Lækkun álverðs var nefnd sem ein skýring þess að afkoma Reykjavíkurborgar var aðeins 12,8 milljörðum króna verri en spár gerðu ráð fyrir þegar borgin birti hálfsársuppgjör sitt í síðustu viku.
Hærri verðbólga en áætlanir gerðu ráð fyrir var að vísu líka dregin til ábyrgðar. Það vekur reyndar ákveðna furðu, því þegar fjárhagsáætlun ársins 2023 var lögð fram í borgarstjórn í nóvember í fyrra var verðbólga þá þegar rúm 9%.
Vesalings verðbólgunni var líka kennt um slaka stöðu borgarinnar fyrir tæpu ári því í fréttatilkynningu til Kauphallar sagði borgin þá að ljóst að væri að áhrif aukinnar verðbólgu yrðu „töluverð fram á næstu ár“. Einnig sagði í sömu tilkynningu: „Útkomuspá gerir ráð fyrir að niðurstaðan verði neikvæð um 15,3 ma.kr. á líðandi ári, sem talsvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir og skýrist einkum af verðbólgu og vanfjármögnun á rekstri málaflokks fatlaðs fólks.“
Málefni fatlaðs fólks voru því enn ein ástæðan sem nefnd var til að skýra bága stöðu borgarinnar fyrstu sex mánuði ársins. Hvoru tveggja, verðbólgan og staðan í málefnum fatlaðra, var þó öllum ljós þegar fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var lögð fram. Þrátt fyrir það skeikaði um tæpa 13 milljarða króna fyrstu sex mánuði ársins.
Borgin út í skurð
Til að koma bókhaldi borgarinnar í betra stand var Orkuveita Reykjavíkur látin greiða 5,5 milljarða króna í arðgreiðslu inn á fyrri helming ársins. Sú arðgreiðsla var einum og hálfum milljarði, eða 37,5%, hærri en fjárhagsspá samstæðu OR gerði ráð fyrir þegar hún var samþykkt í stjórn 3. október í fyrra. Þessi miklu umskipti tóku aðeins um fimm mánuði. Ef arðgreiðslan hefði ekki verið hækkuð og henni ekki flýtt hefði hálfsársuppgjörið sýnt okkur 18 milljörðum króna verri stöðu en raun ber vitni.
Í byrjun maí á þessu ári skrifaði borgarstjóri á samfélagsmiðilinn sem þá hét enn Twitter að borgin gerði þá ráð fyrir að ná níu milljarða jákvæðum viðsnúningi á þessu ári. Þá voru liðnir fjórir af sex mánuðum, sem skiluðu sem fyrr segir tæplega 13 milljarða króna verri niðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ef borgarstjóri hefði verið meðvitaður um stöðuna hefði hann kannski ekki verið með jafn mikinn gorgeir og honum er annars tamt. En ef æðsti embættismaður borgarinnar er svo ómeðvitaður um stöðuna, svo blindur á að borgin stefni ekki í sex milljarða í plús heldur algerlega í mínus, er það sýnu alvarlegra en bara innistæðulaust raup. Hann er bílstjóri sem segir; Hér fram undan er beinn og breiður vegur, þegar hann er löngu kominn út í skurð.
Rangt mat á álverði
En svo vikið sé aftur að álinu og verðinu á þeim ágæta málmi. Á síðasta fjórðungi síðasta árs var álverð komið niður í þau mörk sem það er nú, eða rétt um 2.200 dollara tonnið. Á þriðja fjórðungi síðasta árs var það komið niður fyrir 2.500 dollara á tonnið. Hvað voru borgarstjóri og hans lið að gera ráð fyrir að álverð myndi vera á þessu ári? Allar fréttir þá voru á þann veg að álverð myndi áfram vera lágt á þessu ári og nú er spáð að álverð muni haldast lágt að minnsta kosti út árið. Borgarstjórinn hefði kannski mátt spyrja að þessu þegar hann hringdi upp í Orkuveitu til að panta snemmbúna arðgreiðslu þetta árið.
Það sem skiptir þó meira máli er að svo virðist sem velferð íbúa Reykjavíkur sé framvirk í áli. Er borgin svo illa stödd að ef áltonnið lækkar um 10-15% fer allt á hliðina?
Það er ljóst að núverandi meirihluti er búinn að missa tök á fjármálum borgarinnar, og um leið á stjórn hennar. Þá þýðir lítið að grípa til hálmstráa í tikynningum til kauphallar, jafnvel skreytni. Er nema von að markaðurinn hafi enga trú á útboðum borgarinnar