósi og hrófla ekki við neinum útgjöldum vegna þess eins að þau eru þegar komin á fjárlög? Slík stefna endar með greiðsluþroti.
* * *
Skuldir íslenska ríkisins nema 4,7 milljónum á hvern Íslending og að auki er ríkið í ábyrgð fyrir lánum, aðallega vegna Íbúðalánasjóðs og Landsvirkjunar sem nema 4,1 milljón á hvern Íslending. Beinar skuldir ríkisins með opinberu lífeyrissjóðunum nema því 6,2 milljónum og ef ábyrgðum er bætt við eru þetta 10,3 milljónir eða 41 milljón á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Ekki er óalgengt að skuldir sveitarfélags séu 1 milljón á hvern íbúa þannig að skuldir fjögurra manna fjölskyldu vegna ríkis og sveitarfélags eru 29 milljónir og skuldir auk ábyrgða 45 milljónir króna.
* * *
Þessi staða var furðulítið rædd í aðdraganda kosninga, þess í stað fór allt púðrið í skuldamál heimilanna, sem eru vissulega erfið en þó viðráðanleg. Ef það verður farið í að fella niður skuldir heimilanna hefur það þau áhrif að stærri hluta ábyrgða ríkisins er breytt í raunverulega skuld.
* * *
Loforð um að lækka höfuðstól lána er ekkert annað en atkvæðakaup og fyrirgreiðslupólitík. Með því er verið að færa ábyrgðina af þeim sem tóku áhættuna af láninu og njóta hússins sem andvirðið fór í að kaupa yfir á almenning allan. Með því væri verið að senda röng skilaboð – áhætta borgar sig. Ef vel gengur nýtur maður ávinningsins en ef illa fer hleypur almenningur undir bagga. Það er hvorki gott að senda bankamönnum né húsnæðiskaupendum þau skilaboð og afleiðingin verður sú sama: það er tekin aukin áhætta á kostnað almennings.
* * *
Nú kynni einhver að segja að það hafi orðið forsendubrestur í húsnæðislánum en ekki ríkisfjármálum. Það eru áhugaverð rök. Það er vissulega erfitt að halda því fram að óráðsía í ríkisfjármálum sé forsendubrestur jafn lengi og hún hefur viðgengist, en ef svo er ekki er þá eitthvað frekar hægt að halda fram að óstöðugt gengi og verðlag geti talist forsendubrestur á Íslandi? Það hefur viðgengist jafn lengi og óráðsía í ríkisfjármálum enda rótin sú sama. Ef við viljum samt halda okkur við forsendubrest í húsnæðislánum þá hljóta þau rök að eiga jafnt við um skuldir ríkisins og hver á að bæta skattgreiðendum forsendubrestinn? Ríkið er ekki annað en skattgreiðendur og það að láta ríkið taka á sig byrðar eða ganga í ábyrgðir heitir á mannamáli að senda öðrum reikninginn. Franski hagfræðingurinn Frederic Bastiat orðaði það svo að ríkið væri tálsýnin þar sem allir ætluðu sér að lifa á kostnað allra annarra.