Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, lofaði því fyrir síðustu kosningar að flokkurinn myndi ekki hækka skatta kæmist hann í ríkisstjórn.

Var svo sérstaklega tekið fram að skattar á almenning yrðu ekki hækkaðir. Það tók ekki flokkinn langan tíma að svíkja það loforð og ekki gefur það að mati Týs góð fyrirheit fyrir framhaldið.

***

Afnám samsköttunar hjóna milli skattþrepa er ekkert annað en skattahækkun rétt eins og Vilhjálmur Birgisson verkalýðsleiðtogi og þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa bent á. Skattahækkun sem færir 2,5 milljarða úr vasa vinnandi fólks í hendur stjórnmálamanna.

Týr hjó eftir að Daði Má Kristófersson, fjármálaráðherra Viðreisnar, þrætti fyrir á þingi í vikunni að um væri að ræða skattahækkanir á almenning þar sem aðgerðin næði eingöngu til þeirra sem eru í efstu tekjuþrepunum í skattkerfinu. Þetta er sérstök sýn. Tilheyra sjómenn ekki almenningi og þorra launamanna í huga Viðreisnar? Ekki ungt fólk sem vinnur hörðum höndum og sinnir fleiri en einni vinnu til að koma sér þak yfir höfuðið?

***

Breytingin gerir það að verkum að hjón sem eru með 800 þúsund kall hvort í laun á mánuði greiða eftir sem áður 4,68 milljónir króna í skatt á ári. Skattar á hjón eða sambýlisfólk þar sem annað er í námi og þar af leiðandi án tekna en hitt með ríflega 1,5 milljón á mánuði til að framfleyta heimilinu hækka um tæplega 200 þúsund á ári.

Tý þykir sérlega óskammfeilið hjá fjármálaráðherranum að segja þetta ekki vera neina skattahækkun og tala eins og álagningin leggist bara á eitthvert huldufólk sem öllum er saman um og tilheyri ekki íslenskum almenningi. Staðreynd málsins er að breytingin leggst á þorra almennings enda spyr ástin ekki um skattþrep og fjölmörg dæmi eru um að fólk með misháar tekjur hefji sambúð.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 9. apríl 2025.