Vandinn sem steðjar að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (PSN) þann 21. maí er margþættur. Fyrir utan þróun hagkerfisins spilar hana grátt ofan á svart óvissan hvaðan hagkerfið kemur og hver staða hagsveiflunnar er. Hagstofa Íslands birti uppfært staðreyndamat sitt á hagkerfinu þann 28. febrúar síðastliðinn. Leiddu mælingarnar í ljós mun meiri framleiðsluspennu hvort tveggja í fyrra og árið 2023, eða sem nemur samtals 1,5 prósentum. Hefðu meginvextir PSN átt að vera 0,2 prósentum meiri árið 2023 og í fyrra 0,55 áður en til vaxtalækkunar kom 2. október. Þetta staðfestir QMM þjóðhagslíkan Seðlabankans ásamt rauntölum Hagstofunnar.

Staðreyndir Hagstofunnar ljóstra aukna framleiðsluspennu sökum kröftugri fjármunamyndunar atvinnuvega og íbúðafjárfestingar, sem gengur í berhögg við að hátt stig meginvaxta hafði kælt umsvif hagkerfisins.

Mun PSN horfast í augu við þær staðreyndir að árstaktur vísitölu neysluverðs jókst milli mánaða í apríl, úr 3,8% í 4,2% og reyndist 0,2 prósentum meiri en greiningaraðilar höfðu spáð. Tekur nefndin tillit til að hækkun verðlags vöruinnflutnings fór vaxandi á fyrsta fjórðungi samkvæmt upplýsingum úr tollskrám og var liðlega 5% milli ára. Myndin sýnir glöggt þróun verðbreytingar innflutnings og verðbólgu; að innflutningsverðlag hefur áhrif á verðlag neysluvara en ekki öfugt. Myndin inniheldur jafnframt verðbólguálag til 5 ára miðað við ávöxtunarkröfur óverðtryggðra og verðtryggðra ríkisskuldabréfa. Undanfarna daga hefur það farið hækkandi og var 4,1% síðastliðinn mánudag - fjarri 2,5% markmiði PSN og 3,5% sögulegu miðgildi.

Efnahagslegur þróttur heimila hefur sögulega ekki verið betri, skuldir þeirra lágar og nema 70% af landsframleiðslu auk þess sem hlutfall eigin fjár heimila er um 280% eða nær tvöfalt betra en sögulegt miðgildi. Sömu sögu er að segja af stöðu innstæðna á hvern íbúa á aldrinum 18 til 72 ára sem hefur vaxið um 4% að raunvirði hvert undanfarið ár. Fasteignamarkaðurinn endurspeglar þessa stöðu enda ekkert lát á verðhækkun hans þótt verð á móti byggingakostnaði hafi ekki verið hærra frá árinu 1993 auk þess verandi á móti launum og leigutekjum sögulega í efstu fjórðungsmörkum. Greiðslubyrði af lánum sem hlutfall af launum hefur lækkað hratt frá haustinu 2022 auk þess sem undanfarna mánuði hefur verið aukning í nýjum lántökum heimila að frádregnum uppgreiðslum – einkum hjá lífeyrissjóðum.

Á sömu sveif leggjast þankar Seðlabankans af sterku raungengi íslensku krónunnar sem endurspeglast í ákvörðun bankans 10. apríl að hefja gjaldeyrisinngrip tvisvar í viku. Horfur eru á meiri landsframleiðslu en Seðlabankinn áætlaði áður. Væntingar eru um áframhald fjármunamyndunar gagnavera auk þess sem núverandi ríkisstjórn hyggur að framkvæmd Hvammsvirkjunar án tafa. Þegar á botninn er hvolft stendur nefndin frammi fyrir auknum umsvifum hagkerfisins og hækkandi verðlagi innflutnings.

Höfundur er hagfræðingur.