Óðinn fjallar um verðbólguna í Viðskiptablaðinu í morgun.

Pistillinn nefnist Verðbólga og vaxtahækkun í boði ríkisstjórnar Katrínar, en áskrifendur geta lesið hann í heild hér.

Hér að neðan er lok pistilsins.

Alþingismenn á villigötum

Á þriðjudag voru umræður um verðbólguna í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

Til svara var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra en málshefjendur voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Logi Einarsson fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar.

Í stuttu máli má segja að Katrín taldi að hækkun gjalda sem olli hækkun verðlags í janúar hafi verið réttlætanlega og benti á mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til þeirra sem verst hafa það. Hún sagði einnig að Seðlabankinn bæri höfuðábyrgð á verðbólgunni.

Þorgerður taldi hækkun gjalda fráleidda og vildi heldur hækka veiðigjöld. Logi Einarsson fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar vildi að auki hækka fjármagnstekjuskatt.

Má segja að öll þrjú hafi haft rangt fyrir sér. Seðlabankinn getur ekki barist við verðbólguna þegar ríkisstjórnin er að vinna gegn stefnu hans með gegndarlausum útgjöldum.

Á því ber Katrín Jakobsdóttir ekki síst ábyrgð.

***

Vandamál ríkis og sveitarfélaga er ekki tekjuvandi heldur útgjaldavandi. Hækkun skatta mun ekki draga úr verðbólgu nema ríki og sveit spari þá fjármuni. Sparnaður er hugtak sem er gleymt á Íslandi.

Bæði hjá almenningi, þar sem sparnaður hefur verið ríkisvæddur í gegnum lífeyrissjóðina. Og ekki síður hjá hinum opinbera þar sem aðhaldið er nákvæmlega ekkert.

Niðurstaðan er þessi. Seðlabankinn þarf að hækka vexti enn meira til að koma böndum á verðbólguna. Nú er meginorsök verðbólgunnar ekki lengur verðhækkun fasteigna heldur ríkisútgjöldin.

***

Það er rétt að rifja upp orð Ronald Reagan sem sagði að níu mest ógnvekjandi orðin í enskri tungu væru. Þau eiga sérstaklega vel við þá ríkisstjórn sem nú situr í skjóli Sjálfstæðisflokksins.

Ég kem frá ríkinu og er hér til að hjálpa.

Pistill Óðins birtist Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, fimmtudag inn 2. febrúar 2022. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér og blaðið í heild sinni hér.