Það er næstum orðið klisjukennt að nefna að Ísland trónir reglulega á toppi alþjóðlegra mælikvarða um velsæld þjóða. Hvort sem litið er til félagslegra, efnahagslegra eða umhverfislegra þátta, er nokkuð ljóst að lífsgæði á Íslandi eru framúrskarandi.

Veðrið hins vegar ...

Það er í raun kraftaverki líkast að hér sé yfir höfuð byggð. Á þessari hrjóstrugu eldfjallaeyju þar sem veðrið er annaðhvort slæmt eða verra, mætum við iðulega veðurbarin til leiks. Hvar annars staðar er íþróttaleikjum barna aflýst vegna hagléls í júlí? Ef veðurfar væri mælikvarði í lífsgæðamælingum OECD myndum við sennilega hrapa niður alla lista.

En það býr kraftur í mótlæti. Kosturinn við slíkt veðravíti er að um leið og hitastigið nær tveggja stafa tölu, sólin brýst fram úr skýjunum og það lægir í eitt augnablik, þá grípur þjóðin gleðina af ákefð. Sumarið er varla komið og landsmenn allir hafa þegar fengið að njóta Tene-tásanna á heimavelli. Gleðin tilfinnanleg, þakklætið áþreifanlegt.

Þá þarf að njóta. Um helgina bárust fregnir víða úr smásölu af kaupglöðum landsmönnum: pallaolía, grill, sumarblóm, útihúsgögn og veigar runnu út eins og um síðustu forvöð væri að ræða. Mögulega verður veðurblíðan sjáanleg í hagtölum fjórðungsins, vonandi þó ekki í hríðfallandi framleiðni.

Kannski er vont veður einmitt ein rót efnahagslegrar velsældar okkar. Því þegar ekkert annað dregur mann út, þá vinnur maður, nýtir tímann og hugsar stórt. Þegar veðrið lokkar ekki, leitum við í innra landslag, nýjar hugmyndir og sköpunargleði.

Kannski er bara best að hafa þetta nákvæmlega svona. Því hugsið ykkur Ísland með alla sína kosti, velsæld – plús veðursæld.

Væri það ekki eiginlega ósanngjarnt fyrir alla hina?