Í kjölfar lagabreytinga er oft ágætt að líta um öxl og kanna hvort þær hafi náð því marki sem stefnt var að. Hér verður vikið stuttlega að breytingum á skattalöggjöfinni sem ætlað var að renna styrkari stoðum undir starfsemi félaga sem starfa til almannaheilla, jafnt þeim fyrri frá árinu 2021 og þeim síðari frá í fyrra.

Áður en fyrri lögin voru sett gilti sú regla að félög sem störfuðu að almenningsheill voru undanþegin skattskyldu og framlög til þeirra voru frádráttarbær frá tekjum gefanda. Undir hugtakið almenningsheill féll t.a.m. starfsemi björgunarsveita, íþróttafélaga, mannúðar- og líknarstarfsemi, menning og listir, trúfélög og starfsemi stjórnmálaflokka. Undanþágan var ekki sjálfkrafa heldur þurfti að meta hana m.t.t. félagaforms eða í hvert og eitt skipti í kjölfar skila á skattframtali.

Eftir setningu fyrri breytingalaganna er fyrirkomulagið annað. Almenningsheillahugtakinu var kastað fyrir almannaheillahugtakið, en félög sem starfa í þeirra þágu geta fengið inni á svokallaðri almannaheillaskrá að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Vera þeirra á skránni leiðir til þess að þau eru sjálfkrafa undanþegin tekju- og fjármagnstekjuskatti og framlög til þeirra eru frádráttarbær frá tekjum gefandans, frá 10-350 þúsund krónum á ári í tilfelli einstaklinga og allt að 1,5% af tekjum í tilfelli lögaðila.

Samhliða breytingunni var felld brott heimild til tekjufrádráttar gjafa og framlaga til félaga og málefna sem ekki eru á almannaheillaskrá. Árið 2020 hefði rekstraraðili í Grýtubakkahreppi t.a.m. getað styrkt uppsetningu leiksýningar hjá unglingadeild Grenivíkurskóla eða myndlistarsýningu í héraði og dregið framlagið frá tekjum en árið 2022 myndi slíkt framlag ekki skapa neinn rétt, enda hvorugt á almannaheillaskrá. Björgunarsveitin Ægir er á skrá og framlag því frádráttarbært, en hið sama verður ekki sagt um Íþróttafélagið Magna.

Og eða eða

Skilyrðin fyrir því að hljóta skráningu eru listuð í lögum um tekjuskatt en eftir upphaflegu breytinguna árið 2021 voru þau eftirfarandi; í fyrsta lagi þarf félag að starfa til almannaheilla og hafa það eina markmiðið samkvæmt samþykktum sínum. Í öðru lagi þarf að vera tryggt að hagnaði félags sé einvörðungu ráðstafað til þess markmiðs og tryggt að ef til slita kemur skuli eignir þess renna til áþekkrar hugsjónastarfsemi. Að endingu mátti félag ekki reka atvinnu, þá í skattaréttarlegu tilliti, nema í fjáröflunarskyni innan marka samþykkta félagsins eða ef atvinnustarfsemin hefur óverulega fjárhagslega þýðingu m.t.t. heildartekna þess.

Hér víkur loks að breytingunni frá árinu 2024 en með því var lokaskilyrðinu breytt. Nú er heimilt að stunda takmarkaða atvinnustarfsemi til fjáröflunar innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum og leiða má beint af tilgangi og atvinnustarfsemin hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu m.t.t. heildartekna eða er óverulegur hluti heildarstarfsemi.

Stefnt að fækkun á almannaheillaskrá?

Við fyrstu sýn virðist breytingin smá, en þegar betur er að gáð sést að í stað þess að orðið „eða“ komi á undan afmörkum heimilaðrar atvinnustarfsemi, þá er nú að finna orðið „og“. Varpa má ljósi á muninn með því að benda á að bón um að kaupa „kók og prins“ hefur allt aðra meiningu en bón um að kaupa „kók eða prins“. Atvinnustarfsemi þarf því nú bæði að vera innan ramma samþykkta en gæta þarf þess að hún hafi óverulega fjárhagslega þýðingu eða sé óverulegur hluti heildarstarfsemi.

Með öðrum orðum þá kann síðari breytingin að leiða til þess að starfsemi félags, sem í grunninn er rekið af hugsjón, geti dottið af skrá vegna of mikils umfangs atvinnurekstrar. Í dæmaskyni má hér nefna styrktarfélag sem gleymir sér og heldur of marga fjáröflunarviðburði, nú eða stærstu íþróttafélög landsins, sem hafa tekjur af þátttöku í alþjóðlegum keppnum og gegnum sölu leikmanna, en spjót skattyfirvalda beinast þegar að þeim.

Ekki verður um það deilt að breytingarnar hafa verið til mikilla heilla fyrir þau félög sem á almannaheillaskrá eru. Markmið þeirra var hins vegar tæplega að fækka einskiptisviðburðum eða letja frá styrkjagleði í heimabyggð. Að sama skapi verður forvitnilegt að sjá hvort ný breyting verður nýtt af skattyfirvöldum til grisjunar almannaheillaskrár.

Höfundur er lögfræðingur hjá Deloitte Legal.