Þótt íslenskt samfélag hafi tekið miklum og örum breytingum undanfarna áratugi, með mikilli fjölgun innflytjenda, hafa þær breytingar lítt náð að setja mark á stjórnir íslenskra hlutafélaga og einkahlutafélaga. Í þeim sitja enn fyrst og fremst Íslendingar þótt innflytjendum hafi farið fjölgandi í stjórnum undanfarin ár. Samsetning stjórnanna hefur verið talsvert í þjóðmálaumræðunni en þar hefur fyrst og fremst verið horft til kynjahlutfalla, ekki hve mikil fjölbreytni er í stjórnunum út frá öðrum sjónarhornum. Nánast engin umræða hefur verið um þjóðlega fjölbreytni í stjórnum félaganna.
Slagsíðan við stjórnarborðið endurspeglar að einhverju marki þá erfiðleika sem innflytjendur glíma almennt við á íslenskum vinnumarkaði. Sérstaklega er tungumálið, þ.e. íslenskunnátta, þröskuldur og nánast útilokar innflytjendur frá ýmsum störfum. Þá hefur í mörgum tilfellum reynst erfitt að fá menntun frá heimalandinu metna. Innflytjendur eru því líklegri en innfæddir til að gegna ósérhæfðum störfum og ólíklegri til að vera í sérfræðings- eða stjórnunarstöðum.
Í nýlegri rannsókn sem höfundar þessarar greinar unnu og er aðgengileg í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál kemur m.a. fram að árið 2018 voru einungis 3,3% íslenskra hlutafélaga og einkahlutafélaga með einn eða fleiri stjórnarmann sem var erlendur ríkisborgari. Á sama tíma voru innflytjendur um 19% þeirra sem störfuðu á íslenskum vinnumarkaði.
Á tímum alþjóðavæðingar og lýðfræðilegra breytinga hefur þannig hið íslenska vinnuafl orðið sífellt fjölbreyttara en sá fjölbreytileiki hefur ekki skilað sér upp í stjórnendalagið. Í því felst vitaskuld mismunun, þ.e. hluti samfélagsins á þess ekki kost að gegna stjórnunarstöðum til jafns við aðra. Að auki felst í þessu sóun á mannauði og sóknarfærum fyrirtækja. Sóunin og mismununin er sambærileg við þá sem fólst í því að karlar sátu nær einir í stjórnunarstöðum meðan konur áttu þess ekki kost.
Fyrir flest íslensk fyrirtæki skipta innflytjendur sífellt meira máli á innanlandsmarkaði, ekki bara sem starfsfólk heldur líka sem viðskiptavinir. Fyrirtæki með stjórnendur sem endurspegla fjölbreytileika samfélagsins eru líklegri til að ná vel til allrar flórunnar en fyrirtæki með einsleitan hóp stjórnenda. Hið sama á við um fyrirtæki sem keppa á erlendum mörkuðum, fjölbreytileiki er ekki síður styrkur í útrás.
Á Íslandi sjást innflytjendur helst í stjórnun fyrirtækja í þeim geirum þar sem innflytjendur eru stór hluti starfandi. Sem dæmi má nefna heild- og smásöluverslun og viðgerðir á vélknúnum ökutækjum og byggingarstarfsemi. Ekki liggja fyrir gögn um það hvernig eignarhaldi þessara fyrirtækja er háttað en telja má víst að einhver hluti þeirra sé í eigu innflytjenda. Í erlendum rannsóknum hefur í sumum löndum komið í ljós að innflytjendur eru líklegri til að hefja eigin rekstur og gegna þannig mikilvægu hlutverki í frumkvöðlastarfsemi.
Þótt ekki hafi verið settir neinir kvótar á stjórnarsetu eftir uppruna, eingöngu kynferði, á Íslandi þá skiptir löggjöfin hér máli. Sérstaklega er rétt að horfa til þess að lög um jafna meðferð á vinnumarkaði (nr. 86/2018) banna hvers konar mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur er vegna kynferðis, þjóðernisuppruna, kynþáttar, kynhneigðar, kynvitundar, fötlunar, trúar eða annarra þátta. Andi laganna er skýr og kerfisbundin útilokun eins þjóðfélagshóps frá stjórnarsetu samrýmist honum ekki.
Án efa væri hægt að fjölga tækifærum fyrir innflytjendur til að koma að stjórnun íslenskra fyrirtækja með ýmsum hætti. Ýmiss konar aðstoð, bæði við íslenskunám og að skilja regluverk og kröfur til þeirra sem setjast í stjórnir væri til bóta. Aðgengilegar þýðingar á lykilupplýsingum væru það einnig. Þá ættu aðilar eins og lífeyrissjóðir, sem hafa mikil áhrif á því hverjir veljast til stjórnarsetu, einnig að huga að þessum fjölbreytileika. Hann skiptir máli fyrir rekstur og afkomu fyrirtækja og er því ekki einungis réttlætismál heldur einnig skynsamlegur frá sjónarhóli fjárfesta. Jafnframt kann að vera æskilegt að styðja sérstaklega við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi innflytjenda.
Gylfi og Inga eru prófessorar við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Simona er viðskiptafræðingur og eigandi Ultraform.