Á árum áður lést fjöldi barna úr mislingum og öðrum barnasjúkdómum sem fólk í hinum vestræna heimi leiðir vart hugann að í dag. Víðtækar bólusetningar hafa enda stuðlað að langvarandi hjarðónæmi víðast hvar í heiminum gegn hinum illvígu sjúkdómum og hafa fleiri kynslóðir nú vaxið úr grasi án þess að sérstök ógn stafi af mislingum. En fyrir nokkrum árum síðan fór sjúkdómurinn, sem hafði því sem næst verið útrýmt, að gera vart við sig í vestrænum löndum á nýjan leik. Hlutfall bólusettra barna tók að lækka og samfélagsónæmi að veikjast. Öryggið hafði verið það viðvarandi að sífellt fleira fólk tók því sem gefnu, það sá ekki lengur nauðsyn fyrirbyggjandi aðgerða gagnvart ógninni.
Þetta er gömul saga og ný í öryggismálum.
Um miðja síðustu öld var Ísland á meðal stofnþjóða Atlantshafsbandalagsins, NATO. Tólf vestrænar þjóðir brugðust við þeirri ógn sem að steðjaði á stríðsárunum með því að efna til varnarbandalags og hefur aðildarlöndum fjölgað mikið síðan. Í fleiri áratugi hafa Íslendingar upplifað öryggi gagnvart stríðsógn undir verndarvæng bandalagsins. Íslendingar eiga engan her, og ólíkt því sem gerist í mörgum löndum í kringum okkur eru íslensk ungmenni ekki send í herþjálfun og jafnvel til fjarlægra landa í hernaðarverkefni sem sum hver snúa ekki til baka úr. Íslenskir foreldrar þekkja blessunarlega ekki ótta og sorg margra fjölskyldna í nágrannalöndum okkar. Þetta er fórn sem aðrar þjóðir færa til að tryggja öryggi sitt – og um leið öryggi Íslendinga. Fleiri kynslóðir hafa hér vaxið úr grasi án þess að sérstök ógn stafi af stríðsátökum. Öryggið hefur verið það viðvarandi að sífellt fleira fólk tekur því sem gefnu, það sér ekki lengur nauðsyn fyrirbyggjandi aðgerða gagnvart ógninni.
Sumir fögnuðu brottför varnarliðsins á sínum tíma og þykir sumum það enn sérstök dyggð friðelskandi þjóðar að vera án þess. Við stærum okkur af því að vera friðsæl og herlaus þjóð, eins og það sé einhver upphefð, án þess að leiða hugann að því að það séum við fyrir tilstilli fórna annarra þjóða, annarra friðelskandi þjóða sem hafa ekki möguleika á því að vera án hers en halda uppi vörnum fyrir okkur.
Flestum þykir sú tilhugsun að hernaðaraðgerðir Rússa gætu náð hingað til lands fjarstæðukennd, en það er hættulegt vanmat á stöðu mála.
Spenna fer vaxandi og miklar líkur eru á því að átökin snerti NATO-þjóðir með beinum hætti fyrr en síðar – og þá er það afar varhugaverð staða að vera veikasti hlekkurinn í varnarbandalaginu. Ef Pútín ætlar sér í stríð við NATO er Ísland auðvelt skotmark, nokkurs konar akkillesarhæll varinna þjóða. Okkur gengi illa að halda uppi vörnum gegn árás og það tæki NATO lengri tíma en ella að bregðast við, þar sem hér er ekkert varnarlið. Við erum NATO-þjóð, staðsett á strategískt eftirsóknarverðum stað, bæði á milli Bandaríkjanna og Evrópu og á norðurslóðum – og þetta eru Rússar vel meðvitaðir um.
Eftir því sem dregur úr þrótti herafla Rússa á landi eykst mikilvægi rússneska Norðurflotans sem sækir fram Norður-Atlantshafið. Þar er Ísland ekki stikkfrí og Pútín mun gefa lítið fyrir að Íslendingar séu friðelskandi þjóð.
Geir Ove Øby, fastafulltrúi Íslands í NATO, hélt erindi um viðbragð NATO við innrás Rússa í Úkraínu á fundi ungliðanefndar samtakanna Varðbergs um stöðu varnarmála á Íslandi á dögunum. Þar lagði hann sérstaka áherslu á mikilvægi viðbragðs þjóða, undirbúning þeirra og skipulag. Efni erindis hans var varla nokkur tilviljun, enda nokkuð sem Íslendingar þurfa að huga betur að. Við þurfum að taka varnarmálin föstum tökum, fara skipulega yfir áhættuþætti og efla varnir okkar gegn þeim eftir bestu getu. Við þurfum að hætta að tala um varnarmál undir rós og við þurfum að hætta að láta eins og við séum yfir þau hafin. Við ættum að þiggja allan stuðning og liðsstyrk varnarbandalagsþjóða með þökkum og virktum, og gera það sem í okkar valdi stendur til þess að leggja lóð á vogarskálar varnarsamstarfsins, svo að við getum nú haldið áfram að stæra okkur af því að vera friðelskandi og herlaus þjóð – í friði.