Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lét í bæði Fréttablaðinu og Viðskiptablaðinu í síðustu viku í ljósi þá skoðun sína að stefna Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum hefði áhrif á húsnæðisverð. Í viðtalinu við Fréttablaðið sagði Ásgeir:

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lét í bæði Fréttablaðinu og Viðskiptablaðinu í síðustu viku í ljósi þá skoðun sína að stefna Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum hefði áhrif á húsnæðisverð. Í viðtalinu við Fréttablaðið sagði Ásgeir:

„Það liggur alveg fyrir, sama hvernig menn snúa því fram og til baka, að sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að brjóta ekki nýtt land undir ný hverfi, hefur áhrif á fasteignaverð í allri borginni. En vitaskuld er nægjanlegt rými fyrir nýtt húsnæði til staðar á þéttingarreitum innan borgarinnar – það bara tekur lengri tíma að koma þeim í gagnið. Við gætum horft fram á eitt eða tvö ár þar sem heldur hægir á framboði af nýjum eignum.“

Ef eitthvað er orðaði Ásgeir þetta með diplómatískum hætti. Óðinn hefur hvað eftir annað bent á að lóðaskortur hafi veruleg áhrif á húsnæðisverðið. Ef markaðsaðilar gætu bent á ný byggingarsvæði sem yrðu til reiðu innan skamms myndu verðhækkanir án efa temprast verulega.

En það er lítið sem hægt er að benda á og endalaus dráttur Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum veldur því að ekki er hægt að treysta á að lóðir verði til reiðu fyrr en seinna, þó að þær verði það líklega fyrr eða síðar – þó er mun líklegra að það verði síðar.

Yfir 60% í Reykjavík

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010- 2030, sem vitnað er í tillögu að aðalskipulagi 2040, segir:

Framboð landrýmis til uppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu gefur tilefni til þess að ætla Reykjavík stærri hlut í framtíðarvexti svæðisins en verið hefur undanfarin ár. Byggingarland í Reykjavík er um 60% af hugsanlegu framtíðarbyggingarsvæði á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt svæðisskipulaginu 2001–2024. Þegar tekið er tillit til miðlægrar legu svæða innan Reykjavíkur, þéttingarmöguleika og stefnu sveitarfélaganna um aukinn þéttleika byggðar, þá má ætla að hlutur Reykjavíkur í uppbyggingu á svæðinu gæti orðið meiri en 60% þegar horft er til langrar framtíðar.“ AR2010-2030, bls. 31.

Samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins frá í mars eru nú 3.523 íbúðir í byggingu og hafa þær ekki verið færri síðan í mars 2017. Mælist samdrátturinn um 21% frá talningu SI á sama tíma í fyrra, þegar íbúðir í byggingu voru 4.452 talsins. Í fjölda íbúða er þetta mesti samdráttur sem mælst hefur á höfuðborgarsvæðinu frá því að mælingar SI hófust árið 2010 og mesta hlutfallslega fækkun frá árinu 2011.

Íbúðir í byggingu í Reykjavík voru 52% allra íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu í mars 2019 og 57% í mars 2021. Það er undir þeim 60% sem Reykjavíkurborg sjálf telur sig geta staðið undir. Ábyrgð Reykjavíkurborgar er því mikil.

***

Samfylkingin er mikill lýðræðisflokkur eins og allir vita og vegna lýðræðisástarinnar var ekki haldið almennt prófkjör, eins og gert er í öllum alvöru stjórnmálaflokkum, heldur handvalið á lista flokksins fyrir alþingiskosningarnar í haust. Ein þeirra sem voru handvalin er Kristrún Frostadóttir, fyrrverandi hagfræðingur hjá Kviku banka og að eigin sögn stjörnuhagfræðingur, en um það má lesa á vefsíðu Mannlífs.

Stjörnuhagfræðingur á villigötum

En stjörnuhagfræðingurinn telur ummæli Ásgeirs seðlabankastjóra fráleit og segir meðal annars á Facebook-síðu sinni:

„Þeir sem byggja fasteignir bjóða í lóðir byggt á núverandi markaðsverði fasteigna. Að hleypa fullt af lóðum á markaðinn og halda því fram að aðilar sem standa að uppbyggingu muni allt í einu selja eignir undir núverandi markaðsvirði er óskhyggja.“

Hver var að tala um að hleypa fullt af lóðum á markaðinn? Enginn.

Það er hins vegar grunnskylda sveitarfélaga, sem eru með gríðarlegt vald í skipulagsmálum að lögum, að tryggja nægjanlegt framboð lóða. Það hefur Reykjavíkurborg ekki gert frá því að húsbyggingarmarkaðurinn tók við sér – einmitt um það leyti sem Samfylkingin hrökklaðist frá völdum í landsmálunum árið 2013.

***

En ástandið mun ekki batna á næstunni. Nú kvarta stjórnendur í ferðaþjónustunni yfir því að erfitt sé að fá starfsfólk. Það fólk mun koma að utan og það fólk mun þurfa húsnæði. Það verður því áfram sterk eftirspurn eftir fasteignum til kaups á höfuðborgarsvæðinu og leigumarkaðurinn mun án efa taka hressilega við sér.

En Dagur B. Eggertsson mun skýla sér bak við furðuhugmyndir stjörnuhagfræðingsins – sem allsendis óvíst er að verði stjörnuþingmaður, þar sem fylgi Samfylkingarinnar virðist vera í frjálsu falli samkvæmt skoðanakönnunum.

Sumir eru jafnari en aðrir

Á gamla vinnustað Kristrúnar var komið upp kaupaukakerfi sem þó var ekki háð afkomu bankans né hvernig einstaka starfsmenn stæðu sig. Þetta er vegna fáránlegra laga um starfsmenn fjármálafyrirtækja, sem eru einu starfsmenn fyrirtækja landsins sem ekki mega fá bónus fyrir vel unnin störf nema með umtalsverðum takmörkunum.

Þessar reglur voru settar af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem sat árin 2009-2013. Ekki er líklegt að fylgið muni aukast ef kemur í ljós að stjörnuhagfræðingurinn hafi fengið áskriftarréttindi í bankanum og hagnast verulega á því.

***

Óðinn telur rétt að enda skrif sín í dag á orðum seðlabankastjórans, sem hann birti á Facebook í kjölfar gagnrýni Kristrúnar og fleiri, sem sýnir að þó að menn séu sterkir í fræðunum geti þeir jafnframt haft góðan skilning á raunheimum. Það er mikilvægt að slíkir menn veljist til starfa í stofnun á borð við seðlabanka.

Í umræðu um fasteignamarkaðinn hættir okkur hagfræðingum til þess að týna okkur í vöxtum og lánaformum – en það er þó fólkið sjálft og langanir þess sem skiptir mestu. Á endanum ræður húsnæðisþörfin. Hún síðan ræðst af fjölda þeirra sem vantar þak yfir höfuðið – eða eignast sinn eigin kastala líkt og breski dómarinn Sir Edward Coke lýsti yfir árið 1604 – að heimilið sé kastali eða virki sem á að veita skjól fyrir umheiminum. Þetta verður að hafa í huga – nú þegar mesta mannfjölgun Íslandssögunnar á sér stað – ef litið er til fólks á kastalaaldri. Það er – á aldursbilinu 25- 75 ára. Sjaldan hefur verið eins mikil húsnæðisþörf og einmitt nú.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .