Þorsteinn Víglundsson, sem meðal annars hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og hefur gegnt embætti þingmanns og ráðherra innan Viðreisnar, skrifaði eftirtektarverða grein á Vísi í síðustu viku.
Þorsteinn Víglundsson, sem meðal annars hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins og hefur gegnt embætti þingmanns og ráðherra innan Viðreisnar, skrifaði eftirtektarverða grein á Vísi í síðustu viku.
Í greininni rökstyður Þorsteinn þau viðteknu sannindi að launahækkanir umfram framleiðnivöxt leiði á endanum til verðbólgu. Þróun kaupmáttar helst í hendur við framleiðniaukningu til lengri tíma litið. Þar af leiðandi valdi launahækkanir umfram framleiðniaukningu hagkerfisins verðbólgu. Þetta sýnir reynsla annarra ríkja eins og Þorsteinn fer yfir í grein sinni.
Hagkerfi Íslands var áratugum saman fast í vítahring verðlags- og kauphækkana. Varla er liðinn hálfur mannsaldur síðan Íslandi lánaðist að rjúfa áðurnefndan vítahring með Þjóðarsáttinni í febrúar 1990.
***
Í grein sinni gagnrýnir Þorsteinn verkalýðsforystuna og fjölmiðla harðlega. Þorsteinn segir:
„Síendurtekin afneitun nýrrar forystu íslenskrar verkalýðshreyfingar á þessum einföldu staðreyndum sýnir einfaldlega vanhæfni hennar til þeirra starfa sem þau hafa boðið sig fram til. Hvergi annars staðar á Norðurlöndunum sjáum við verkalýðsforystuna haga sér með jafn óábyrgum hætti.
Það sem er hins vegar enn merkilegra er viðvarandi meðvirkni íslenskra fjölmiðla með þessu ástandi. Forystufólk verkalýðshreyfingarinnar hefur árum saman fengið að halda því fram gagnrýnislaust í íslenskum fjölmiðlum að launahækkanir hér á landi valdi ekki verðbólgu. Þrátt fyrir síendurtekin varnaðarorð Seðlabanka og fjölmargra annarra um hið gagnstæða. Þrátt fyrir að slík vinnubrögð fyrirfinnist hvergi annars staðar á Norðurlöndunum. Þrátt fyrir það hversu auðvelt er að sýna fram á að slíkar fullyrðingar eru án allrar innistæðu.”
***
Það er óhætt að taka undir gagnrýni Þorsteins á verkalýðshreyfinguna. Eins og margsinnis hefur verið fjallað um á þessum vettvangi hafa forystumenn hennar á undanförnum árið margoft verið staðnir að því að halda fram staðlausum stöfum um efnahagsmál í fjölmiðlum. Á sama tíma hafa fjölmiðlar endurómað þennan málflutning gagnrýnislaust eins og Þorsteinn bendir á í grein sinni.
Þetta einskorðast ekki við forystu verkalýðshreyfingarinnar. Þannig birtist viðtal við Auði Ölfu Ólafsdóttur, verðlagseftirlitsstjóra Alþýðusambands Íslands, í fréttum Stöðvar 2 um helgina. Tilefni viðtalsins var ný könnun ASÍ á þróun verðlags matvöru. Niðurstaða könnunarinnar var að verðlag hefði hækkað mikið á undanförnum þrettán mánuðum og hefur hækkunin í einstaka vöruflokkum verið á bilinu 10-25%. Með öðrum orðum er matvara að hækka umfram verðbólgu.
Þetta er vissulega grafalvarlegt mál og ætti að brýna fyrir stjórnvöldum hversu mikilvægt það er að grípa til skilvirkra aðgerða til þess að ná niður verðbólgu. En það sem vakti sérstaka athygli við fréttina voru útskýringar verðlagsstjórans á þessari verðlagsþróun matvöru. Haft var eftir Auði Ölfu:
„Heimsfaraldurinn og Úkraínustríðið hafa auðvitað haft mikil áhrif. Svo er íslenskur matvörumarkaður auðvitað fákeppnismarkaður, sem hjálpar ekki til og gerir það að verkum að verðhækkanirnar eru meiri en ella.“
Það er vissulega rétt að ástand alþjóðamála hefur haft mikið um þróun verðlags að segja. Áhrifin eru núna að brjótast fram þegar kemur að verðlagningu matvæla. Þegar litið er til stöðunnar á Vesturlöndum má sjá að meðan verðbólga er að mælast á bilinu 7-10% þá er matvælaverðbólga um 15-20% um þessar mundir. Það er nákvæmlega sama staða og er hér á landi.
***
Það er þess vegna ekkert séríslenskt við verðhækkanir á matvöru hér á landi. Auður Alfa kveður svo kunnuglega stemmu um fákeppnina. Útbreiddur misskilningur er á hugtakinu fákeppni í umræðu um efnahagsmál hér á landi.
Í fyrsta lagi þýðir fákeppni ekki skort á samkeppni. Það er notað í hagfræðilegum skilningi til þess að lýsa ákveðnum tegundum á mörkuðum þar sem aðgangshindranir eru miklar og nauðsynleg stærðarhagkvæmni næst ekki nema hjá fyrirtækjasamsteypum af ákveðinni stærð sem hafa möguleika á að viðhalda mikilli fjárbindingu. Það er ekkert sérstakt við þá stöðu sem er hér á landi að nokkur fyrirtæki deili með sér stærstum hluta markaðarins með dagvöru. Það sama er uppi á teningnum í flestum ríkjum Evrópu. Samkeppni væri ekki meiri og verðlag lægra ef markaðurinn samanstæði af fjölmörgum litlum verslunum út um allt land.
Þetta er hluti úr Fjölmiðlapistli sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pistilinn í heild sinni hér.