Týr veit fátt skemmtilegra en að setja ráðstefnur og málstofur.

Í þeim efnum tekur hann ráðstefnur á vegum hins opinbera fram yfir fundi fyrirtækja eða hagsmunasamtaka á þeirra vegum. Ástæðan er einfaldlega sú að þær fyrrnefndu eru lengri og standa yfir heila og hálfa dagana meðan þeir síðarnefndu eru í mesta falli ríflega klukkustund.

Síðan er líka miklu meira um ráðstefnur hjá hinu opinbera. Þær eru nánast daglega og þar er líka betur veitt í mat og drykk.
***

Tý iðar þannig í skinninu að mæta á ráðstefnu Almannavarna næstkomandi þriðjudag. Yfirskriftin er „Við erum öll almannavarnir“. Týr vekur athygli á að ráðstefnunni verður streymt á Ríkisútvarpinu enda er væntanlega mikil eftirspurn hjá þjóðinni eftir að fá Víði Reynisson beint í æð á ný. Því miður heldur hann aðeins tvö erindi á ráðstefnunni sem stendur í hálfan dag.

Að vísu er Týr enn að jafna sig eftir vel heppnað útvarpsþing Stefáns Eiríkssonar sem var um daginn. Það sóttu þúsundir Íslendinga. Væntanlega eru ekki margir sem geta sagt: Djöfull var ég „hellaður“ á útvarpsþingi í gær, en Týr er í þeirra hópi.

Stemningin var aðeins þyngri á daglangri ráðstefnu sem heilbrigðisráðherra stóð að um áfengi og lýðheilsu í september. Niðurstaða þeirrar ráðstefnu var skýr: Fyrst Íslendingar þykjast vera of góðir fyrir lýðheilsustefnu klerkastjórnarinnar í Teheran þá er áframhaldandi einokunarverslun ÁTVR hin eina rétta leið.
***

En hápunktur haustsins til þessa er án efa vel heppnuð vinnustofa sem umhverfisráðuneytið stóð fyrir ásamt Norðurlandaráði hér á landi um gamalt fólk með loftlagskvíða. Vinnustofan bar heitið: Eldra fólk og loftslagsmál – báðum til gagns, og stóð hún yfir í tvo daga. Týr hefur einmitt lengi haldið því fram að eldra fólk hafi mikið gagn af loftslagi.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í blaðinu sem kom út 11. október 2023.